Fréttir - 

17. Oktober 2019

Ársfundur atvinnulífsins 2019: Ávarp formanns Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ársfundur atvinnulífsins 2019: Ávarp formanns Samtaka atvinnulífsins

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Eyjólfur Árni Rafnsson, ávarpaði Ársfund atvinnulífsins sem fram fór 17. október í Eldborg í Hörpu. Ávarp hans má lesa í heild á vef SA en upptökur frá fundinum verða birtar innan tíðar í Sjónvarpi atvinnulífsins. Upptaka frá fundinum í heild er aðgengileg á Facebook.

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Eyjólfur Árni Rafnsson, ávarpaði Ársfund atvinnulífsins sem fram fór 17. október í Eldborg í Hörpu. Ávarp hans má lesa í heild á vef SA en upptökur frá fundinum verða birtar innan tíðar í Sjónvarpi atvinnulífsins. Upptaka frá fundinum í heild er aðgengileg á Facebook.

Eyjólfur Árni Rafnsson:

Forsætisráðherra, félagar og góðir gestir.

Ég býð ykkur öll velkomin til ársfundar Samtaka atvinnulífsins, sem nú er haldinn að hausti í fyrsta sinn. Tilefnið er að um þessar mundir eru tveir áratugir frá stofnun Samtaka atvinnulífsins. Samtökin standa á gömlum merg og búa að merkri og mikilvægri sögu.  Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, hefur nú gert þessari sögu skil í tveimur ritum. Það fyrra ber heitið Frá Kreppu til Þjóðarsáttar og nær til áranna 1934 til 1999. Hið síðara Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings kemur út um þessar mundir og nær eins og heitið ber með sér allt fram á þetta ár.

Í heitum bókanna er að finna þau orð sem ramma inn nánast alla starfsemi Samtaka atvinnulífsins og forvera þeirra sem eru SAMNINGAR, SÁTT og LÍFSKJÖR.  

Oft hefur verið tekist á við gerð samninga um kaup og kjör almennings í landinu, eins og eðlilegt er því undir eru mikilvægir hagsmunir, hagur fólks og afkoma fyrirtækjanna. Um nokkurra ára skeið hefur verið samhljómur í stjórn SA og á meðal stjórnenda í atvinnulífinu um að stefna samtakanna byggi á að saman fari góð afkoma í atvinnulífinu og hagsæld almennings.  Heildarsamtök atvinnulífsins hljóta að þróast með samfélaginu, það hafa Samtök atvinnulifsins sannarlega gert. Ólík sjónarmið, heilbrigt samtal og gagnkvæmur skilningur leiða af sér niðurstöðu þar sem enginn einn fær ráðið né nær öllu sínu fram. Um málamiðlun þarf að skapast sátt allra aðila og sannfæring fyrir því að innistæða fyrir nýjum samningum sé til staðar.

Ábyrgð samningsaðila við gerð kjarasamninga er mikil, og þó ekki væri nema vegna þess þá gegna Samtök atvinnulífsins og launafólks mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Samskipti okkar við verkalýðshreyfinguna byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu fyrir sjónarmiðum hvers annars. Niðurstöður kjarasamninga ráða miklu um almenna efnahagsþróun og ef ekki er að gætt geta kjarasamningar leitt til verðbólgu, gengisfellinga og óviðunandi afkomu fyrirtækja og þar með verri lífskjara almennings.

Allt frá þjóðarsáttinni 1990 hefur almennt tekist betur til í þessum mikilvægu verkefnum en áratugina þar á undan. Svigrúm til óábyrgra kjarasamninga er minna en áður. Launin duga betur en nokkru sinni og almenn velmegun og jöfnuður hefur aldrei verið meiri. Meðal annars gerist þetta vegna þess að síðasta áratug og jafnvel lengur hafa samningsaðilar lagt áherslu á að hækka lægstu laun og tryggja jafnframt að fyrirtækin geti staðið undir hækkunum. Nú síðast tryggir Lífskjarasamningurinn frá síðasta vori áframhaldandi stuðning við þessi markmið allt til loka árs 2022. Hann tekur mið af hagsmunum launafólks og fyrirtækja. Hluti launahækkana næstu ára eru tengdar beint við ganginn í hagkerfinu. Þetta eru tímamót og risastórt skref í rétta átt, að aukin umsvif í þjóðfélaginu leiði beint til hærri launa.

