Efnahagsmál - 

21. janúar 2010

Ástandið langt í frá glæsilegt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ástandið langt í frá glæsilegt

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir horfur ekki bjartar hvað varðar fjárfestingar atvinnuveganna. Þær hafi að jafnaði verið um 13% af vergri landsframleiðslu á undanförnum árum en fóru niður í um 9% á síðasta ári. "Við erum dauðhræddir við að þær fari ennþá neðar." Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir horfur ekki bjartar hvað varðar fjárfestingar atvinnuveganna. Þær hafi að jafnaði verið um 13% af vergri landsframleiðslu á undanförnum árum en fóru niður í um 9% á síðasta ári. "Við erum dauðhræddir við að þær fari ennþá neðar." Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Í umfjöllun blaðsins er vísað til úttektar SA þar sem kemur fram að ef dráttur verður á áformum um fjárfestingar í virkjunum og orkufrekum iðnaði á þessu ári eru líkur á því að fjárfestingar atvinnuveganna verði minni í hlutfalli við landsframleiðslu en þær hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

"Horfurnar fara alltaf versnandi. Eins og staðan er í dag virðist öll erlend fjárfesting vera frosin, m.a. vegna Icesave. Það er í raun yfir höfuð ekkert að gerast í fjárfestingum í landinu. Sjávarútvegurinn fer ekki út í neinar fjárfestingar, m.a. út af þessari fyrningarleið. Þá er engin fjárfesting í iðnaði og ekkert í byggingariðnaði.

Við erum að vonast til að í stóriðjunni verði einhverjar fjárfestingar og að þær gangi eftir. Við erum þó hóflega bjartsýnir á það miðað við stöðina á fjármálamörkuðum. Ef það tekst t.d. að leysa þessa Icesave-deilu þá förum við vonandi að sjá þíðu á fjármagnsmörkuðum fljótlega. Ástandið er þó langt í frá glæsilegt í augnablikinu," segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Sjá nánar:

Úttekt SA á fjárfestingum atvinnuveganna

Áskriftarvefur Viðskiptablaðsins

Samtök atvinnulífsins