Samkeppnishæfni - 

03. desember 2009

Atvinnulífið er hluti af lausninni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulífið er hluti af lausninni

Víða um heim hafa fjölmörg samtök viðskiptalífsins og einstök fyrirtæki, bæði stór og smá, hvatt til þess að sátt náist sem fyrst um nýtt loftslagssamkomulag. Það er nauðsynlegt til að fyrirtæki geti gert áætlanir til lengri tíma um fjárfestingar og stundað rannsóknir til að þróa nýja tækni til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bæta orkunýtingu. Útilokað er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og án þess að atvinnulífið verði virkur þátttakandi í því verkefni.

Víða um heim hafa fjölmörg samtök viðskiptalífsins og einstök fyrirtæki, bæði stór og smá, hvatt til þess að sátt náist sem fyrst um nýtt loftslagssamkomulag. Það er nauðsynlegt til að fyrirtæki geti gert áætlanir til lengri tíma um fjárfestingar og stundað rannsóknir til að þróa nýja tækni til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bæta orkunýtingu. Útilokað er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og án þess að atvinnulífið verði virkur þátttakandi í því verkefni.

Augljóst er að á næstu árum og áratugum verður gríðarlega umfangsmikill markaður fyrir framleiðslutækni þar sem útstreymi gróðurhúsalofttegunda er takmarkað eins og kostur er. Sérstaklega á þetta við um orkuframleiðslu þar sem nýjar fjárfestingar eru undirbúnar á löngum tíma og orkuverunum ætlað að standa um áratugi. Því fyrr sem komist er að samkomulagi og það skýrist hver stefnan verður næstu ár og áratugi því auðveldara verður fyrirtækin að beina kröftum sínum í rétta átt. Það á við um þróun nýrra orkugjafa, leiðir til að fanga kolefni úr útstreymi og koma fyrir í jarðlögum, aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, betri orkunýtingu og aukið orkuöryggi.

Nauðsynlegt er að nýtt loftslagssamkomulag skapi fyrirtækjum tækifæri og hvetji til þess að atvinnulífið fjárfesti í rannsóknum og nýsköpun og leiti markaða fyrir nýja tækni m.a. á erlendum mörkuðum. Ekki má hrófla við hugverkarétti og einkaleyfum sem eru grundvöllur þess að atvinnulífið leggur fé til rannsókna og nýsköpunar - oft með óvissum árangri. Ef ekki er fullvissa um að fyrirtæki njóti afrakstursins þegar hann kemur í ljós dregur úr vilja þeirra til að leita nýrrar tækni og markaðssetja lausnir og þær breytingar sem verið er að kalla eftir verða hægari en ella.

Alþjóðleg stefnumótun og aðgerðir einstakra ríkja verða ennfremur að styðja við tækniþróun, samvinnu milli ríkja og samstarf opinbera geirans og einkafyrirtækja. Greiða verður fyrir því að nýjar lausnir geti átt greiða leið til þróunarríkjanna.

Einnig er nauðsynlegt að hvatt verði til fjárfestinga einkageirans á þessu sviði og fundnar nýjar leiðir til fjármögnunar. Markaður fyrir útstreymisheimildir er þegar til staðar ásamt öðrum fjármögnunarleiðum. Þessar leiðir þarf að bæta, auka gagnsæi, virkni þeirra og að fjármögnunin verði fyrirsjáanleg.

Stjórnvöld ættu að leita ráða hjá atvinnulífinu og nýta þá sérþekkingu sem býr í fyrirtækjum og samtökum þeirra.

Megináherslur atvinnulífsins

Það eru einkum fjögur atriði sem atvinnulífið leggur mesta áherslu á við gerð nýs loftslagssamkomulags.

Í fyrsta lagi verða öll stærstu hagkerfi heims að hefjast handa við að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er. Það á við um iðnríkin sem verða að setja sér ákveðin bindandi mörk og eins um stór þróunarríki sem verða að snúa af þeirri leið sem kalla má afskiptalausa þróun. Þróunarríkin verða að marka þá stefnu sem fyrst að setja sér einnig ákveðin útstreymismarkmið.

Í öðru lagi verður samkeppnisstaða fyrirtækja að vera svipuð um allan heim. Það er engin lausn fólgin í því að setja fyrirtækjum í iðnríkjunum ströng útstreymismörk en á sama tíma séu allt aðrar og minni kröfur gerðar til sambærilegrar starfsemi annars staðar í heiminum. Í þessu skyni geta mörk fyrir ákveðna geira atvinnulífsins hjálpað til og eins sambærileg árangursviðmið. Það er heldur engin lausn í því fólgin að ákveðin ríki eða svæði leggi innflutningsgjöld á vörur til að vinna gegn útstreymi í öðrum ríkjum. Slíkar aðferðir eru ekki líklegar til að skila árangri í baráttu við loftslagsbreytingar og geta haft slæm áhrif á lífskjör almennings og skekkt samkeppnisstöðu atvinnulífs þess ríkis sem leggur á tollana. Þá eru umhverfisáhrifin í besta falli sáralítil og slík gjöld geta að auki leitt til gagnaðgerða annarra ríkja.

Í þriðja lagi verður að styrkja markaðslausnir til að draga úr útstreymi og tengja saman þróuð svæði og þróunarríkin. Sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar hafa reynst þýðingarmikil. Nauðsynlegt er að þau verði hluti af nýju loftslagssamkomulagi og gildissvið þeirra verði víkkað og notkun auðvelduð. Með þessu verður auðveldara en ella að leita hagkvæmustu leiða til að draga úr útstreymi og fjárstreymi til þróunarríkjanna mun aukast.

Í fjórða lagi verður að skapa góð skilyrði til fjárfestinga. Styðja þarf við þær aðferðir sem hagkvæmastar eru og skilað geta mestum árangri til að draga úr útstreymi. Það er víða afar hagkvæmt að draga úr orkunotkun t.d. með betri orkunýtingu í byggingum, bættum vélbúnaði og öðrum einföldum aðgerðum. Einnig virðast aðgerðir til að draga úr skógareyðingu og aukin nýting kjarnorku vera afar hagkvæmar í þessu skyni. Aukin nýting endurnýjanlegra orkulinda er einnig lykilþáttur í að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. 

Pétur Reimarsson

Samtök atvinnulífsins