13. maí 2022

Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fyrir árið 2021 er komin út. Fræðslumiðstöðin fagnaði nýverið 20 ára afmæli en Samtök atvinnulífsins komu að stofnun hennar og eru einn af eigendum ásamt ASÍ, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytinu.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja eigenda í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði og þjónar þannig mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulífið allt.

Hlutverk Fræðslumiðstöðvar er að veita fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Í samanburði við önnur lönd er sá hópur nokkuð stór hér á landi en miðað við tölur frá 2020 er markhópurinn um 24% fólks á vinnumarkaði.

Helstu verkefni FA eru að:

  • Greina hæfnikröfur starfa á vinnumarkaði. 
  • Vinna að þróun og viðurkenningu raunfærnimats í samstarfi við atvinnulíf og fræðsluaðila. 
  • Auka framboð á vottuðu námi fyrir markhópinn byggt á hæfnigreiningum. 
  • Efla náms- og starfsráðgjöf meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. 
  • Tryggja gæði í starfi fræðsluaðila með þróun og innleiðingu á gæðakerfi fyrir framhaldsfræðsluna. 
  • Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi þar sem hagsmunir atvinnulífs og markhópsins eru í fyrirrúmi. 
  • Miðla upplýsingum um árangur starfsins, nýjungar og þróun framhaldsfræðslu. 
  • Þróa aðferðir til að styðja við framkvæmd náms og nýtingu verkfæra. 

Í ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er farið yfir árangurinn af starfinu, helstu verkefni FA og samstarf. Þar kemur m.a. fram að alls fóru 580 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, 2.391 einstaklingar luku námi í námsleiðum FA og 8.600 ráðgjafarviðtöl um nám og störf fóru fram.

Í skýrslunni rýnir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, í framtíð framhaldsfræðslunnar í nýútkominni ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA). Hann segir áhrif loftslagsbreytinga og fjórðu iðnbyltinguna vera stórar áskoranir fyrir vinnumarkaðinn sem kalla muni á fleiri tækifæri til endurmenntunar og grunnmenntunar, þá skipti ekki máli hvort það nám fari fram á vinnustað eða á vegum framhaldsfræðsluaðila.

„Við stöndum frammi fyrir tæknibyltingum sem breyta því hvernig við störfum og um leið hvernig við lærum. Við þurfum í sameiningu að finna leiðir til að nema þessar breytingar og geta brugðist við. Endurskoðun laga um framhaldsfræðslu er því tímabær og hefur verið sett á dagskrá.“ segir Guðmundur.

Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd náms byggir á fjármögnun Fræðslusjóðs og samningum við 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Að auki starfar FA með fjölbreyttum hópi sérfræðinga í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet.


Sú nýbreytni er höfð á ársskýrslunni í ár að hún kemur eingöngu út rafrænt.

Ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins má nálgast hér

Samtök atvinnulífsins