Efnahagsmál - 

08. Janúar 2004

Árangur atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Árangur atvinnulífsins

Miklar umræður fara nú fram um stöðuna í íslensku viðskiptalífi og er það kannski að vonum eftir alla þá uppstokkun og umrót sem þar hefur átt sér stað á undanförnum misserum og árum. Einkavæðing og aukið frelsi, ekki síst á fjármagnsmarkaði, hefur leyst úr læðingi mikinn kraft í efnahags- og viðskiptalífi landsmanna, sem hefur gert því kleift að sækja fram sem aldrei fyrr.

Miklar umræður fara nú fram um stöðuna í íslensku viðskiptalífi og er það kannski að vonum eftir alla þá uppstokkun og umrót sem þar hefur átt sér stað á undanförnum misserum og árum. Einkavæðing og aukið frelsi, ekki síst á fjármagnsmarkaði, hefur leyst úr læðingi mikinn kraft í efnahags- og viðskiptalífi landsmanna, sem hefur gert því kleift að sækja fram sem aldrei fyrr.

Eðlilega eru sett spurningarmerki við einstök atriði í þeirri þróun, en menn mega ekki týna sér svo í neikvæðum alhæfingum um viðskiptalífið, að sá stórkostlegi árangur sem náðst hefur gleymist í öllu moldviðrinu. Íslenskur almenningur hefur notið árangurs atvinnulífsins í ríkum mæli, en þar ber hæst um þriðjungs hækkun kaupmáttar á nokkrum árum. Það markmið hefur einnig náð fram að ganga að lægstu launataxtar hafa hækkað verulega umfram laun almennt. Má sennilega fullyrða að hvergi á byggðu bóli hafi atvinnulíf skilað af sér öðrum eins árangri fyrir samfélagið og hér hefur gerst frá því á miðjum síðasta ártatug.

Eignir á fleiri hendur
Sú klisja heyrist stundum að á Íslandi hafi eignir verið "að færast á sífellt færri hendur." Af opinberum tölum að dæma virðist þróunin hins vegar vera þveröfug, þannig að þessi neikvæða staðhæfing styðst við tilfinningar þeirra sem þessu halda fram fremur en staðreyndir.

Ef eignarskattstofn er skoðaður, sem er ákaflega íhaldssamur mælikvarði í þessu samhengi, þá kemur í ljós að eignamenn með eignir sem námu 7,5 milljónum eða meira voru ríflega 15 þús. árið 1996 en um 39 þús. árið 2002. Þannig að hátt í 10% þjóðarinnar bætast í þennan hóp á 5 árum. Á sama tíma fækkaði þeim sem áttu engar eignir og þeim sem borguðu engan eignarskatt. Stóreignamönnum með 20 milljónir eða meira í eignarskattsstofn fjölgaði um 226% á sama tíma. Eignir eru því að færast á sífellt fleiri hendur, þótt sumir verði ríkari en aðrir. Þeir sem mest ber á góma í því sambandi virðast raunar hafa mikið af sínum fjármunum úr erlendum viðskiptum  og hlýtur það út af fyrir sig að vera fagnaðarefni að þeir skili sér í fjárfestingar hingað til lands.

Sú þróun að efnahagslegan styrkleika er að finna víðar en áður skiptir máli fyrir samkeppnisástandið í þjóðfélaginu. Í stað þess að tvær viðskiptablokkir hafi lang mest umsvif á hendi eins og áður var, eru "klasarnir" nú margir sem hafa afl til að láta til sín taka í samkeppni sem krefst mikils fjármagns. Er engum blöðum um það að fletta að samkeppni hefur almennt stóraukist í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum í kjölfar þess frelsis og opnunar sem leikið hefur um efnahagslífið.

Athugun sjálfsögð
Þótt almennt sé því verið að gera góða hluti í íslensku viðskiptalífi, eins og forsætisráðherra undirstrikaði einmitt í umræðum um áramót, er ekki þar með sagt að ekkert megi lagfæra. Íslenskt atvinnulíf hefur lagt á það áherslu að fá að búa við sambærilegar starfsreglur og gilda í okkar helstu viðskipta- og samkeppnislöndum. Það er því ávallt sjálfsagt að það sé skoðað hvort íslenskar reglur séu á einhverjum sviðum athafnalífsins frábrugðar því sem annars staðar gerist á þann veg að til tjóns sé fyrir íslenskt samfélag. Einnig hvort að eftirlitsstofnanir þjóðfélagsins þurfi að eflast og nútímavæðast, eða bæta sín vinnubrögð og áherslur og auka skilvirkni. Málefnanleg yfirferð af því tagi getur verið gagnleg. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að nýjar almennar takmarkanir verið ekki til að hefta möguleika atvinnulífsins til að skila samfélaginu enn meiri ávinningi í framtíðinni.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins