Efnahagsmál - 

08. Ágúst 2011

Án hagvaxtar verður atvinnuleysið áfram mikið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Án hagvaxtar verður atvinnuleysið áfram mikið

Fjallað er um vaxandi svartsýni á horfur í efnahagsmálum árið 2012 í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Þar kemur fram að tafir á framkvæmdum hafi sett markmið um aukinn hagvöxt í uppnám og útlit sé fyrir mikið atvinnuleysi áfram ef ekki verði brugðist snarlega við. Markmið um 4-5% hagvöxt þykja nú fjarlægari en við gerð kjarasamninganna.

Fjallað er um vaxandi svartsýni á horfur í efnahagsmálum árið 2012 í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Þar kemur fram að tafir á framkvæmdum hafi sett markmið um aukinn hagvöxt í uppnám og útlit sé fyrir mikið atvinnuleysi áfram ef ekki verði brugðist snarlega við. Markmið um 4-5% hagvöxt þykja nú fjarlægari en við gerð kjarasamninganna.

"Það má segja að þetta ár sé nánast tapað hvað hagvaxtarmöguleika snertir," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og bætir því við að nú sé útlit fyrir að markmið um 4-5% hagvöxt á næsta ári muni ekki nást."

Vilhjálmur segir að ástandið þyrfti að vera miklu betra og atvinnuleysið að ganga miklu hraðar niður en útlit er fyrir að á annan tug þúsunda verði áfram án vinnu. "Mér sýnist ekkert vera í sjónmáli sem kemur í veg fyrir að atvinnuleysi aukist aftur með haustinu. Það alvarlegasta í þessu er að þegar fjárfestingar í atvinnulífinu komast ekki á fullan skrið erum við ekki að ná atvinnuleysinu nógu mikið niður. Vandinn er ekki aðeins bundinn við þetta ár. Hann nær til næsta árs."

Vilhjálmur segir að ef takast eigi að snúa blaðinu við verði að nást upptaktur í efnahagslífinu í lok ársins svo hagvöxtur verði meiri á næsta ári.

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir ennfremur:

"Árni Jóhannsson, forstöðumaður mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, er harðorður í garð stjórnvalda og segir þau "ekki hafa gert eitt eða neitt" af því sem þau lofuðu við gerð nýgerðra kjarasamninga.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, gagnrýnir einnig vanefndir stjórnvalda og segir hagkerfið ekki vaxa eins og stefnt var að.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er orðinn vondaufur um að 4-5% hagvöxtur verði á næsta ári. "Það væri kraftaverk. Ég sé ekki hvaðan slíkur vöxtur ætti að koma," segir Orri. Hann kveðst aðspurður reikna með 7-8% atvinnuleysi á næsta ári."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 6. ágúst 2011 á bls. 1 og 14

Samtök atvinnulífsins