Efnahagsmál - 

15. febrúar 2008

Atvinnulífið hefur aukið samkeppnishæfni Íslands

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið hefur aukið samkeppnishæfni Íslands

Norðurlöndin eru ofarlega á blaði þegar samkeppnishæfni þjóða heims er borin saman. Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt byggist árangur þeirra þó á ólíkum þáttum. Góður árangur Íslands byggist öðru fremur á skilvirkni atvinnulífs, en þar var Ísland í 2. sæti í heiminum á árunum 2005-2007. Þegar á hinn bóginn er litið til mælikvarðans skilvirkni stjórnvalda er árangur Íslendinga í meðallagi miðað við önnur ríki Norðurlanda og árangur okkar á sviði stofnanaumgjarðar er lakastur. Skýrist það m.a. af slakri grunngerð almennt, tiltölulega litlum útflutningi á hátæknivörum og takmörkuðum árangri á sviði vöruþróunar. Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu dr. Helgu Kristjánsdóttur, við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands um samkeppnishæfni Norðurlandanna en í henni er m.a. stuðst við gögn IMD viðskiptaháskólans. Fram kemur skýrt í skýrslunni að Íslendingar geti enn bætt árangur sinn hvað varðar alþjóðlega samkeppnishæfni og þar með aukið verðmætasköpun og velferð.

Norðurlöndin eru ofarlega á blaði þegar samkeppnishæfni þjóða heims er borin saman. Þrátt fyrir að eiga margt sameiginlegt byggist árangur þeirra þó á ólíkum þáttum. Góður árangur Íslands byggist öðru fremur á skilvirkni atvinnulífs, en þar var Ísland í 2. sæti í heiminum á árunum 2005-2007. Þegar á hinn bóginn er litið til mælikvarðans skilvirkni stjórnvalda er árangur Íslendinga í meðallagi miðað við önnur ríki Norðurlanda og árangur okkar á sviði stofnanaumgjarðar er lakastur. Skýrist það m.a. af slakri grunngerð almennt, tiltölulega litlum útflutningi á hátæknivörum og takmörkuðum árangri á sviði vöruþróunar. Þetta kemur m.a. fram í nýrri skýrslu dr. Helgu Kristjánsdóttur, við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands um samkeppnishæfni Norðurlandanna en í henni er m.a. stuðst við gögn IMD viðskiptaháskólans. Fram kemur skýrt í skýrslunni að Íslendingar geti enn bætt árangur sinn hvað varðar alþjóðlega samkeppnishæfni og þar með aukið verðmætasköpun og velferð.

Hvað ræður mikilli samkeppnishæfni Norðurlandanna?

Norðurlöndin, Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, hafa öll sýnt góðan árangur í alþjóðlegum rannsóknum á samkeppnishæfni. Í skýrslu Helgu er rannsakað hvaða þættir ráða mestu um mikla samkeppnishæfni Norðurlandanna. Í skýrslunni er jafnframt að finna tölfræðilega greiningu á samkeppnishæfni og tengslum við alþjóðlegar fjárfestingar, en í þessari samantekt er þó ekki frekar fjallað um það efni.

Meðal fremstu rannsókna í heiminum á samkeppnishæfni er árleg skýrsla svissneska viðskiptaháskólans Institute for Management Development (IMD), World Competitiveness Yearbook, en þess má geta að ýmsir aðrir aðilar birta einnig rannsóknir um sama efni, t.d. World Economic Forum (Global Competitiveness Report). Til þess að kanna samkeppnishæfni Norðurlandanna og stöðu þeirra í alþjóðlegum samanburði er í rannsókn Helgu einkum stuðst við gögn frá IMD frá árunum 1996-2007. Samkvæmt aðferð IMD er  samkeppnishæfni skilgreind sem geta þjóða til þess að skapa og viðhalda umhverfi sem tryggir fyrirtækjum samkeppnishæfni til aukinnar verðmætasköpunar.

Mæling IMD á samkeppnishæfni er samsett úr eftirfarandi fjórum meginþáttum:

  • efnahagslegri frammistöðu (Economic Performance),

  • skilvirkni stjórnvalda (Government Efficiency),

  • skilvirkni atvinnulífs (Business Efficiency) og

  • stofnanaumgjörð (Infrastructure).

Hver þessara þátta skiptist í fimm undirliði, en niðurstaða um þessa þætti byggist hins vegar á mælikvörðum sem eru alls á fjórða hundrað talsins.

Í rannsókn Helgu er leitast við að bera saman árangur Norðurlandanna í heild sinni og einstakra undirþátta í samkeppnishæfni og leiða þannig í ljós hverjir eru helstu styrkleikar og veikleikar. Norðurlöndin hafa sem fyrr segir jafnan sýnt góðan árangur og hafa þau á árunum 2003-2007 lent í 3. - 17. sæti af yfir 50 þjóðum sem mæling IMD tekur til. Bandaríkin, Singapúr, Hong Kong og Lúxemborg hafa oft verið í efstu sætum, en þar á eftir fylgja Norðurlöndin ásamt löndum á borð við Sviss, Holland, Kanada, Austurríki, Ástralíu og Írland.

