Átak til minnkunar reglubyrði í nágrannalöndunum

Stjórnvöld allra aðildarríkja OECD hafa á stefnuskrá sinni að draga úr reglubyrði fólks og fyrirtækja og auka gæði gildandi regluverks. Við setningu og endurskoðun reglna er áherslan lögð á atriði á borð við einfalda og samræmda framkvæmd, öflugt samráð við hagsmunaaðila og gerð vandaðs kostnaðarmats vegna nýrra reglna, þar sem kostnaður fyrirtækja og annarra er málið varðar er metinn og mat lagt á hvort þörfin á nýjum reglum réttlæti þennan kostnað. Nokkur þessara ríkja hafa tekið upp markvissar aðgerðir í þessu skyni, þeirra á meðal Noregur, Danmörk og Svíþjóð.

Strax felldar niður 300 reglugerðir
Árið 1999 var öllum norskum ráðuneytum gert að gera áætlun um endurskoðun og einföldun á opinberu regluverki. Strax árið 2000 voru um 300 reglugerðir felldar úr gildi, oft eftir að tvær eða fleiri höfðu verið sameinaðar í eina. Verkefnið hefur haldið áfram og í sumum tilfellum hafa yfir 50 reglugerðir verið endurskoðaðar og sameinaðar í eina. Frá árinu 1998 hefur norska iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið einnig mælt þann fjölda eyðublaða sem fyrirtæki þurfa að fylla út og út frá því lagt mat á þann tíma sem fyrirtæki þurfa að verja til upplýsingagjafar til hins opinbera. Samkvæmt mælingunni minnkaði þessi tími að meðaltali um 7% á árunum 1998 til 2001.

Áætlun um "einfaldari Noreg"
Í október 2002 lagði svo núverandi ríkisstjórn fram aðgerðaáætlunina "einfaldari Noreg" þar sem minnkun á reglubyrði atvinnulífsins er sett fram sem eitt meginmarkmið ríkisstjórnarinnar. Kynntur er fjöldi tillagna til úrbóta og komið á fót virku samráði við hagsmunasamtök atvinnulífsins í sérstöku ráðgjafaráði, auk þess sem boðuð er endurskoðuð og ítarlegri áætlun að ári.

Danmörk: 198 tillögur til minnkunar reglubyrði
Danska ríkisstjórnin hefur sett fram áætlun um að einfalda lög og reglur, einfalda opinbera stjórnsýslu, afnema óþarfa reglur og minnka reglubyrði fólks og fyrirtækja. Í ítarlegri aðgerðaáætlun eru lagðar fram 198 tillögur í þessu skyni. Stefnan er m.a. sú að reglubyrði fyrirtækja minnki ár frá ári og að árið 2010 hafi hún minnkað um 25% frá því sem nú er.

Meðal þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru fyrir fyrirtæki má nefna einföldun á innheimtu virðisaukaskatts, innheimtu ýmissa opinberra gjalda og gerð ársreikninga. Þá verða ýmis vottorð einfölduð og jafnvel afnumin í einstökum tilfellum og sama gildir um ýmiss konar upplýsingaskyldu í tengslum við t.d. umhverfismál. Innan stofnunar á vegum viðskiptaráðuneytisins hefur sérstök deild verið sett á fót til að hafa umsjón með þessari vinnu.

SimpLex í Svíþjóð
Í Svíþjóð hefur verið sett upp sérstök stjórnsýslu-eining sem nefnist SimpLex og heyrir undir viðskiptaráðuneytið. Henni er ætlað að hafa eftirlit með því að nýjar reglur frá hinu opinbera séu einfaldar í framkvæmd, sem hún fær til skoðunar á frumstigum, og aðstoða við gerð kostnaðarmats. Þá geta fyrirtæki haft samband við SimpLex og komið á framfæri ábendingum um svið þar sem draga mætti úr reglubyrði. Loks hefur SimpLex umsjón með fræðslu fyrir opinbera embættismenn þar sem áhersla er lögð á einföldun á framkvæmd laga og reglna. Á fyrsta starfsári sínu hefur SimpLex að meðaltali skoðað eitt til tvö mál á dag, látið fara fram kostnaðarmat á 105 tillögum að nýjum lögum eða reglum og 26 tillögur að lagafrumvörpum eða reglugerðum hafa verið dregnar til baka eða þeim breytt til einföldunar að tilmælum SimpLex. Loks hafa um 300 embættismenn sótt námskeið á vegum SimpLex.