Efnahagsmál - 

15. júlí 2008

Ár hagræðingar stendur yfir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ár hagræðingar stendur yfir

Nærri þrjú af hverjum fjórum aðildarfyrirtækja SA hafa ráðist í hagræðingaraðgerðir á árinu eða hyggjast gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun á rekstrarhorfum fyrirtækjanna. Tæpur helmingur fyrirtækjanna hefur haldið að sér höndum í ráðningum frá áramótum og hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda til áramóta. Stjórnendur hjá um þriðjungi fyrirtækja hafa fækkað starfsfólki á árinu eða hyggjast gera það, flestir um fimm eða færri. Mikill meirihluti fyrirtækja, eða rúmir tveir þriðju hlutar, hafa ekki þurft að glíma við lánsfjárskort en hjá þeim fyrirtækjum sem hafa gert það birtist hann helst í vanda við öflun lánsfjár til dagslegs rekstrar en einnig í erfiðleikum við fjármögnun nýrra verkefna. Vanskil viðskiptavina valda þessum fyrirtækjum erfiðleikum.

Nærri þrjú af hverjum fjórum aðildarfyrirtækja SA hafa ráðist í hagræðingaraðgerðir á árinu eða hyggjast gera það. Þetta kemur fram í nýrri könnun á rekstrarhorfum fyrirtækjanna. Tæpur helmingur fyrirtækjanna hefur haldið að sér höndum í ráðningum frá áramótum og hyggst halda óbreyttum starfsmannafjölda til áramóta. Stjórnendur hjá um þriðjungi fyrirtækja hafa fækkað starfsfólki á árinu eða hyggjast gera það, flestir um fimm eða færri. Mikill meirihluti fyrirtækja, eða rúmir tveir þriðju hlutar, hafa ekki þurft að glíma við lánsfjárskort en hjá þeim fyrirtækjum sem hafa gert það birtist hann helst í vanda við öflun lánsfjár til dagslegs rekstrar en einnig í erfiðleikum við fjármögnun nýrra verkefna. Vanskil viðskiptavina valda þessum fyrirtækjum erfiðleikum.

Meirihlutinn stendur erfiðleikana af sér - þriðjungur í vanda

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 7.-11. júlí síðastliðinn en það var Outcome hugbúnaður ehf. sem sá um framkvæmd hennar. Markmiðið með henni var að fá skýrari mynd af núverandi stöðu mála og horfunum framundan í íslensku atvinnulífi. Spurt var um starfsmannafjölda um síðustu áramót og áætlaðan starfsmannafjölda um næstu áramót auk þess að spyrja að því hvort fyrirtækin hafi þurft að glíma við lánsfjárskort á árinu.

Ljóst er að góður meirihluti fyrirtækjanna hefur búið vel í haginn fyrir þær þrengingar sem íslenskt atvinnulíf horfist í augu við um þessar mundir en 72% svarenda í könnuninni hafa ekki þurft að glíma við lánsfjárskort. Lýsir þetta almennum styrk atvinnulífsins og hversu mörg öflug fyrirtæki hafa byggst upp á undanförnum árum.

Hins vegar er tæpur þriðjungur eða um 28% sem hefur þurft að glíma við lánsfjárskort og birtist í vanda við öflun lánsfjár til daglegs rekstrar (63%) en einnig vanda við fjármögnun nýrra verkefna (46%) eða fjármögnun nýsköpunar- og þróunarverkefna (22%). Fjölmargir (17%) merktu við kostinn annað og af þeim var þriðjungur sem minntist á vanskil viðskiptavina sem helsta vanda.

Almennur samdráttur og aðhald

Athygli vekur að mjög margir svarenda eða 72% telja sig nú þegar hafa gripið til hagræðingar í rekstri eða áætla að gera það á árinu. Hagræðingaraðgerðir sem fyrirtækin áforma eru að mestu almennur samdráttur í starfsemi (54%). Hagræðingaraðgerðir felast helst í uppsögn starfsmanna (43%), samdrætti í almennum kostnaði og ýmis konar rekstraraðhaldi. Meðal þess sem fyrirtækin nefndu var t.d. sparnaður í olíunotkun, aðgát í innkaupum og kaupum á auglýsingum, minnkun yfirvinnu, frestun viðhaldsverkefna og nýframkvæmda.

Hjá um helmingi svarenda (48%) hafa hvorki orðið breytingar á starfsmannafjölda né þær áformaðar á árinu 2008. Hins vegar hefur orðið eða verður fækkun starfsfólks hjá 31% svarenda. Meðal þeirra hafa flestir (82%) þegar, eða ætla að segja upp færri en 10 starfsmönnum og þar af er fækkunin hjá 64% undir 5 manns. Þrettán fyrirtæki í könnuninni ætla eða hafa sagt upp 51 starfsmanni eða fleirum. Fjölmargir (14%) svöruðu hins vegar að þeir hafi eða ætli að segja upp á bilinu 26-50 starfsmönnum.

Hófleg fjölgun starfsmanna

21% svarenda hafa fjölgað eða ætla að fjölga starfsfólki á árinu 2008. Fjölgunin verður hins vegar hófleg því meðal þeirra hafa 78% bætt við sig innan við 10 starfsmönnum eða hafa gert það og yfir helmingur þeirra (54%) ætla eða hafa bætt við sig 5 starfsmönnum eða færri.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingarstarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Í þessum atvinnugreinum störfuðu 92.500 manns á síðasta ári og námu launagreiðslur til þeirra rúmlega 470 milljörðum króna. Hjá þeim fyrirtækjum í könnuninni sem þegar hafa fjölgað starfsmönnum eða áforma það nemur fjölgunin 4% af starfsmannafjölda en þegar framkvæmd eða áformuð fækkun nemur 6,7%. Nettófækkun starfsmanna á árinu er því 2,7%. Þessi hlutfallstala, 2,7%, svarar til þess að störfum muni fækka um tæplega 2.500 í þessum atvinnugreinum á árinu. Launagreiðslur sem brott falla af þeim sökum nema rúmlega 13 milljörðum króna eða sem nemur 1% af vergri landsframleiðslu.

-----------------

Um könnunina:

Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1699 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 592. Svarhlutfall var því 34,84%. Lang flestir svarenda (81%) voru með undir 50 starfsmenn í vinnu. Flestir þeirra (32%)  með 5 starfsmenn eða færri. Fimmtán svarenda störfuðu hjá fyrirtæki með yfir 500 starfsmenn í vinnu.

Samtök atvinnulífsins