Atriði í frumvarpinu sem eru til bóta frá því sem áður var

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að atriði í frumvarpi til nýrra samkeppnislaga séu til bóta frá því sem áður hafi verið. Ari sagði að samtökin hefðu verið að fá frumvarpið í hendur. Samtökin hefðu áður tjáð sig nokkuð ítarlega um þau drög sem viðskiptaráðherra hefði kynnt. Þá hefðu samtökin talið að þær grundvallarbreytingar sem lagðar væru til á skipulagi stjórnsýslu á þessu sviði væru mjög jákvæðar og gætu orðið til þess að efla Samkeppnisstofnun hvað snerti starf hennar varðandi ólögmætt samráð og misbeitingu markaðsráðandi stöðu.

"Við gerðum hins vegar athugasemdir við ýmis atriði og við eigum eftir að fara betur yfir það að hvaða marki þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á frumvarpinu koma til móts við það, en í fljótu bragði sýnist mér að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu nú til töluverðra bóta," sagði Ari.

Hann sagði að í þeim efnum væri kannski stærst að heimild til beitingar þeirra afdrifaríku viðurlaga sem það væri að brjóta upp starfsemi fyrirtækja hefði verið of óljós og forsendurnar fyrir slíkum viðurlögum. Það virtist nú vera talsvert skýrara en áður og í betra samræmi við skýrslu nefndarinnar sem unnið hefði málið upphaflega.

Hann sagði að fleiri atriði í frumvarpinu nú væru til bóta frá því sem áður hefði verið, en samtökin myndu fá frumvarpið til umsagnar nú þegar það væri komið til þinglegrar meðferðar og myndu setja fram ítarlegt álit á því.

"Við gerum ráð fyrir að við munum skila ítarlegri umsögn til Alþingis. Við höfum farið ítarlega yfir þessi mál á undanförnum misserum og gert tillögur til úrbóta á samkeppnislögunum sem ekki er allar að finna þarna og við munum auðvitað halda þeim til haga. Það má til dæmis nefna mörk á tilkynningar-skyldum samruna sem við teljum vera alltof lág og líka heimildir smærri aðila á markaði til samstarfs. Við teljum að það geti eflt samkeppni að smærri aðilar hafi rýmri heimildir til samráðs sín í milli," sagði Ari ennfremur.