Vinnumarkaður - 

20. nóvember 2015

Áskoranir á vinnumarkaði vegna öldrunar þjóðarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áskoranir á vinnumarkaði vegna öldrunar þjóðarinnar

Þjóðin er að eldast hratt, þó ekki eins hratt og í Evrópu. Á næstu árum mun vanta fólk á íslenskan vinnumarkað til að viðhalda hagvexti. Þetta kemur fram í Viðskiptablaði Morgunblaðsins sem ræddi við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA um málið í vikunni.

Þjóðin er að eldast hratt, þó ekki eins hratt og í Evrópu. Á næstu árum mun vanta fólk á íslenskan vinnumarkað til að viðhalda hagvexti. Þetta kemur fram í Viðskiptablaði Morgunblaðsins sem ræddi við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA um málið í vikunni.

„Spurningin hlýtur að vera hvernig við ætlum að mæta áskorunum um aukin ríkisútgjöld til lífeyrisgreiðslna, til heilbrigðisþjónustu og til umönnunar aldraðra án þess að hækka skatta og draga þannig úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og samkeppnishæfni landsins hvað varðar lífskjör,“ segir Hannes en á fundi SA um fjármál ríkisins kom fram að þjóðin er að eldast hratt og á næstu 15 árum fjölgar ellilífeyrisþegum um 70% eða 26 þúsund manns. Árið 2030 verða þeir sem eru 67 ára og eldri því orðnir 64 þúsund.

Þurfum á þessu fólki að halda
Hannes segir þessa þróun hafa mikil áhrif á atvinnulífið. „Vinnumarkaðurinn hefur vanist því að hafa stækkað um 1-1,5% á ári undanfarna áratugi. Vinnuaflinu hefur því fjölgað um 2.000 manns árlega en það hægir mjög á fjölgun innlendra starfsmanna á komandi árum og er í raun þegar farið að hægja á. Fjölgunin gæti farið niður í 1.000 manns á ári og síðan niður í 500 á ári. Þetta felur í sér að það er ekki nægilega margt starfsfólk til að auka hagvöxt eins og við þurfum. Það blasir við að til þess að mæta vinnuaflsþörfinni á komandi árum og áratugum verður að flytja inn töluvert margt fólk á vinnualdri miðað við horfur um 2,5-3% hagvöxt á ári.“

Þetta felur í sér mikla áskorun fyrir vinnumarkaðinn, að sögn Hannesar, en til skoðunar eru breytingar á lögum um almannatryggingar. „Fólk lifir orðið lengur og er hressara. Það er verið að skoða að hækka ellilífeyrisaldurinn úr 67 í 70 ár á einhverju árabili. Það væri þá hægt að auka sveigjanleika við töku lífeyrisaldurs og að fólk ávinni sér aukin lífeyrisréttindi með því að vinna þess vegna fram yfir 70 ára aldur. Við þurfum klárlega á þessu fólki að halda. Þetta fólk er með mikla reynslu og orku til þess að vera við störf lengur.“

Hannes nefnir að vinnumarkaðurinn standi einnig frammi fyrir þeirri áskorun að örorkulífeyrisþegum fjölgar ört. „Það þarf að draga úr miklu nýgengi örorkulífeyrisþega sem hefur verið hér á undanförnum árum. Það heggur stórt skarð í vinnuafl okkar hversu margir falla varanlega brott af vinnumarkaði og verða örorkulífeyrisþegar. Til að stemma stigu við þessu er meðal annars verið að reyna að koma á aukinni starfsendurhæfingu í gegnum Virk.“

Útgjöld ríkisins stóraukast
Hannes bendir á að þótt lífeyrissjóðakerfið sé öflugt og standi undir megninu af lífeyrisgreiðslunum, þá auki þessi fjölgun í hópi aldraðra útgjöld ríkisins vegna almannatrygginga. Samkvæmt útreikningum SA er áætlað að ellilífeyrisgreiðslur Tryggingarstofnunar verði 22% hærri að raungildi árið 2030 en nú eða sem nemur 10 milljörðum króna.

„Því til viðbótar aukast útgjöld ríkisins í heilbrigðiskerfinu, því eðli málsins samkvæmt nota aldraðir heilbrigðisþjónustuna mest. Þá bætast við aukin útgjöld vegna umönnunar aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimaþjónustu.“

Íslendingar yngri en Evrópuþjóðir
Hagstofan gaf út nýja mannfjöldaspá í gær þar sem kemur fram að þótt íslenska þjóðin sé að eldast og fólksfjölgun verði fremur hæg þá eru Íslendingar núna, og verða enn um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Á árinu 2065 gætu íbúar Íslands orðið 437 þúsund. Meira en þriðjungur Evrópubúa verður eldri en 65 ára, í samanburði við 25% af Íslendingum. Hlutfallið er núna 13,5%. Í samtali við Violeta Calian, sérfræðing hjá Hagstofunni, kemur fram að fjölgun eldra fólks muni hafa áhrif á efnahagslífið.

„Fólk lifir miklu lengur núna, en Ísland er samt tiltölulega ungt land í samanburði við mörg önnur lönd Evrópu. Sumar Evrópuþjóðir eru nú þegar orðnar aldraðar og aðstæður orðnar erfiðar, því mun fleiri eldri en yngri halda uppi vinnumarkaðnum. Ísland er enn nokkuð ungt land svo að það er ánægjulegt,“ segir Violeta.

Grein Viðskiptablaðs Morgunblaðsins 19. nóvember 2015. Meðfylgjandi mynd er úr blaðinu.

Samtök atvinnulífsins