Efnahagsmál - 

24. Júní 2011

Atvinnuleiðin forsenda árangurs í ríkisfjármálum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnuleiðin forsenda árangurs í ríkisfjármálum

Samtök atvinnulífsins hafa stutt markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum og telja mikilvægt fyrir endurreisn atvinnulífs í landinu að þeim verði náð. Samtökin hafa hins vegar gagnrýnt þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa beitt til að ná þessum markmiðum og telja að tilætluðum árangri verði ekki náð með þær að vegarnesti.

Samtök atvinnulífsins hafa stutt markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum og telja mikilvægt fyrir endurreisn atvinnulífs í landinu að þeim verði náð. Samtökin hafa hins vegar gagnrýnt þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa beitt til að ná þessum markmiðum og telja að tilætluðum árangri verði ekki náð með þær að vegarnesti.

Ríkisstjórnin vinnur um þessar mundir að endurskoðun á áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum sem sett var fram um mitt ár 2009. Áætlunin hafði það markmið að ríkissjóður skili jákvæðum frumjöfnuði árið 2011 og afgangi á heildarjöfnuði ríkissjóðs árið 2013. Í endurskoðaðri áætlun munu koma fram helstu markmið í ríkisfjármálum til ársins 2015.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld leggi megináherslu á hvers kyns aðgerðir til að auka fjárfestingar í hagkerfinu og efla þannig hagvöxt. Sérstaka áherslu verður að leggja á að efla útflutning m.a. með því að hvetja til fjárfestinga í orkufrekum iðnaði og sérstaklega með því að auka beinar erlendar fjárfestingar. Með hröðu afnámi gjaldeyrishafta og auknum útflutningi skapast aðstæður fyrir styrkingu gengis krónunnar og því fylgir að atvinnulífinu vegni betur. Þessi leið, atvinnuleiðin, er vænlegust til að auka tekjur ríkissjóðs varanlega sem hefur jafnframt í för með sér lægri útgjöld m.a. til atvinnuleysisbóta.

Því miður valdi ríkisstjórnin í upphafi leið aukinnar skattheimtu sem dregur úr einkaneyslu og möguleikum fyrirtækja til aukinna umsvifa og að ráða fólk til vinnu. Þetta staðfestist m.a. í reglubundinni könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í maí og júní 2011. Um 58% fyrirtækjanna hyggjast halda óbreyttum fjölda starfsmanna á næstu sex mánuðum, 13% áforma fjölgun starfsmanna en 26% stefna að fækkun. Þetta eru dekkri atvinnuhorfur en mælst hafa frá árinu 2009 og er ávísun á minni tekjur ríkissjóðs.

Þrátt fyrir að fjárlög 2011 hafi verið afgreidd með jákvæðum frumjöfnuði eru sterkar vísbendingar um að rangrar stefnu stjórnvalda í tekjuöflun ríkisins sé farið að gæta í ríkum mæli og að tekjuaukning ríkissjóðs verði ekki í samræmi við fjárlög en útgjöldin verði talsvert umfram þau. Þannig lýsti seðlabankastjóri nýverið áhyggjum af horfum í ríkisfjármálunum. Talið er að nýir kjarasamningar og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun bóta leiði til 9-11 ma.kr. aukins halla á ríkissjóði í ár. Lífeyrissjóðir munu ekki greiða neinn hluta af 6 ma.kr. vaxtaniðurgreiðslu í ár og á næsta ári og því mun sá kostnaður lenda á ríkissjóði. Þá á ríkið eftir að leggja fram tugi milljarða króna til þess að standa við ýmsar skuldbindingar á árinu. Ber þar hæst kostnað vegna yfirtöku Landsbankans á SpKef og endurfjármögnun Íbúðalánasjóðs.

Þegar árið 2011 er hálfnað bólar ekkert á hagvaxar- og fjárfestingaráætlun stjórnvalda sem átti að liggja fyrir í maí sl. Áætlunin er mikilvægur þáttur stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum næstu þrjú ár. Þá gefa efnahagshorfur það sterklega til kynna að markmiði um afgang á heildarjöfnuði ríkissjóðs 2013 verði ekki náð að óbreyttum áherslum.

Verði ekki algjör breyting á stefnu og viðhorfi stjórnvalda til atvinnulífsins og mikilvægi fyrirtækjareksturs fyrir tekjuöflun ríkissjóðs er hætta á að afkoma ríkissjóðs versni það mikið að það taki mörg ár enn að koma henni í viðunandi horf.

Samtök atvinnulífsins