Efnahagsmál - 

28. september 2011

Athugasemd vegna ummæla forsætisráðherra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Athugasemd vegna ummæla forsætisráðherra

Á opnum fundi SA í Hörpu um atvinnumál á mánudaginn lýsti Vilmundur Jósefsson, formaður samtakanna, því hvernig reynsla SA af samstarfi við ríkisstjórnina hefur leitt til þess að nú er svo komið að hvorki væri hægt að taka mark á orðum ríkisstjórnarinnar né skriflegum yfirlýsingum, en allt frá því ríkisstjórnin var mynduð hafi Samtök atvinnulífsins reynt að fá hana til samstarfs um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, fjölga störfum og efla hagvöxt til að bæta lífskjörin í landinu.

Á opnum fundi SA í Hörpu um atvinnumál á mánudaginn lýsti Vilmundur Jósefsson, formaður samtakanna, því hvernig reynsla SA af samstarfi við ríkisstjórnina hefur leitt til þess að nú er svo komið að hvorki væri hægt að taka mark á orðum ríkisstjórnarinnar né skriflegum yfirlýsingum, en allt frá því ríkisstjórnin var mynduð hafi Samtök atvinnulífsins reynt að fá hana til samstarfs um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, fjölga störfum og efla hagvöxt til að bæta lífskjörin í landinu.

Á fundinum greindi Grímur Sæmundsen, varaformaður SA, frá því að hagur samfélagsins batnaði um 46 milljarða króna við það að koma 11 þúsund atvinnulausum til starfa á vinnumarkaði. Þar af renna 26 milljarðar króna í sjóði hins opinbera með auknum skattgreiðslum. Atvinnulífið sparar jafnframt 20 milljarða króna á ári í greiðslum til atvinnuleysistrygginga sem gætu nýst til nýsköpunar, vöruþróunar, fjárfestinga og til að bæta stöðu fyrirtækjanna á samkeppnismarkaði.

Þetta varð forsætisráðherra tilefni til að koma fram í fjölmiðlum og gagnrýna Samtök atvinnulífsins fyrir að hvetja til atvinnuuppbyggingar og ráðast að rótum atvinnuleysisins:

"Samtök atvinnulífsins eigi að líta í eigin barm áður en þau gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi og segir gagnrýnina snautlega. Ríkið hafi gert mun meira en atvinnulífið til að koma hjólum atvinnulífsins af stað." "Mér finnst það snautleg aðkoma SA ef það er þeirra innlegg til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast að kenna bara ríkisstjórninni um með ómaklegum hætti." "Það er atvinnulífsins að sjá til þess að hjól atvinnulífsins snúist, en krafa þeirra snýr fyrst og fremst að ríkisvaldinu í þessu efni. Þeir eiga að líta í eigin barm." "Og þeir eiga að tala upp atvinnulífið, blása þjóðinni bjartsýni í brjóst en ekki þetta svartagallsraus eins og þeir eru alltaf með." (RÚV 27.09.)

Svipuð orð voru höfð eftir forsætisráðherra á Bylgjunni og í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í Morgunblaðinu í dag segir forsætisráðherra svo: "...samtökin hafi gengið í lið með stjórnarandstöðunni og séu að reyna að koma ríkisstjórn sinni frá völdum."

Samtök atvinnulífsins vísa orðum forsætisráðherra á bug  enda er ekki er unnt að segja að hér sé um að ræða málefnalega gagnrýni.

SA vinna að því að skapa fyrirtækjum landsins sem best starfsskilyrði. Frá haustinu 2008 hafa allar tillögur SA miðast við að koma atvinnulífinu af stað, efla hagvöxt og auka framkvæmdir í landinu.

Á árinu 2009  var gerður svokallaður stöðugleikasáttmáli þar sem ríkisstjórnin lýsti yfir eindregnum vilja sínum til að koma framkvæmdum af stað og í fylgiskjali með stöðugleikasáttmálanum fylgdi tafla um framkvæmdir sem voru á döfinni og væntingar voru um að gætu farið af stað innan tíðar.

Smelltu til að stækka

SMELLTU TIL AÐ STÆKKA TÖFLUNA

Það var reyndar alveg ljóst að ekki yrði af öllum þessum framkvæmdum en aðilum að sáttmálanum virtist öllum kappsmál að auka framkvæmdir með tiltækum ráðum og hafa þannig afgerandi áhrif á efnahagsþróunina framundan.

Það er skemmst frá því að segja að ekkert hefur enn orðið af stærstum hluta framkvæmdanna sem fjallað var um og öðrum hefur seinkað og umfang þeirra minnkað.

Afdrif stöðugleikasáttmálans urðu síðan þau að bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands sögðu sig frá honum vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar.

Síðastliðið vor gaf ríkisstjórnin enn eina yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga. Þar var því heitið að stuðla að auknum framkvæmdum. Það væri markmið stjórnvalda að fjárfesting yrði  ekki minni en 350 ma.kr. á ári í lok samningstímans. Gera átti hagvaxtar- og fjárfestingaráætlun sem liggja átti fyrir eigi síðar en í maí sl. Því var heitið að greiða fyrir aukinni fjárfestingu sem víðast og einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Auka þyrfti hagvöxt umfram horfur til að markmið um minna atvinnuleysi næðust.

Heildarfjárfestingar ársins 2010 voru um 200 milljarðar króna og gert er ráð fyrir því að þær verði um 230 milljarðar króna á árinu 2011 á sama verðlagi. Það var því ljóst að enn beið ríkisstjórnarinnar umfangsmikið verkefni við að skapa skilyrði til að markmið yfirlýsingarinnar næðust.

Það er skemmst frá því að segja að enn er allt í hægagangi. Áætlunin sem átti að liggja fyrir í maí um hagvöxt og fjárfestingar er enn ekki komin fram. Stórar fjárfestingar í orku- og iðnaðarverkefnum dragast. Litlar sem engar fjárfestingar eru í sjávarútvegi vegna þeirrar óvissu sem stjórnmálamenn hafa skapað og það hefur áhrif í öðrum atvinnugreinum, ekki síst á landsbyggðinni.

Þeir sem fylgst hafa með samskiptum Samtaka atvinnulífsins við ríkisstjórnina vita að samtökin hafa aftur og aftur flutt ítarlegar tillögur um hvernig skapa megi þannig aðstæður að störfum fjölgi, skatttekjur aukist og lífskjör batni. Það er atvinnulífið sem skapar störfin en stjórnvöld ákveða rammann sem fyrirtækin starfa innan.

Því miður hefur ríkisstjórnin ekki borið gæfu til að fylgja eftir eigin yfirlýsingum og hollráðum Samtaka atvinnulífsins. Það er mikill misskilningur ef forsætisráðherra heldur að SA vilji ríkisstjórninni eitthvað annað en allt hið besta. Þvert á móti hafa SA reynt að styðja stjórnina til góðra verka með ráðum og dáð.

Það er ógæfa ríkisstjórnarinnar að hún virðist hvorki geta né vilja fara að góðum ráðum jafnvel þótt hún hafi sjálf ákveðið að þiggja þau.

Tengt efni:

Samantekt frá fundi SA um atvinnumál

Rætt við framkvæmdastjóra SA í Reykjavík síðdegis - smelltu til að hlusta

Rætt við formann SA í fréttum Bylgjunnar - smelltu til að hlusta

Samtök atvinnulífsins