Vextir hafa lækkað verulega frá undirritun Lífskjarasamningsins og allar forsendur eru til enn frekari lækkunar. Meginmarkmið samninganna hafa þegar náðst – einungis hálfu ári eftir undirritun. Lægri vextir, stöðugt gengi og lækkun skatta gefa fyrirtækjum svigrúm til aukinnar nýsköpunar, markaðssóknar og fjárfestingar. Samningarnir leggja grunn að stöðugleika í efnahagslífinu, aukinni framleiðni og batnandi lífskjörum almennings.

Eins og samskipti aðila á vinnumarkaði þurfa að byggja á trausti og gagnkvæmum skilningi, þá verða samskiptin við ríki og sveitarfélög að einkennast af sömu áherslum. Samtök á vinnumarkaði veita stjórnvöldum hverju sinni mikilvægt aðhald.

Í nálægum löndum verða ekki stórfenglegar breytingar í efnahagsmálum þótt ríkisstjórnir komi og fari. Þær standa allar frammi fyrir sömu lögmálum hagfræðinnar og hafa ávallt að leiðarljósi að tryggja stöðugleika.

Pólitískur óstöðugleiki birtist hér á landi með þrennum Alþingiskosningum á árunum 2013 til 2017. Slíkt veit ekki á gott og leiðir meðal annars til ófyrirsjáanleika um stefnumótun í efnahagsmálum. Ég tel, að myndun núverandi ríkisstjórnar í kjölfar kosninganna fyrir tæpum tveimur árum, hafi verið góð niðurstaða eftir þá orrahríð sem á undan fór. Lærdómurinn er að hægt er að brúa bil milli skoðana þótt langt virðist á milli. Ekki er hefð fyrir því að hægri og vinstri flokkar starfi saman hér á landi. Enginn vafi er á að vel hefur tekist til um þetta samstarf og víst er að stuðningur ríkisstjórnarinnar við Lífskjarasamninginn skipti miklu máli. Sérstaklega er lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts launafólks mikilvægt framlag.

Þá ber að fagna breytingum í ríkisfjármálum sem náðst hafa með samþykkt laga um opinber fjármál, fjármálaáætlun og aukinni ábyrgð ráðuneyta og stofnana á fjárreiðum sínum. Þetta ásamt styrkri stjórn peningamála stuðlar að stöðugleika, auðveldar gerð kjarasamninga og styrkir umgjörð þeirra.

Hins vegar má alltaf gera betur og mikilvægt er að ríki og sveitarfélög átti sig á því að ekki er eðlilegt að auka stöðugt við útgjöld og senda þann reikning á skattgreiðendur. Sama er hvort greiðandinn er einstaklingur eða fyrirtæki; aukin skattbyrði dregur úr getu þeirra til sjálfsbjargar og nýsköpunar.

Prófsteinn á þróun kjaramála á Íslandi til næstu ára er fólginn í niðurstöðu í kjarasamningum hins opinbera sem nú standa yfir. Lífskjarasamningurinn hlýtur að varða leiðina fyrir þessa samninga, annað er óhugsandi. Fyrirtæki á einkamarkaði verða að standast samkeppni við erlenda keppinauta sína. Þau bregðast við með margskonar hagræðingu og fækkun starfsfólks ef samkeppnishæfni atvinnuveganna er ógnað. Hið opinbera býr ekki við sambærilegt aðhald og því verður almenni vinnumarkaðurinn að leiða kjaraþróun í landinu. Ef hlutverkin snúast við, þannig að ríki og sveitarfélög lofi frekari launahækkunum, mun almenni markaðurinn fylgja í kjölfarið, þótt svigrúmið sé ekki fyrir hendi. Afleiðingin yrði fækkun starfsfólks og verðbólga eins og dæmin sanna. Kjör allra versna.

