Fréttir - 

28. Mars 2018

Átján rófur á einum hundi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Átján rófur á einum hundi

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins ákvað að greina frá því á forsíðu Fréttablaðsins í gær að hann hafi ákveðið að sleppa nokkrum fyrirtækjum við rannsókn vegna anna við samrunamál. Á sama tíma vekur hann þau hugrenningartengsl að í rekstri fyrirtækjanna hafi eitthvað misjafnt átt sér stað. Forstjórinn eftirlætur dómstól götunnar um að komast að niðurstöðu sem hann vildi komast að, en taldi sig ekki hafa tíma til.

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins ákvað að greina frá því á forsíðu Fréttablaðsins í gær að hann hafi ákveðið að sleppa nokkrum fyrirtækjum við rannsókn vegna anna við samrunamál. Á sama tíma vekur hann þau hugrenningartengsl að í rekstri fyrirtækjanna hafi eitthvað misjafnt átt sér stað. Forstjórinn eftirlætur dómstól götunnar um að komast að niðurstöðu sem hann vildi komast að, en taldi sig ekki hafa tíma til.

Nú er mál að linni. Stjórnmálamenn geta ekki forðast það lengur að ræða samkeppnismál efnislega.

Áralöng réttaróvissa
Staðreyndin er sú að stofnunin er búin að halda þessum fyrirtækjum í gíslingu réttaróvissu í fimm ár. Það er alls ekkert einsdæmi. Nokkur önnur aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins hafa svipaða sögu að segja. Samkeppniseftirlitið fer fram með miklu kappi, en lítilli forsjá, vegna mála sem varða meinta misnotkun á meintri markaðsráðandi stöðu. Fyrirtækin eyða tíma og fé í að verja sig árum saman og fátt er um svör frá stofnuninni.

Dæmi eru um að heilu hillumetrarnir af gögnum og hundruð þúsunda tölvupósta fyrirtækja hafi verið afritaðir án nokkurra skýringa. Hvorki spurningar né svör berast frá Samkeppniseftirlitinu. Fyrirtækin hafa enga leið til að verja sig og sjálfur Kafka hefði varla getað skrifað slíka atburðarás betur.

Næsta skref forstjórans er líklega að koma fram með lausnina. Hún felst vafalaust í auknum fjárveitingum til stofnunarinnar. Svo skemmtilega vill til að um þessar mundir er verið að vinna drög að fjárlögum 2019 í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í samkeppnislögum er kveðið á um að velta fyrirtækja sem sameinast þurfi að vera yfir ákveðnum mörkum til að samruna þeirra þurfi að tilkynna til Samkeppniseftirlitsins. Þessi veltuviðmið hafa ekki breyst síðan í maí 2008. Síðan þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um næstum 50%. Nærtækast væri því að minnka álag á stofnunina með því að hækka viðmiðin um að minnsta kosti helming.

Brýnna úrbóta þörf
Nú er mál að linni. Það er orðið nauðsynlegt að bæta fjölmargt í samkeppnislögum og framkvæmd þeirra. Stjórnmálamenn geta ekki forðast það lengur að ræða samkeppnismál efnislega. Það er búið að beina því til ráðamanna í mörg ár að skerpa þurfi á lögum og færa framkvæmdina nær því sem gerist í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Búi íslensk fyrirtæki við verra starfsumhverfi að þessu leyti er samkeppnishæfni þeirra lakari. Allir landsmenn tapa á því. Samkeppniseftirlitið á ekki að stýra því hvernig íslenskt viðskiptalíf er uppbyggt.

Spurningar hljóta að vakna um það hversu trúverðug ofangreind ummæli forstjórans eru. Að Samkeppnisyfirlitið hafi  ekki fundið tíma til að komast að niðurstöðu um að brot hafi verið framin, ef það telur sig hafa fyrir því sannanir.  Svari hver fyrir sig en það er ekki laust við að viðtengingarvísan rifjist upp: Efa sé og efa mundi - átján rófur á einum hundi. Efa mundi og efa sé - átján dindlar á einu fé.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins