Efnahagsmál - 

25. Mars 2010

Atvinnuleysið verður að minnka og hagur fólks að batna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnuleysið verður að minnka og hagur fólks að batna

Samtök atvinnulífsins leggja höfuðáherslu á það að kyrrstaðan í íslensku atvinnu- og efnahagslífi verði rofin. "Málið snýst um það í grundvallaratriðum að á þessu ári gætum við verið að komast upp úr kreppunni. Við ættum ekki að þurfa að upplifa samdrátt á þessu ári. Við ættum að geta séð atvinnuleysið fara að minnka og hag okkar fara að batna og það er það sem við viljum sjá." Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins leggja höfuðáherslu á það að kyrrstaðan í íslensku atvinnu- og efnahagslífi verði rofin. "Málið snýst um það í grundvallaratriðum að á þessu ári gætum við verið að komast upp úr kreppunni. Við ættum ekki að þurfa að upplifa samdrátt á þessu ári. Við ættum að geta séð atvinnuleysið fara að minnka og hag okkar fara að batna og það er það sem við viljum sjá." Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Rætt var við Vilhjálm í Kastljósi RÚV eftir að ríkisstjórnin vísaði SA frá stöðugleikasáttmálanum.

Löng bið eftir aðgerðum
Vilhjálmur segir að ákveðin þreyta hafi verið farin að myndast innan raða SA með sáttmálann og hægagang á efndum. Nokkur atriði standi þar upp úr.

"Við þurfum fyrst og fremst að fá meiri fjárfestingar - fjárfestingar í stóru framkvæmdunum í atvinnulífinu. Við þurfum líka að fá litlu fjárfestingarnar og þar skiptir mestu máli að vextirnir verða að lækka. Síðan sjáum við að gjaldeyrishöftin eru að verða sífellt skaðlegri, þau halda gengi krónunnar lágu og með svona lágu gengi þá hangir yfir okkur heilmikil verðbólga."

Þá segir Vilhjálmur að einnig verði að koma af stað opinberum framkvæmdum þar sem gert var ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir kæmu að fjárfestingum. Vilhjálmur segir þessi mikilvægu mál hafa búið til ákveðna þreytu sem frumvarpið um breytingar á stjórn fiskveiða hafi kallað fram þegar það var samþykkt á mánudag. Rætt hafi verið við ríkisstjórnina frá því í október að ákvarðanir um fyrrgreindar breytingar þyrfti að taka samhliða öðrum stórum ákvörðunum um breytingar á fiskveiðikerfinu eftir fyrirfram ákveðnum sáttafarvegi.

Grafið undan traustinu
Vilhjálmur segir að traust til ríkisstjórnarinnar hafi brostið vegna samskipta í tengslum við stöðugleikasáttmálann. Samið hafi verið um ákveðna hluti sem ekki hafi verið staðið við. Bregðast þurfi við með breyttum vinnubrögðum og negla þurfi hluti betur niður - yfirlýsingar dugi ekki til.

Þá segir Vilhjálmur það hafa skapað vandamál að SA hafi samið við forystumenn ríkisstjórnarinnar um ýmis mál sem einstaka ráðherrar og þingmenn hafi síðan ekki talið sig bundin af. SA hafi gert ráð fyrir því að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi haft umboð ráðherra sinna og þingflokka þegar samið var. "Svo kemur það í ljós að svo er ekki og öðrum ráðherrum finnst jafnvel að stöðugleikasáttmálinn sé sér óviðkomandi," sagði Vilhálmur og nefndi orð umhverfisráðherra í tengslum við SV-línu: "Þeir sem gerðu stöðugleikasáttmálann" en það var hún sem sat í ríkisstjórninni sem var aðili að sáttmálanum. "Þetta er dæmigert um hvernig ástandið hefur verið og hefur grafið undan okkar trausti á því hvernig staðið hefur verið að málum varðandi stöðugleikasáttmálann."

Vilhjálmur segir dæmin fleiri og nefnir samkomulag við ríkisstjórnina um lögbindingu á greiðslu iðgjalds í starfsendurhæfingarsjóð en á þriðjudag hafi komið í ljós á fundi að það gangi ekki eftir vegna þess að aðrir ráðherrar innan ríkisstjórnarinnar en samið var við hafi aðra skoðun á málinu.

"Þetta er erfitt við að eiga en meginatriðið er það að koma okkur upp úr kreppunni og endurheimta lífskjörin," segir Vilhjálmur. "Það væri mjög blóðugt að sitja hér eitt ár til viðbótar í kreppu þegar við gætum verið að komast upp úr henni."

Samtök atvinnulífsins