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi fyrirtækja og aukin alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á nánast allar atvinnugreinar. Gæfa okkar Íslendinga er að eiga aðild að alþjóðlegu sameiginlegu regluverki Evrópska efnahagssvæðisins sem tryggir að fólk, vara, fjármagn og þjónusta eiga greiða leið um alla Evrópu. Ekki er vænlegt til árangurs að standa utan slíks samstarfs og búa við séríslenskt regluverk sem enginn þekkir og leggur ýmist stein í götu þeirra sem vilja fjárfesta erlendis eða þeirra sem hingað vilja koma og byggja upp atvinnurekstur. Hægt er að fullyrða að EES - samningurinn hefur fært íslenskum fyrirtækjum ásamt almenningi mikinn ávinning sem seint verður metinn til fjár. Það sést glöggt í nýrri skýrslu um EES - samninginn sem unnin var undir forystu Björns Bjarnasonar.

Þrátt fyrir þetta mælist samkeppnishæfni Íslands lakari en Norðurlandanna. Skýringa má meðal annars leita í háum vöxtum sem fara nú lækkandi, háum sköttum og íþyngjandi lagaumhverfi sem enn er eftir að laga. Lögum það. Brýnt og krefjandi verkefni er að vinna að breytingum á regluverki og öðrum þáttum til að fyrirtæki hér búi við rekstrarskilyrði í fremstu röð. En það þarf vissulega fleira að koma til ef tryggja á samkeppnishæfni og lífskjör í landinu til lengri tíma, m.a. þættir sem snúa að gildum okkar og samfélagsgerð.

Langflest íslensk fyrirtæki hafa orðið þannig til að ungt fólk fær hugmynd og leggur af stað með rekstur til að láta drauma sína rætast. Þau eru gjarnan full af eldmóði þeirra sem trúa á sjálfan sig og sjá ekki endilega fyrir sér hindranir á veginum. Þau leggja sig fram til að ná markmiðum sínum, taka áhættu, vinna langa daga, fríin eru stopul og stritið endalaust. Hjá mörgum rætast draumarnir ekki en önnur ná markmiðum sínum og þegar vel tekst til stendur eftir gott og arðsamt fyrirtæki, stofnendur fá sína umbun fyrir framtakið sem getur verið góð. Flestir í þessum sal þekkja dæmi bæði um sögur þar sem vel hefur tekist til og eins um það sem miður hefur farið.  Kannski eru ánægjulegustu dæmin um þau sem ekki hafa gefist upp í fyrstu tilraun heldur hafa sýnt seiglu og þrautseigju, lært af reynslunni og standa að lokum uppi sem sigurvegarar.

Góðir fundarmenn.

Það má ráða af skoðanakönnunum að almennt hefur traust á helstu stofnunum samfélagsins aukist undanfarin ár. Fólk treystir almennt hvert öðru og félagslegt traust er mikið. Þrátt fyrir að umræðan sé oft neikvæð ber fólk mikið traust til heilbrigðiskerfisins. Við búum í grunninn við góðar aðstæður sem þó má gera enn betri. Samtök atvinnulífsins munu kynna tillögur sínar í þeim efnum á næstu misserum.