Meðal Norðurlandanna hafa Ísland og Danmörk skipst á forystu. Ísland var þannig í sjöunda sæti árið 2007 og Danmörk í því fimmta, en árin 2005 og 2006 var Ísland í fjórða sæti, en Danmörk í sjöunda sæti fyrra árið en fimmta sæti það síðara. Önnur ríki Norðurlönda hafa mælst nokkuð aftar í röðinni. Finnland var í 3.-5. sæti á árunum 2003-2005, en hefur síðan lækkað niður í 17. sæti árið 2007. Svíþjóð hefur oftast verið í 10.-14. sæti og Noregur í 12.-17. sæti.

Norðurlöndin eiga sér margt sameiginlegt. Öll eru löndin tiltölulega fámenn, en hagkerfi þeirra hins vegar fremur opin. Þau reka öll umfangsmikið velferðarkerfi, skattar eru því háir og ríkisrekstur umfangsmikill. Þátttaka kvenna á vinnumarkaði er mikil og áhersla er á þýðingu vinnumarkaðarins. Á öllum Norðurlöndunum er sterk miðstétt, en ýmsar kenningar benda til að slíkt leiði til dýpri og traustari vinnumarkaðar. Þá er tæknistig hátt og tækni aðgengileg. Ýmislegt er einnig ólíkt með Norðurlöndunum. Til dæmis eru skattar misháir og uppbygging skattkerfa og lífeyriskerfa ólík. Þá er sveigjanleiki vinnumarkaðar mismikill.

Meðal athyglisverðra niðurstaðna í rannsókninni er að þótt árangur Norðurlandanna hafi í heild sinni almennt verið góður hvað samkeppnishæfni varðar, byggist hann á ólíkum undirþáttum. Góður árangur Íslands byggist öðru fremur á forystu meðal Norðurlandanna í skilvirkni atvinnulífs, en þar var Ísland í 2. sæti í heiminum á árunum 2005-2007. Þegar þessi frábæri árangur er skoðaður betur og litið til undirþátta kemur í ljós að hann byggist sérstaklega á jákvæðum viðhorfum og gildum, skilvirkum stjórnunaraðferðum og góðs árangurs á vinnumarkaði, en hins vegar hefur árangur á sviði framleiðni og afkasta oft ekki verið góður , en þar hafa Noregur, Finnland og Danmörk staðið sig mun betur.

Miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir hefur efnahagsleg frammistaða Íslands verið góð. Skýrist það einkum af mikilli atvinnuþátttöku og erlendri fjárfestingu, en óstöðugt verðlag og viðskiptahalli hafa þó vegið á móti. Árangur Íslands á heimsvísu er þó lakari en æskilegt væri eða 11.-18. sæti. Árangur frændþjóða okkar er hins vegar ennþá slakari.

Þegar á hinn bóginn er litið til mælikvarðans skilvirkni stjórnvalda er árangur Íslendinga í meðallagi. Danir standa okkur þar framar og Finnar að hluta einnig. Þegar litið er nánar á undirliði þessa mælikvarða styrkir það að vísu stöðu Íslands að viðskiptalöggjöf er talin góð og sömuleiðis er staðan talin góð varðandi reglur á vinnumarkaði, jafnrétti kynja og löggjöf um útlendinga. Það sem dregur niður árangur er hins vegar stjórn peningamála, háir vextir og óstöðugt gengi krónunnar.

Miðað við önnur ríki Norðurlönda er árangur Íslendinga lakastur varðandi stofnanaumgjörð. Skýrist það m.a. af slakri grunngerð almennt, tiltölulega litlum útflutningi á hátæknivörum, takmörkuðum árangri á sviði vöruþróunar sem leiðir til einkaleyfa og mikils kostnaðar við Internetnotkun. Aftur á móti er árangur á sviði mennta-, heilbrigðis- og umhverfismála talinn góður og breiðbands- og Internetnotkun mikil.

Af upplýsingum sem fram koma í skýrslunni og gögnum IMD sem þar er stuðst við má m.a. draga þá ályktun að Íslendingar geti enn bætt árangur sinn hvað alþjóðlega samkeppnishæfni varðar og þar með aukið verðmætasköpun og velferð. Verður þetta helst gert með því að bæta árangur á þeim sviðum þar sem hann hefur verið slakur og nefnt er hér að framan, t.d. með því að styrkja almenna grunngerð atvinnulífsins, auka vöru- og tækniþróun sem og með umbótum á sviði peningamála og hagstjórnar til þess að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla.

Skýrsluna "Determinants of Nordic Competitiveness" má nálgast hér

Samtök atvinnulífsins