Efnahagsmál - 

28. september 2012

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (3)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (3)

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) fór fram fimmtudaginn 27. september. Í ályktun fundarins er skorað á ríkisstjórnina að falla frá því að endurflytja frumvarp um fiskveiðistjórnun sem lagt var fram á Alþingi sl. vetur, en dagaði þar uppi vegna mikillar andstöðu í þjóðfélaginu. Þá skora SF á ríkisstjórnina að endurskoða þær gríðarlegu hækkanir veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki sem meirihluti Alþingis samþykkti við þinglok í júní sl.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) fór fram fimmtudaginn 27. september. Í ályktun fundarins er skorað á ríkisstjórnina að falla frá því að endurflytja frumvarp um fiskveiðistjórnun sem lagt var fram á Alþingi sl. vetur, en dagaði þar uppi vegna mikillar andstöðu í þjóðfélaginu. Þá skora SF á ríkisstjórnina að endurskoða þær gríðarlegu hækkanir veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki sem meirihluti Alþingis samþykkti við þinglok í júní sl.

Ályktunina í heild má lesa hér að neðan:

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva

27. september 2012

"Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á ríkisstjórnina að falla frá því að endurflytja frumvarp um fiskveiðistjórnun sem lagt var fram á Alþingi sl. vetur, en dagaði þar uppi vegna mikillar andstöðu í þjóðfélaginu.

Þá skorar aðalfundurinn á ríkisstjórnina að endurskoða þær gríðarlegu hækkanir veiðigjalda á sjávarútvegsfyrirtæki sem meirihluti Alþingis samþykkti við þinglok í júní sl. Fundurinn mótmælir sérstaklega þeirri aðferð við gjaldtökuna að nota áætlaða heildarframlegð í fiskvinnslu til að hækka álagningargrunn veiðigjalda.

Með margföldun veiðigjalda og aðgerðum sem felast í frumvarpinu um fiskveiðistjórnun er augljóslega verið að kollvarpa rekstri sjávarútvegs-fyrirtækja, stórauka skattheimtu, breyta aflahlutdeildarkerfinu og auka pólitísk afskipti af sjávarútveginum.

Margföldun veiðigjalda mun óhjákvæmilega kalla á frekari samþjöppun í sjávarútvegi með þeim afleiðingum að starfsemi margra minni útgerða og fiskvinnsla mun leggjast af.

Álit hagsmunaaðila og umsagnir sérfræðingahóps stjórnvalda voru allar á einn veg og þar var sterklega varað við þeim skaða sem margföldun veiðigjalda og aðrar boðaðar breytingar munu hafa á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og lífskjör þjóðarinnar.

Aðalfundurinn skorar á atvinnuvegaráðherra að hefja nú þegar vinnu með beinni aðkomu fulltrúa sjávarútvegsins við að útfæra tillögur sáttanefndar sem lagðar voru fram í september 2010 og fela í sér að gerðir verði langtímasamningar við sjávarútvegsfyrirtæki um nýtingu aflaheimilda og að áfram skuli byggt á aflamarki við stjórn fiskveiða. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir sjávarútveginn að tryggja stöðugleika í lagaumhverfi atvinnu-greinarinnar til langs tíma og um leið langtímahagsmuni í rekstri fyrirtækjanna.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva mótmælir afskiptum stjórnvalda að kjarasamningum og atvinnuöryggi fiskvinnslufólks í hráefnisleysi hjá fiskvinnslufyrirtækjum sem birtist í frumvarpi til fjárlaga 2013. Með ákvæði í kjarasamningum og lögum frá 1995 hefur fastráðið fiskvinnslufólk verið haldið á launaskrá í hráefnisleysi. Meðan slíkt varir eiga fyrirtækin rétt á endurgreiðslu sem nemur um 60% af launa-kostnaði fiskvinnslufólks. Eftir að fyrirtækin fóru almennt að vinna eftir þessum reglum hefur það aukið atvinnuöryggi og nær tekið fyrir að fiskvinnslufólk fari á atvinnuleysisskrá í hráefnisleysi.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2013 er þessi fjárlagaliður felldur niður. Samtök fiskvinnslustöðva, ASÍ og Starfsgreinasambandið hafa þegar mótmælt þessum fyrirhuguðu breytingum.

Aðalfundurinn skorar á viðkomandi stjórnvöld að endurskoða nú þegar þessa ákvörðun, þannig að ákvæði gildandi kjarasamninga um kauptryggingu og starfsmenntun í fiskvinnslu og lög um endurgreiðslur í hráefnisleysi haldi gildi sínu.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar mikilvægi þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Fundurinn skorar á Seðlabanka Íslands og stjórnvöld að standa við þá yfirlýstu stefnu að gjaldeyrishöft verði afnumin fyrir árslok 2013.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fiskimiðin umhverfis Ísland eru ein mikilvægasta náttúruauðlind okkar og ein af grunnundirstöðum íslensks efnahags. Forræði yfir fiskimiðunum og öðrum mikilvægum hagsmunum má ekki undir nokkrum kringumstæðum afsala í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Aðalfundurinn skorar á atvinnuvegaráðherra að staðfesta fyrirliggjandi tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflareglu í ýsu, ufsa og gullkarfa. Með því móti er stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna og bættu aðgengi að mörkuðum fyrir sjávarafurðir."

Vefur Samtaka fiskvinnslustöðva

Samtök atvinnulífsins