Fyrir atvinnulífið er sérstaklega ánægjulegt að traust fólks á eigin atvinnurekanda er jafnan með því mesta sem mælist og almennt er traust á íslenskum fyrirtækjum mikið. Traust, samheldni og gagnkvæm virðing skipta verulegu máli fyrir almennan stöðugleika í samfélaginu og þá ekki síst framkoma einstaklinga, stjórnmálamanna og annarra, sem sýnilegastir eru almenningi. Hófsemi og hyggindi eru nauðsynlegar dyggðir sem flestum ætti að vera auðvelt að tileinka sér. Forystumenn fyrirtækja og stofnana verða að gæta þess að kjör þeirra séu í eðlilegu samhengi við það sem gengur og gerist. Óhóf  er ekki til álitsauka í íslensku samfélagi.

Loftslagsbreytingar, sem einkum stafa af brennslu kola, olíu og jarðgass, eru staðreynd. Við búum við það hér að öll raforkuframleiðsla og hitun húsnæðis byggir á endurnýjanlegri orku. Á þessu sviði eru flestar þjóðir áratugum á eftir okkur. Við erum að hefja átak þannig að öku- og flutningatæki nýti innlenda orkugjafa. Atvinnulífið og stjórnvöld hyggjast nú með sérstökum samstarfsvettvangi tryggja að íslensk þekking á þessu sviði verði enn öflugri útflutningsvara en áður og jafnframt að markmið um kolefnishlutleysi Íslands náist á tilteknum tíma.

Skýr krafa er frá ungu fólki og almenningi víða um heim og hérlendis að við loftslagsógninni verði brugðist. Þessi aukna vitund er ánægjuefni en við leggjum áherslu á að umræðan sé jarðbundin og rökvís en ekki marklaus hræðsluáróður þar sem engar lausnir finnast. Ekki má álykta að lausnin í þessum mikilvæga málaflokki finnist með íþyngjandi skattlagningu á atvinnulífið eða öðrum íþyngjandi hömlum. Þvert á móti þarf að skapa hvata og jákvæð skilyrði fyrir nýsköpun og þróun til að takast á við eina stærstu áskorun sem við sem samfélag höfum mætt. Hér höfum við Íslendingar margt fram að færa, það eigum við að nýta okkur.

Nýting auðlinda til lands og sjávar hefur lagt grunn að velferðarsamfélagi á Íslandi. Samstaða ríkir um að nýtingin sé sjálfbær og að auðlindunum sé skilað til afkomenda okkar þannig að þau njóti afraksturins ekki síður en við.

Góðir fundarmenn

Hagvöxtur undanfarinna ára ásamt ábyrgum kjarasamningum og traustri efnahagsstjórn hefur tryggt að tekist hefur að ná til baka lífskjörum sem töpuðust í efnahagshruninu fyrir rúmum áratug og nú höfum við reyndar gert enn betur. 

Sannarlega bíða enn miklar áskoranir, sem við munum takast á við, í nánu samstarfi við ykkur forsvarsmenn fyrirtækja, líkt og við höfum gert með samtölum á ferðum okkar um landið síðustu árin. Á haustin höfum við fundað með forsvarsmönnnum fyrirtækja víða um land. Það er afar gefandi og nauðsynlegt að heyra hvað brennur á fólki í ólíkum atvinnugreinum alls staðar á landinu. Við erum ekki hætt þessum ferðalögum og í upphafi næsta árs megið þið búast við okkur enn á ný. Sú vísa verður aldrei of oft kveðin að við sem erum í forystu atvinnulífsins þjónum ykkur, en ekki öfugt.

Það eru nær þrír áratugir síðan þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir. Síðan hefur okkur miðað vel fram á veg, þrátt fyrir áföll. Lífskjör og jöfnuður eru hér í fremstu röð. Þótt um stund hafi dregið úr hagvexti eru horfur góðar. Ísland er ríkt land þar sem býr iðjusamt og gott fólk.

Samtök atvinnulífsins munu áfram leggja sitt af mörkum til að framtak einstaklinga fái að njóta sín og þau geti búið sér og sínum heilbrigt og hamingjuríkt líf.

Tengt efni:

Ársfundur atvinnulífsins 2019 á Facebook

Samtök atvinnulífsins