Efnahagsmál - 

20. apríl 2011

Arðbærar vegaframkvæmdir eru nauðsynlegar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Arðbærar vegaframkvæmdir eru nauðsynlegar

Samtök atvinnulífsins hafa í tengslum við kjarasamninga lagt áherslu á að hefja sem fyrst átak um samgönguframkvæmdir. Til þess að það geti gengið eftir verður að móta sem fyrst nýja heildarstefnu um gjaldtöku á umferðina. Þar verður að horfa til þess að milda áhrif hækkunar á innkaupsverði eldsneytis og taka þess í stað upp innheimtu fyrir notkun tiltekinna mannvirkja.

Samtök atvinnulífsins hafa í tengslum við kjarasamninga lagt áherslu á að hefja sem fyrst átak um samgönguframkvæmdir. Til þess að það geti gengið eftir verður að móta sem fyrst nýja heildarstefnu um gjaldtöku á umferðina. Þar verður að horfa til þess að milda áhrif hækkunar á innkaupsverði eldsneytis og taka þess í stað upp innheimtu fyrir notkun tiltekinna mannvirkja.

Eins og kunnugt er þá leggur ríkissjóður hlutfallsleg gjöld á innkaupsverð eldsneytis og þegar innkaupsverðið hækkar þá eykst sömuleiðis skattheimtan. Með því að draga úr þessari gjaldtöku og taka þess í stað upp fast gjald þegar ekið er um tilteknar samgönguæðar svipað og nú er gert í Hvalfjarðargöngum má draga úr sveiflum á eldsneytisverði og jafnframt tryggja örugga og jafna innheimtu tekna til að standa undir framkvæmdum.

Alþýðusamband Íslands hefur verið sammála SA um mikilvægi samgönguframkvæmda og í aðgerðaáætlun sambandsins frá því maí 2010 segir: "Stórum framkvæmdum í samgöngumálum verði hrint í framkvæmd með stofnun félags í eigu ríkissjóðs sem taki lán hjá lífeyrissjóðunum til langs tíma. Endurfjármögnun verði óháð rekstri ríkissjóðs."

Fram hefur komið vilji stjórnvalda til að skoða þessi mál í heild sinni. Mikilvægt er að finna þeim farveg þar sem sköpuð verður samstaða um að ráðast í viðamiklar framkvæmdir á sama tíma og mótuð verði heildarstefna um gjaldtöku á umferðina þar sem allt er undir eldsneytisgjöld, vegatollar og fleira. Þá verður nýtt kerfi með notendagjöldum tekið upp þegar framkvæmdum lýkur.

Alþingi hefur nú þegar veitt heimild til stofnunar hlutafélaga annars vegar um framkvæmdir á Suðvesturhorninu og hins vegar um Vaðlaheiðargöng. Ríkissjóður mun ekki geta tekið á sig umtalsverð útgjöld til vegamála á næstu árum og því verður að fjármagna þessar framkvæmdir með nýjum aðferðum þannig að notendur mannvirkjanna greiði fyrir notkunina þegar upp er staðið. Þá er rétt að minnast þess að skattgreiðendur standa þegar undir öllum kostnaði við samgöngumannvirki landsins og að það er ekki ljóst fyrirfram, hvort um aukna gjaldtöku, frá því sem nú er, verður að ræða eða ekki.

Með samstarfi stjórnvalda, aðila á vinnumarkaði, lífeyrissjóða, sveitarstjórna og annara hagsmunaaðila á að vera unnt að finna leið til að skapa samstöðu um málið. Hafa verður í huga að nýjar arðbærar vegabætur treysta innviði landsins og skapa hundruð starfa. Þá auka framkvæmdirnar öryggi í umferðinni og spara þjóðfélaginu stórfé á ári hverju.

Hér að neðan er yfirlit  um mögulegt umfang framkvæmda á næstu árum ef unnt verður að ná samstöðu um aðferð við gjaldtöku og fjármögnun. Smellið á myndina til að stækka:

Mögulegt umfang framkvæmda

Samtök atvinnulífsins