Vinnumarkaður - 

19. Apríl 2011

Atvinnulífið fjárfestir til að minnka atvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið fjárfestir til að minnka atvinnuleysi

Aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda hafa komist að samkomulagi um fjármögnun menntaátaks fyrir atvinnulausa. Stór hluti átaksins greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður er af atvinnurekendum í gegnum atvinnutryggingagjald. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir fólk og fyrirtæki í baráttunni gegn atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki.

Aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda hafa komist að samkomulagi um fjármögnun menntaátaks fyrir atvinnulausa. Stór hluti átaksins greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður er af atvinnurekendum í gegnum atvinnutryggingagjald. Þetta er mikilvægur áfangi fyrir fólk og fyrirtæki í baráttunni gegn atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki.

Átakið  Nám er  vinnandi vegur er tvíþætt. Annars vegar verður öllum umsækjendum undir 25 ára aldri tryggð skólavist í framhaldsskóla að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sama á við um þá sem eru eldri og hafa lokið raunfærnimati. Þá verður í boði framhaldsfræðsla og heildstætt nám í fjarkennslu. Undanfarin misseri hefur hundruðum eldri nemenda verið snúið frá framhaldsskólum vegna fjárskorts en það breytist nú. Kostnaður vegna þessa verður fjármagnaður úr ríkissjóði.

Hins vegar verður allt að eitt þúsund atvinnuleitendum, 25 ár og eldri, boðin ný námstækifæri í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu frá næsta hausti hafi þeir verið  atvinnulausir lengur en 6 mánuði. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkti í morgun að leggja allt að 400 milljónir í þennan hluta verkefnisins á þessu ári svo tryggt sé að það gæti hafist í haust.

Jafnframt var samþykkt að sjóðurinn styrkti tímabundið  þá atvinnuleitendur í átakinu sem ekki komast í lánshæft nám. Atvinnuleitendum verður beint m.a. í starfsnám og styttra tækninám þar sem eftirspurn er eftir sérmenntuðu starfsfólki. Aðilar vinnumarkaðarins telja mikilvægt í ljósi sívaxandi langtímaatvinnuleysis að byrja að undirbúa  átakið strax svo það geti farið í gang af fullum þunga í haust.

Þá hefur verið ákveðið, með aðkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs, að efla starfstengt nám á framhalds- og háskólastigi og  auka samstarf fyrirtækja og skóla svo tryggt sé að nemendur geti lokið verklegum þáttum námsins innan tilskilins námstíma.

Loks mun Atvinnuleysistryggingasjóður fjölga verulega starfstengdum úrræðum fyrir atvinnuleitendur. Það hefur reynst langbest til að koma fólki í vinnu, að fá fyrirtæki til að þjálfa það í tiltekinn tíma með tilstyrk sjóðsins.

Samtök atvinnulífsins