1 MIN
Atvinnulífið styður styttingu bótatímabils
„Atvinnutryggingagjaldið er nú 1,35% af gjaldstofni tryggingagjalds. Miðað við áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tryggingagjöldum skv. fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2026 ættu að vera forsendur fyrir því að það lækki um hátt í fjórðung úr prósenti vegna þeirra breytinga sem boðaðar eru,“ segir í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráði Íslands, um frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir.
Í umsögninni styðja samtökin fyrirhugaða styttingu bótatímabils úr 30 mánuðum í 18, sem þau telja mikilvægt skref til að auka virkni og hvetja til endurkomu atvinnuleitenda á vinnumarkaðinn. Bent er á að rannsóknir sýni tengsl milli lengdar bótatímabils og meðaltíma atvinnuleysis, og að Ísland sé með lengsta bótatímabil á Norðurlöndum.
Vara við lögfestingu desemberuppbótar
Samtökin telja jákvætt að skilyrði fyrir rétti til atvinnuleysistrygginga verði hert og stjórnsýsla einfölduð, en gagnrýna áform um að lögfesta desemberuppbót atvinnuleysistrygginga. Slík lögfesting jafngildi, að mati samtakanna, hækkun grunnbóta um 2,5–3%, sem myndi draga úr áætluðum sparnaði.
Sparnaður skili sér til atvinnurekenda
Í umsögninni kemur fram að breytingarnar muni leiða til útgjaldalækkunar ríkissjóðs um 5,8–6,4 milljarða króna á ári og skapa forsendur til að lækka atvinnutryggingagjaldið, sem nú er 1,35%. Að mati samtakanna ætti það að geta lækkað um nærri fjórðung úr prósenti, með hliðsjón af áætluðum sparnaði.
Samtökin hvetja stjórnvöld til að tryggja að sparnaðurinn skili sér til atvinnurekenda sem greiða gjaldið, og minna á mikilvægi gagnsæis og aðkomu aðila vinnumarkaðarins að eftirfylgni með markmiðum um aukna virkni.