Efnahagsmál - 

10. febrúar 2011

Atvinnuleiðin er fær

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Atvinnuleiðin er fær

Samtök atvinnulífsins hafa markað skýra stefnu í yfirstandandi kjaraviðræðum undir heitinu "atvinnuleiðin". Í meginatriðum felst atvinnuleiðin í því að leiðin út úr kreppunni felist í auknum fjárfestingum í atvinnulífinu, sérstaklega í útflutningsgreinum. Atvinnuleysi er enn alltof mikið, um áramótin voru um 14.000 manns atvinnulaus. Aukinn kaupmátt og bætt lífskjör þarf fyrst og fremst að sækja með nýjum störfum og aukinni atvinnu.

Samtök atvinnulífsins hafa markað skýra stefnu í yfirstandandi kjaraviðræðum undir heitinu "atvinnuleiðin". Í meginatriðum felst atvinnuleiðin í því að leiðin út úr kreppunni felist í auknum fjárfestingum í atvinnulífinu, sérstaklega í útflutningsgreinum. Atvinnuleysi er enn alltof mikið, um áramótin voru um 14.000 manns atvinnulaus. Aukinn kaupmátt og bætt lífskjör þarf fyrst og fremst að sækja með nýjum störfum og aukinni atvinnu.

Kjarasamningar til þriggja ára eru ein af lykilforsendum stöðugleika í efnahagslífinu og hagstæðari skilyrða fyrir fjárfestingar í atvinnulífinu og eru því kappsmál Samtaka atvinnulífsins. Ennfremur hafa SA tekið margvísleg mál upp við stjórnvöld í því skyni að bæta starfsskilyrði atvinnulífsins og tryggja auknar fjárfestingar.

Samtök atvinnulífsins vænta þess að kjaraviðræðurnar séu að fara í gang af fullri alvöru á nýjan leik eftir nokkurn hægagang að undanförnu. Settir hafa verið á fundir forystumanna SA og ASÍ til þess að freista þess að þróa viðræðurnar áfram. Vonandi tekst að koma þeim í ásættanlegan lausnarfarveg.

Það veldur hins vegar erfiðleikum að einstök verkalýðsfélög krefjast þess að sérstök stefna um launahækkanir verði mótuð fyrir útflutningsgreinar vegna lágs gengis krónunnar og önnur stefna fyrir aðrar atvinnugreinar. Að mati SA er þetta óframkvæmanlegt þar sem umsamdar hækkanir í útflutningsgreinum myndu óhjákvæmilega flæða yfir aðrar greinar. Þegar gengi krónunnar hefur verið sterkt, eins og raunin var áratuginn fyrir efnahagshrunið 2008 lutu útflutningsgreinarnar hinni almennu launastefnu sem mótuð var í kjarasamningum á hverjum tíma og engum datt annað í hug.

Sjávarútvegsmálin hafa verið í forgrunni síðustu vikur. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að sjávarútvegurinn þurfi að sjá til lands varðandi starfsskilyrði sín og fjárfestingar. Það er óhugsandi að horfa fram á næstu þrjú ár með eina helstu útflutningsgrein þjóðarinnar í fullkominni óvissu um sína framtíð. Það þýðir að ein helsta stoðin í atvinnulífi þjóðarinnar getur ekki fjárfest og tekið þátt í að sækja fram og bæta lífskjör þjóðarinnar. Víðtæk samstaða er um það innan Samtaka atvinnulífsins að knýja fram lausn á málefnum sjávarútvegsins.

Önnur mál sem Samtök atvinnulífsins vilja ræða við stjórnvöld hafa nokkuð horfið í skuggann af sjávarútvegsumræðunni. Þessi mál eru þó ekki síður mikilvæg fyrir atvinnulífið, s.s. spurningin um hagkvæma fjármálaþjónustu og vexti, opnun fjármagnsmarkaða, afnám gjaldeyrishafta, skattamál atvinnulífsins, átak í menntamálum í þágu atvinnulífsins, átak í ferðaþjónustu utan sumartíma, stórframkvæmdir og lækkun atvinnutryggingagjalds.

Öll þessi mál hafa áhrif á getu fyrirtækjanna til að hækka laun og eru því alls ekki óháð kjarasamningum eins og reynt hefur verið að gefa í skyn að undanförnu.

Þessi mikilvægu mál munu komast til umræðu um leið og kjaraviðræðurnar fara á skrið á nýjan leik. Aðalatriðið er að Samtök atvinnulífsins vilja ná atvinnulífinu í gang af fullri alvöru. Þrátt fyrir mikla erfiðleika hafa ýmsir þættir þróast til betri vegar, s.s. að verðbólga hefur lækkað og vextir sömuleiðis þótt þeir séu enn of háir. En miklu skiptir að hagvöxtur verði meiri og atvinnuleysi minna en fyrirliggjandi spár gera ráð fyrir. Ennþá ganga efnahagsáætlanir stjórnvalda út á að hækka þurfi skatta og ganga lengra í lækkun útgjalda á næsta ári og jafnvel lengur. Aðeins veruleg uppsveifla í atvinnulífinu getur komið í veg fyrir slíkt.

Atvinnuleiðin er því fær og sú eina rétta. Hún kallar á að allt verði gert til þess að auka fjárfestingar í öllum greinum atvinnulífsins, í fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Þannig skapast störf til skemmri tíma við uppbyggingu og störf til lengri tíma sem eru samkeppnishæf og geta risið undir batnandi kaupmætti og lífskjörum þjóðarinnar. Samtök atvinnulífsins munu ótrauð vinna atvinnuleiðinni framgang.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í febrúar 2011

Samtök atvinnulífsins