Efnahagsmál - 

02. október 2009

Ályktun aðalfundar SF

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ályktun aðalfundar SF

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva 2009 fór fram föstudaginn 25. september síðastliðinn. Í ályktun fundarins segir m.a. að endurreisn íslenska fjármálakerfisins, lækkun fjármagnskostnaðar og afnám gjaldeyrishafta sé algjört forgangsmál. "Það er lífsspursmál fyrir fólk og fyrirtæki að hægt verði að taka upp eðlilega bankaþjónustu sem allra fyrst. Fjárhagslegri endurskipulagningu viðskiptabanka og sparisjóða fer senn að ljúka og því mikilvægt að hægt verði að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað."

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva 2009 fór fram föstudaginn 25. september síðastliðinn. Í ályktun fundarins segir m.a. að endurreisn íslenska fjármálakerfisins, lækkun fjármagnskostnaðar og afnám gjaldeyrishafta sé algjört forgangsmál. "Það er lífsspursmál fyrir fólk og fyrirtæki að hægt verði að taka upp eðlilega bankaþjónustu sem allra fyrst. Fjárhagslegri endurskipulagningu viðskiptabanka og sparisjóða fer senn að ljúka og því mikilvægt að hægt verði að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað."

Samtök fiskvinnslustöðva skora á Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti í samræmi við fyrirheit við gerð Stöðugleikasáttmálans frá 25. júní. Í ályktuninni segir m.a.:

"Veruleg lækkun stýrivaxta eigi síðar en 5. nóvember nk. og lækkun annarra nafnvaxta í kjölfarið væru skýr og jákvæð skilaboð út í þjóðfélagið. Við endurreisn fjármálakerfisins og lækkun fjármagnskostnaðar skapast fyrst aðstæður til að hefja raunverulega endurreisn íslensks atvinnulífs.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva leggst eindregið gegn öllum tillögum og hugmyndum ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið í sjávarútvegi og innköllun á öllum fiskveiðiheimildum til ríkisins á næstu tveimur áratugum. Framkvæmd fyrningarleiðar mun fela í sér að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólks þeirra mun verða kippt í burtu á fáum árum.

Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórnina að falla frá öllum hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi, en beina kröftum sínum þess í stað að þeim gríðarlegu vandamálum sem þjaka þjóðarbúið. Við þessar aðstæður væri eðlilegt að endurskoðunar- og sáttanefnd sjávarútvegsráðherra sem skila á tillögum fyrir 1. nóvember nk., einbeiti sér að þeim vandamálum sem brenna mest á atvinnugreininni.

Mikilvægi sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina hefur aukist mikið í kjölfar efnahagshrunsins. Það á því að vera kappsmál stjórnvalda að halda frið við atvinnugreinina í stað þess að boða ráðstafanir sem gera nær ómögulegt fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að marka sér framtíðarsýn við ríkjandi aðstæður.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva leggst eindregið gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þessari afstöðu samtakanna var komið skýrt á framfæri við Utanríkismálanefnd þegar þingsályktunartillögur utanríkisráðherra og stjórnarandstöðuflokkanna voru til umræðu á Alþingi í sumar."

Ályktunina í heild má nálgast á vef SF en þar eru m.a. sett fram samningsskilyrði sem aðalfundur SF vill að verði ófrávíkjanleg í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, m.a. að Íslendingar fari sjálfir með forræði yfir fiskimiðunum og lagasetningarvald á sviði sjávarútvegsmála verði áfram hjá Alþingi.

"Fiskimiðin umhverfis Ísland eru ein mikilvægasta náttúruauðlind okkar og ein af grunnundirstöðum íslensks efnahags. Forræði yfir fiskimiðunum og öðrum mikilvægum hagsmunum verður ekki afsalað í aðildarviðræðum við Evrópusambandið," segir jafnframt í ályktun aðalfundar SF.

Ítarlega umfjöllun um aðalfund SF má finna á vef samtakanna, m.a. allar glærur frummælenda. Meðal þeirra sem fluttu erindi var Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sem fjallaði um stöðugleikasáttmálann - framvindu og horfur.

Sjá nánar:

Umfjöllun um aðalfund SF 25. september

Samtök atvinnulífsins