Efnahagsmál - 

29. Desember 2011

Ár glataðra tækifæra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ár glataðra tækifæra

Viðskiptablað Morgunblaðsins fjallar í dag um árið sem er að líða og gerir upp þau mál sem snúa að atvinnulífinu. "Það sem stendur upp úr á árinu var að í maí tókst að ljúka kjarasamningum, að undangenginni langri fæðingu og löngum meðgöngutíma," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins m.a. í samtali við blaðið. "Samningarnir tryggðu vinnufrið, en kostuðu það líka að atvinnulífið teygði sig eins langt og mögulegt var og var sumt jafnvel alveg á jaðri skynseminnar. Útkoman mun líklega jafngilda að jafnaði 13% launahækkunum yfir þriggja ára tímabil."

Viðskiptablað Morgunblaðsins fjallar í dag um árið sem er að líða og gerir upp þau mál sem snúa að atvinnulífinu. "Það sem stendur upp úr á árinu var að í maí tókst að ljúka kjarasamningum, að undangenginni langri fæðingu og löngum meðgöngutíma," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins m.a. í samtali við blaðið. "Samningarnir tryggðu vinnufrið, en kostuðu það líka að atvinnulífið teygði sig eins langt og mögulegt var og var sumt jafnvel alveg á jaðri skynseminnar. Útkoman mun líklega jafngilda að jafnaði 13% launahækkunum yfir þriggja ára tímabil."

Í umfjöllun Viðskiptablaðs Morgunblaðsins segir ennfremur:

Hversu vel samningarnir munu svo reynast er erfitt að segja. "Þessir samningar byggðust á ákveðnum forsendum um að atvinnulífið væri að fara inn í gott vaxtartímabil en vandasamt að segja til með vissu hvort það mun ganga eftir," segir Vilhjálmur og bætir við að hann heyri mjög ólíkar sögur af gengi fyrirtækja í dag. Þeir sem fást við útflutning standi yfirleitt vel að vígi en aðrir, sér í lagi þeir sem bera stórar skuldir, beri sig iðulega illa.

Ójafnvægi og atvinnuleysi

Skammir ársins vill Vilhjálmur senda stjórnvöldum. Hann segir ekki nóg hafa verið gert til að ná jafnvægi á ríkisbúskapnum og skapa atvinnu. "Það liggur á að ná atvinnuleysi niður enda myndi fleira fólk á vinnumarkaði þýða að ekki væri þörf á jafnmiklum skattahækkunum og skörpum niðurskurði eins og raunin hefur orðið."

Vilhjálmur segir greiðustu lausnina vera að auka fjárfestingu. "Stærsta vonarglætan til að koma hjólunum aftur á hreyfingu væri ef Norðurál færi af stað með Helguvíkurverkefnið samhliða samningum við orkuveiturnar, og eins ef Landsvirkjun tækist að landa samningum til að hefja virkjunarframkvæmdir í Þingeyjarsýslu," útskýrir hann. "Árið 2011 var ár glataðra tækifæra, og 2012 gæti farið á sömu leið, en ef tekst að koma einhverjum af þessum stærri verkefnum í gang gæti það þó þýtt að eitthvað færi að gerast í sumar eða næsta haust, og áhrifin kæmu þá fram að fullu árið 2013."

Gengið hreint til verks

Til lengri tíma litið myndi Vilhjálmur vilja sjá hófsamari skattheimtu og ýmsum byrðum létt af atvinnulífinu. "Það þarf m.a. að koma starfsemi banka í fastara form og tryggja hagkvæmt fjármálakerfi sem getur þjónað atvinnulífinu vel. Rykið er farið að sjatna eftir hrun, og tiltektinni að ljúka, og þá er að koma í ljós hvernig húsið lítur loksis út eftir allan hamaganginn," segir Vilhjálmur. "Hluti af vandanum er líka að fjármálamarkaðurinn er lokaður til útlanda, og með fjármálamarkaðinn gildir það sama og um aðra markaði að ef lokað er á samkeppni gjalda neytendur fyrir."

Vilhjálmur telur að það yrði farsælast að létta gjaldeyrishöftunum hratt og vel, frekar en t.d. með langdregnu þrepaskiptu ferli. "Ég held það verði að ganga hreint til verks, þó ekki væri nema vegna þess að við höfum séð gjaldeyrishöftin dragast æ meira á langinn. Upphaflega átti þetta ástand bara að vara í þrjá mánuði, svo að vara út allt samstarfið við AGS og núna sér hreinlega ekki fyrir endann á höftunum."

Sjá nánar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 29. desember 2011

Samtök atvinnulífsins