Fréttir - 

11. janúar 2023

Ástæður þess að SA hafnaði tilboði Eflingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ástæður þess að SA hafnaði tilboði Eflingar

Verkfallsaðgerðir eru kostnaðarsamar fyrir alla hlutaðeigandi

Lesa tilkynningu á pdf

Á samningafundi Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar hjá Ríkissáttasemjara 10. janúar sleit Efling viðræðum eftir að SA hafði hafnað móttilboði Eflingar, en þann 4. janúar hafði SA lagt fram eigið tilboð . Efling hefur í framhaldinu boðað undirbúning verkfallsaðgerða. Slíkar aðgerðir eru kostnaðarsamar fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið allt. Því er tilefni til að tilgreina ástæður þess að SA hafnaði tilboði Eflingar.

Í hnotskurn:

  • Meginástæðan er að tilboð Eflingar er langt utan þess ramma sem samningur SA og Starfsgreinasambandsins (SGS án Eflingar) markar. SA hefur samið við megnið af almennum vinnumarkaði og myndi samningur á þeim grundvelli tilboðs Eflingar setja alla aðra samninga í uppnám.
  • Fullyrðingar Eflingar um nýlega kaupmáttarþróun og þýðingu kjarasamninga SA við SGS eru í besta falli villandi en í versta falli rangar. Fyrirliggjandi spár gera ráð fyrir að kaupmáttur lægstu kauptaxta aukist með sambærilegum hætti eða meira en á tíma lífskjarasamningsins.
  • Forsenda kröfu Eflingar um sérstaka framfærsluuppbót fyrir verkafólk á höfuðborgarsvæðinu stenst enga skoðun. Auk þess munu Samtök atvinnulífsins aldrei taka þátt í því að draga þjóðina í dilka eftir búsetu líkt og Efling krefst.

Tilboð Eflingar langt út fyrir ramma kjarasamnings SA og SGS

Í desember sl. samdi SA við 80.000 manns á almennum vinnumarkaði – verkafólk hringinn í kringum landið (SGS án Eflingar), verslunarmenn (VR/LÍV) og samflot iðnaðarmanna. Í framhaldinu hafa viðræður hafist við aðra á almennum vinnumarkaði og minni kjarasamningar verið undirritaðir í anda samninganna við SGS, VR/LÍV og iðnaðarmenn. SA munu sem trúverðugur samningsaðili því aldrei getað samið á ólíkum nótum við annan hóp enda eru þá forsendur samninganna í desember brostnar.

Tilboð Eflingar er í stuttu máli langt út fyrir ramma annarra kjarasamninga og er þar nærtækast að bera tilboðið við samning SGS. Mestu munar um að taxtahækkanir að meðtalinni svokallaðri framfærsluuppbót eru meira en 50% meiri hjá Eflingu en í tilfelli SGS. Að auki er markverður munur á nokkrum öðrum þáttum, þar sem færsla tiltekinna starfa upp um launaflokka vegur þyngst. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að eini munurinn á samningum við Eflingu og önnur SGS félög er búseta – störfin sem þar falla undir eru þau sömu. Þá má einnig benda á að kostnaðarmat SA á tilboði Eflingar er nærri tvöfalt meira en kostnaðarmat við nýgerða kjarasamninga SA og VR.

Rangar fullyrðingar Eflingar um kaupmáttarþróun

Skilja má að ástæða fyrir því að tilboð Eflingar sé umfram það sem hefur verið samið um annarsstaðar sé vegna óhagstæðrar kaupmáttarþróunar. Þar hefur Efling gerst sek um villandi framsetningu sem er ekki lýsandi fyrir kaupmáttarþróun félagsmanna Eflingar. Hér má finna mynd sem birtist á vef Eflingar 7. desember og er notuð sem röksemd fyrir því að tilboð SA er ófullnægjandi.

Lykilatriðið er að Efling miðar við laun í landinu almennt, þar sem t.d. laun stjórnenda og sérfræðinga, sem hafa hækkað hlutfallslega minna á umliðnum árum, eru meðtalin. Ef horft er til kaupmáttar launa verkafólks hefur hann aukist á síðustu 12 mánuðum þrátt fyrir mikla verðbólgu. SA hafna því enn fremur að vinna þurfi upp sérstaklega þann kaupmátt sem hefur rýrnað frá síðustu samningsbundnu launahækkun í apríl. Eina leiðin til að sporna við því er að laun hækki í hverjum mánuði sem væri feigðarflan sem ekki einu sinni Eflingu dettur í hug.

Staðreyndin er sú að kaupmáttur verkafólks hefur aukist um 13% frá upphafi árs 2019 en kaupmáttur launafólks almennt töluvert minna eða um 7%. Yfir allt þetta tímabil hafa mældar launahækkanir verkafólks og hækkanir taxta verkafólks verið meiri en verðbólga og því kaupmáttur statt og stöðugt aukist. Eftir samninga SA og SGS er staðan sú að kaupmáttur lægstu taxta jókst um 23% milli ára í desember síðastliðnum.

Eins og fram kom í tilboði SA til Eflingar í síðustu viku gera spár Seðlabankans og annarra greiningaraðila ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 5% eða svo á samningstímanum. Gangi það eftir er niðurstaðan sú að kaupmáttur kauptaxta SGS eykst um 4-8%. Slíkar hækkanir eru áþekkar því sem gerðist á tíma lífskjarasamningsins og heldur meiri hjá þeim sem hafa mikla starfsreynslu.

SA mun aldrei draga þjóðina í dilka eftir búsetu

Meginröksemd Eflingar fyrir meiri launahækkunum en í samningi SA og SGS hefur verið sú að framfærslukostnaður sé hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og hefur hár húsnæðiskostnaður sérstaklega nefndur í því samhengi. SA hafnar þeim málflutningi og nálgun á kjarasamninga enda er hún til þess fallin að draga landsmenn í dilka eftir búsetu. Þess utan standa rök Eflingar fyrir þeim málflutningi á sandi. Til að mynda er hvergi að finna heildstæð gögn sem styðja fullyrðingar Eflingar. Þannig má auðveldlega finna niðurstöður um efnahag landsmanna sem benda til þess að hagsæld sé minni á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Til dæmis er efnislegur skortur yfirleitt meiri utan höfuðborgarsvæðisins, skv. lífskjararannsókn Hagstofunnar. Þó deila megi um ágæti byggðastefnu hér á landi og í öðrum ríkjum er ekki tilviljun að hún snúist um að bæta kjör í dreifðari byggðum, en ekki hið gagnstæða líkt og Efling leggur til.

Að lokum

Rétt er að ítreka að SA getur ekki brugðist trausti viðsemjenda sinna og hvikað frá meginlínum stefnumarkandi kjarasamninga. Þegar öllu er á botninn hvolft eru forsendur Eflingar fyrir því að SA stígi það skref á veikum grunni byggðar. Einnig er rétt að árétta að með því að hafna samningstilboði SA um sambærilegan samning og gerður var við öll félög SGS, að Eflingu einni undaskilinni, hefur Efling fyrirgert réttinum til afturvirkni. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan eru þar í húfi fjárhæðir sem geta hlaupið á hundruðum þúsunda króna.

Samtök atvinnulífsins