Samkeppnishæfni - 

07. ágúst 2014

Arðbært atvinnulíf stuðlar að blómlegu samfélagi

Samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Arðbært atvinnulíf stuðlar að blómlegu samfélagi

Tæplega helmingur Íslendinga telur fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið samkvæmt nýrri rannsókn Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, 28% telja þau hafa neikvæð áhrif en fjórðungur tekur ekki afstöðu. Þessar niðurstöður gefa tilefni til að skoða þessi mál vel og velta því fyrir sér hvað hægt er að gera betur. Vaxandi áhugi er í atvinnulífinu að taka samfélagsábyrgð föstum tökum og hefur það m.a. sýnt sig í mikilli fjölgun fyrirtækja sem hafa skrifað undir Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð en SA eru tengiliðir við Global Compact á Íslandi.

Tæplega helmingur Íslendinga telur fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélagið samkvæmt nýrri rannsókn Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, 28% telja þau hafa neikvæð áhrif en fjórðungur tekur ekki afstöðu. Þessar niðurstöður gefa tilefni til að skoða þessi mál vel og velta því fyrir sér hvað hægt er að gera betur. Vaxandi áhugi er í atvinnulífinu að taka samfélagsábyrgð föstum tökum og hefur það m.a. sýnt sig í mikilli fjölgun fyrirtækja sem hafa skrifað undir Global Compact – sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð en SA eru tengiliðir við Global Compact á Íslandi.

Áhrif á hverjum degi
Í Viðskiptablaðinu í dag segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, bæði stór og smá fyrirtæki leika veigamikið hlutverk í samfélaginu. „Með heilbrigðum og arðsömum rekstri standa þau undir verðmætasköpun í samfélaginu og stuðla þar með að aukinni atvinnusköpun og bættri velferð. Heilbrigt og arðbært atvinnulíf stuðlar að blómlegu og fjölbreyttu samfélagi. Þessi niðurstaða er merki þess að við getum bætt okkur umtalsvert í upplýsingagjöf um samfélagslegt mikilvægi fyrirtækja.“

Í rannsókn Festu kemur fram að styrkir til góðgerðamála og umhverfisvernd komi oftast upp í huga fólks þegar það hugsar um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þorsteinn Víglundsson bendir á í Viðskiptablaðinu að samfélagslegt mikilvægi fyrirtækja felist ekki aðeins í ábyrgð þeirra á umhverfismálum og að láta gott af sér leiða í nærumhverfi sínu. „Stærstu samfélagslegu áhrif fyrirtækjanna stafa af daglegum rekstri þeirra, nýsköpun og verðmætasköpun og framlagi til bættra lífskjara hér á landi.“

Fyrirtæki njóta trausts
Það er fjölmargt jákvætt í atvinnulífinu og almenningur virðist vera vel upplýstur um það. Síðastliðið haust, í tengslum við Smáþing Litla Íslands, báðu SA Capacent að kanna viðhorf Íslendinga til lítilla fyrirtækja. Könnunin leiddi í ljós að 94,4 % þjóðarinnar reyndust jákvæð í garð lítilla fyrirtækja, 5,3% höfðu á þeim enga skoðun og aðeins 0,3% reyndust neikvæðir.

Þessar afgerandi niðurstöður komu skemmtilega á óvart en sýndu svart á hvítu mikla jákvæðni í garð atvinnulífsins. Lítil fyrirtæki (með færri en 50 starfsmenn) greiddu um 44% heildarlauna í í atvinnulífinu árið 2012 og eru því stór efnahagsleg stærð. Nánast öll íslensk fyrirtæki teljast svo til lítilla eða meðalstórra fyrirtækja (með allt að 250 starfsmenn). Sjö af hverjum tíu starfsmönnum í atvinnulífinu árið 2012 - rúmlega 98 þúsund manns - störfuðu hjá litlum eða meðalstórum fyrirtækjum sem greiða um 2/3 heildarlauna í atvinnulífinu.

Úttekt SA síðastliðið haust sýnir að fólk virðist vel upplýst um mikilvægi fyrirtækja og framlag þeirra til þjóðfélagsins. Jafnframt að það þurfi að bæta starfsumhverfi þeirra en könnun Capacent sýndi að helmingur þjóðarinnar taldi starfsumhverfi lítilla fyrirtækja slæmt og eru það mun hærri tölur en sambærileg könnun í Svíþjóð sýndi.

Íslendingar treysta vinnuveitendum sínum jafnframt  mjög vel en traust til vinnuveitenda fær mjög háa einkunn í árlegum mælingum Capacent á trausti. Aðeins Landhelgisgæslan og lögreglan njóta meira trausts meðal fólks. Hins vegar mælist traustið minna þegar spurt er um íslenskt atvinnulíf almennt og stjórnendur þannig að það getur haft áhrif á niðurstöðuna hvernig spurt er. Það er hægt að gera betur.

Tengt efni:

Rannsókn Festu: Samfélagsábyrgð 2014

Vefur Global Compact Sameinuðu þjóðanna

Samtök atvinnulífsins