Efnahagsmál - 

01. Febrúar 2011

ATVINNULEIÐIN: Samhljóða ályktun stjórnar SA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

ATVINNULEIÐIN: Samhljóða ályktun stjórnar SA

Stjórn Samtaka atvinnulífsins hvetur eindregið til samstöðu milli aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að marka ATVINNULEIÐ út úr því kreppuástandi sem nú ríkir í atvinnulífinu og samfélaginu öllu og birtist í slæmri stöðu fjölda fyrirtækja og atvinnuleysi 14000 manns.

Stjórn Samtaka atvinnulífsins hvetur eindregið til samstöðu milli aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnarinnar og Alþingis um að marka ATVINNULEIÐ út úr því kreppuástandi sem nú ríkir í atvinnulífinu og samfélaginu öllu og birtist í slæmri stöðu fjölda fyrirtækja og atvinnuleysi 14000 manns.

ATVINNULEIÐ byggir á kjarasamningum til þriggja ára með samræmdri launastefnu og launahækkunum í takt við nágrannalöndin með áherslu á kaupmáttaraukningu samfara lágri verðbólgu og aukinni atvinnu.  Skynsamlegir kjarasamningar til þriggja ára eru ein meginforsenda stöðugleika og tiltrúar á batnandi tíð.

ATVINNULEIÐ byggir ennfremur á því að fjárfestingar í öllum greinum atvinnulífsins aukist, en sérstaklega í útflutningsgreinum, og að vöxtur í fjárfestingum og útflutningi varði leiðina út úr kreppunni.  Samtök atvinnulífsins kalla eftir samstarfi ríkisstjórnar og Alþingis við aðila vinnumarkaðarins um að draga úr óvissu og skapa skilyrði fyrir stórauknum fjárfestingum í atvinnulífinu. ATVINNULEIÐIN er leið uppbyggingar, framleiðslu og raunverulegra framfara.

Samtök atvinnulífsins standa frammi fyrir kröfum nokkurra fámennra hópa um tuga  prósenta launahækkanir meðan almennt ríkir góður skilningur í verkalýðshreyfingunni um að ATVINNULEIÐIN sé samfélaginu fyrir bestu. Ekki er unnt að mæta slíkum ofurkröfum einstakra hópa þótt þeir geti valdið samfélaginu gríðarlegu tjóni með því að fylgja þeim eftir með verkföllum.

Tuga prósenta launahækkun í einstökum kjarasamningum mun á stuttum tíma flæða yfir allan vinnumarkaðinn, bæði í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera og leiða af sér verðbólguöldu, enn lægra gengi krónunnar, meira atvinnuleysi, skattahækkanir og enn lakari lífskjör.  Einhverjir hópar á vinnumarkaðnum sem eru í sterkri stöðu gætu eflaust bætt sinn hag að einhverju leyti í slíku ástandi en meginþorri samfélagsins væri mun verr settur.  Þetta er VERÐBÓLGULEIÐIN sem Samtök atvinnulífsins hafna algjörlega.

Samtök atvinnulífsins hafa í viðræðum við ríkisstjórnina lagt fram nokkur áherslumál sem þurfa að ná fram að ganga til að fjárfestingar aukist í atvinnulífinu og ný störf fari að skapast til skemmri og lengri tíma.  Umgjörð og starfsskilyrði alls atvinnulífsins verða að vera hagstæð til þess að þjóðin komist út úr kreppunni.

  • Lækka verður atvinnutryggingagjald til samræmis við minna atvinnuleysi.

  • Gera verður breytingar á skattamálum fyrirtækja þannig að skattar lækki og fyrirtæki og allt atvinnulífið fái aukið svigrúm til vaxtar.

  • Afnema verður gjaldeyrishöft og skapa trúverðugar væntingar um hækkandi gengi krónunnar og stöðugleika.

  • Opna verður fjármagnsmarkaði og lækka vexti og fjármagnskostnað.

  • Ná verður sátt um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á grundvelli niðurstöðu endurskoðunarnefndar um svokallaða samningaleið en samstaða var um hana milli stjórnarflokkanna, tveggja stjórnarandstöðuflokka og helstu hagsmunaaðila.

  • Gera verður átak til þess að koma stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu á skrið, s.s. álverinu í Helguvík og tilheyrandi orku­framkvæmdum.

Þá leggja Samtök atvinnulífsins ennfremur áherslu á nokkur önnur mál sem snerta vinnumarkaðinn og framþróun atvinnulífsins.  Sjá verður fyrir endann á þessum málum.

  • Setja þarf af stað sérstök átaksverkefni í menntamálum í þágu atvinnulífsins og eflingu ferðaþjónustu utan sumartíma.

  • Færa þarf yfirstjórn og framkvæmd atvinnuleysistrygginga til aðila vinnumarkaðarins.

  • Afgreiða verður frumvarp til laga um greiðsluskyldu til Starfsendur­hæfingarsjóðs.

  • Grípa þarf til aðgerða til jöfnunar lífeyrisréttinda á vinnumarkaðnum.

Samtök atvinnulífsins telja það skyldu sína að standa fast gegn þeim hópum á vinnumarkaði sem nú gera kröfur um að VERÐBÓLGULEIÐIN verði farin enda leiðir hún til ófarnaðar fyrir samfélagið. 

Samtök atvinnulífsins munu því á næstu vikum í þeirri mikilvægu lotu kjarasamninga sem stendur yfir gera allt sem er á valdi samtakanna til þess að ATVINNULEIÐIN verði fyrir valinu.  Það er atvinnulífinu og þjóðinni allri fyrir bestu.

Samþykkt samhljóða á fundi stjórnar SA í Húsi atvinnulífsins, 1. febrúar 2011.


Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs. Aðildarfyrirtæki SA eru um tvö þúsund talsins og eru í ýmiss konar rekstri. Innan SA er að finna jafnt einyrkja sem stærstu fyrirtæki landsins. Hjá félagsmönnum SA starfar um helmingur launamanna á almenna vinnumarkaðnum á Íslandi - meira en 50.000 manns. Innan SA eru átta aðildarfélög sem starfa á grundvelli atvinnugreina.

Samtök atvinnulífsins