Efnahagsmál - 

01. Desember 2005

Atvinnulífið græðir á jafnrétti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið græðir á jafnrétti

Jafnréttismál hafa lengi verið knýjandi umræðuefni í samfélaginu, en það er þó ekki fyrr en á allra síðustu árum að sjónir hafa beinst meira að stöðu karla í þessu sambandi og að jafnrétti í ákvörðunum og skyldum á heimilunum sé jafn mikilvægt og þurfi að haldast í hendur við jafnrétti í stjórnarherbergjunum og atvinnulífinu almennt.

Jafnréttismál hafa lengi verið knýjandi umræðuefni í samfélaginu, en það er þó ekki fyrr en á allra síðustu árum að sjónir hafa beinst meira að stöðu karla í þessu sambandi og að jafnrétti í ákvörðunum og skyldum á heimilunum sé jafn mikilvægt og þurfi að haldast í hendur við jafnrétti í stjórnarherbergjunum og atvinnulífinu almennt.  

Mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins
Það fór því vel á því hjá félagsmálaráðherra að hafa frumkvæði að sérstakri karlaráðstefnu um jafnréttismál í morgun, á sjálfan fullveldisdaginn. Þar brást hann við hugmynd frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta, sem lengi hefur skilið að karlar yrðu líka að gera þessi mál að sínum, ef árangur á að nást. 

Það má fullyrða að skilningur hefur vaxið mikið á því í atvinnulífinu að það er mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins að konur og karlar eigi í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og launa. Rannsóknir sýna að áhersla á jafnréttismál fer að minnsta kosti saman við áherslu á góða stjórnarhætti í fyrirtækjum og þau fyrirtæki sem sinna þessu ná betri rekstrarárangri. Fjölbreytni styrkir stjórnun og skapar fyrirtækjum verðmæti og ómálefnaleg mismunun í umbun fyrir unnin störf  felur í sér sóun á fjármunum fyrirtækja.

Endurskoða þarf hefðir, venjur og viðhorf
Í umræðum um atvinnulíf og jafnrétti hefur svokallaður kynbundinn launamunur eðlilega skipað stóran sess. SA og fleiri aðilar hafa lagt sig eftir að finna orsakir fyrir þeim mun, svokallaðar skýringarbreytur, en slíkar upplýsingar geta vissulega veitt leiðsögn um það hverju þarf raunverulega að breyta í samfélagi okkar ef jafnrétti á að nást í reynd. Það getur hins vegar ekki verið nóg að greidd séu sömu laun fyrir sömu vinnu, ef aðstæður í þjóðfélaginu leiða til mynsturs verkaskiptingar, starfsvals og vinnutíma, sem skilar þeirri niðurstöðu að konur hafi þegar upp er staðið einungis 63% af heildarlaunum karla, hverju sem um er að kenna. Þá er auðvitað ekki verið að tala um hluti sem er á færi atvinnulífsins eins að breyta, heldur snýst meira um hefðir, venjur og viðhorf í samfélaginu öllu, en þetta er einfaldur mælikvarði sem vitnar um stöðu mála þegar allt kemur til alls. 


Breytingar eru mögulegar
Sem betur fer vitnar reynslan um að hægt er að stuðla að breytingum og það á að hvetja okkur áfram. Er t.d. ánægulegt að sjá þá miklu fjölgun kvenna í framkvæmdastjórastöðum hjá skráðum hlutafélögum sem orðið hefur á undanförnum fimm árum. Það þarf að halda áfram að greina þá þætti í uppbyggingu samfélagsins sem sporna gegn jafnri atvinnuþátttöku karla og kvenna. Þar hefur ójafna skiptingu fjölskylduábyrgðar borið hæst og stórt skref verið stigið með breyttu fæðingarorlofi gagnvart breytingum á því til framtíðar. Þar hafa karlar verið vannýtt auðlind eins og konur gagnvart atvinnulífinu.

Einstaklingsbundnar forsendur
Ýmsar rannsóknir sýna okkur að fleiri konur en karlar leggja áherslu á tiltekna hluti og öfugt, en réttindi einstaklingsins verða ekki afgreidd með slíkum meðaltölum. Hver og einn á rétt á því að vera metinn útfrá einstaklingsbundnum forsendum og við verðum öll að hætta að horfa á svart hvítar klysjur um eðli og áhugamál kynjanna ef það markmið á að nást í atvinnulífinu að það skipti í reynd engu máli hvort þú ert karl eða kona. 

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins