Efnahagsmál - 

04. Apríl 2013

Atvinnulíf og stjórnvöld vinni saman

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnulíf og stjórnvöld vinni saman

"Framundan eru snúnir tímar," segir Björgólfur Jóhannsson, nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag. "Nánast allir kjarasamningar verða lausir á haustmánuðum. Það er brýnt að semja með farsælum hætti og til að svo verði þarf að vinna að því hörðum höndum."

 "Framundan eru snúnir tímar," segir Björgólfur Jóhannsson, nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag. "Nánast allir kjarasamningar verða lausir á haustmánuðum. Það er brýnt að semja með farsælum hætti og til að svo verði þarf að vinna að því hörðum höndum."

Annað mikilvægt verkefni, að hans sögn, er að koma aftur á góðum tengslum við stjórnvöld. "Það er ótækt ef hér á að vera heilbrigt atvinnulíf að SA og stjórnvöld talist ekki við. Það eru hátt í tvö ár síðan SA sagði sig frá samtalinu og ASÍ fylgdi í kjölfarið," segir Björgólfur í viðtalinu.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast viðtalið í blaði dagsins á vef mbl.is en þar segir Björgólfur m.a.:

"Samtök atvinnulífsins eru þjónustutæki fyrir atvinnulífið," segir Björgólfur. "Þau eru heildarsamtök atvinnulífsins og markmið þeirra er að skapa fyrirtækjum í landinu góð starfsskilyrði. Samtökin annast kjarasamningagerð, eiga í viðræðum við stjórnvöld um ýmsa þætti sem hafa áhrif á atvinnulífið og mynda sér heildstæða skoðun á störfum hins opinbera, til dæmis hagstjórn, menntamálum og ýmsu öðru."

Upp úr öldudalnum

Björgólfur segir mikilvægt að SA séu öflug samtök í góðum tengslum við fólk í atvinnulífinu og almenning.

"Það heillar mig að reyna að efla og styrkja samtökin svo að þau geti orðið enn öflugri vettvangur til stefnumótunar og upplýsingagjafar. Það þarf að koma því vel á framfæri að forsenda góðra lífskjara hér á landi er öflugt atvinnulíf. Eftir bankahrunið 2008 hefur skilningur á því farið þverrandi. En það er, þegar allt kemur til alls, atvinnulífið sem mun rífa okkur upp úr öldudalnum. Því sterkara sem atvinnulífið er, því hraðar komumst við út úr erfiðleikunum.

Innan raða Samtaka atvinnulífsins eru um tvö þúsund fyrirtæki. Samtökin eru í raun og veru fyrirtækin sem þau samanstanda af. Oft virðist mér að umræðan sé á þann veg að samtökin séu eyland en svo er alls ekki. Í þeim er mjög stór hópur vinnandi fólks í landinu. Samtök sem þessi eru ekki séríslensk uppfinning heldur má þau finna um allan heim, samfélögum til gagns."

Heilbrigt atvinnulíf

Í viðtali Morgunblaðsins segir Björgólfur það vera markmið samtakanna fyrst og síðast að stuðla að heilbrigðu atvinnulífi. Allir í samtökunum eigi að geta sameinast um langtímastefnu SA í atvinnumálum þó svo að fyritækin innan raða SA séu fjölbreytt og starfi í mismunandi atvinnugreinum.

"Gagnsætt og einfalt skattkerfi, sömu leikreglur fyrir alla og ýmis atriði í peningamálum eins og lægri stýrivexti og stöðugri gjaldmiðil. Þetta er stóra myndin sem aðildarfélagar eiga að ná saman um. Svo eru álitaefni eins og hvort rétt sé að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þar komum við að málefni sem félagsmenn Samtaka atvinnulífsins koma sér ekki saman um og það er ekkert óeðlilegt við það."

Verðbólgan lækki

Björgólfur segir brýnt að SA og aðrir aðilar á vinnumarkaðnum ásamt stjórnvöldum vinni saman að því að kveða niður verðbólgudrauginn sem hefur látið á sér kræla.

"Það er afar mikilvægt að kveða niður verðbólguna til að kaupmáttur aukist. Kaupmáttur mun ekki aukast ef við leyfum okkur að fara í þessa vegferð, víxlverkun launa og verðlags. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að koma saman og finna ásættanlega lausn, svo við lendum ekki í þessum vítahring. Um þetta þarf víðtæka sátt innan samfélagsins. Við þurfum að stíga varlega til jarðar í næstu kjarasamningum en á sama tíma að móta framtíðarsýn, svo að launaumslög muni halda verðgildi sínu."

Björgólfur segir að fleira þurfi að koma til.

 "Til að halda niðri verðbólgu er ekki nóg að aðilar vinnumarkaðarins sættist á að hækka ekki laun úr hófi fram. Ríkisvaldið þarf að haga sér með ábyrgum hætti í skattheimtu, stjórnun ríkisfjármála og ýmsu öðru. Það þarf því að skapa heildstæðan ramma."

Auknar fjárfestingar og lægri álögur

Björgólfur vekur athygli á því að nauðsynlegt sé að auka innlenda og erlenda fjárfestingar á Íslandi ásamt því að lækka álögur á atvinnulífið. Á undangengnum fjórum árum hafi opinberar álögur á atvinnulífið aukist um liðlega 60 milljarða á hverju ári. Þessu þurfi að vinda ofan af.

Skattastefna stjórnvalda gagnvart sjávarútveginum hafi einnig reynst mjög skaðleg sem leiði til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki í greininni gefist á endanum upp. Fyrirtæki verði að geta treyst því að búa við stöðugt rekstrarumhverfi í 15-20 ár. Samhliða þurfi að ná tökum á peningamálunum. "Hátt vaxtastig og mikið flökt á gengi krónunnar er myllusteinn um háls atvinnulífsins."

Björgólfur leggur áherslu á að losa þurfi um um gjaldeyrishöftin og ná niður vaxtastiginu. Atvinnulífið okkar getur ekki keppt á alþjóðamarkaði ef það býr við mun hærra vaxtastig en keppinautarnir. Það er strax samkeppnishindrun."

Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaði Morgunblaðsins, fimmtudaginn 4. apríl 2013. Þar ræðir Björgólfur m.a. um afstöðu sína til ESB, aðildarviðræður Íslands að samabandinu, stöðu krónunnar og af hverju hann ákvað að gefa kost á sér sem formaður Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins