Efnahagsmál - 

30. September 2011

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (2)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (2)

Í ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva sem fram fór föstudaginn 23. september er skorað á ríkisstjórnina að draga til baka frumvarp sjávarútvegsráðherra sem lagt var fram á Alþingi í sumar. "Markmið frumvarpsins er augljóslega að kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, stórauka skattheimtu á sjávarútveginn, breyta aflahlutdeildarkerfinu og auka vald ráðherra og pólitísk afskipti af sjávarútveginum.

Í ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva sem fram fór föstudaginn 23. september er skorað á ríkisstjórnina að draga til baka  frumvarp sjávarútvegsráðherra  sem lagt var fram á Alþingi í sumar. "Markmið frumvarpsins er augljóslega að kollvarpa rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, stórauka skattheimtu á sjávarútveginn, breyta aflahlutdeildarkerfinu og auka vald ráðherra og pólitísk afskipti af  sjávarútveginum. 

Skömmu fyrir þinglok samþykkti meirihluti Alþingis fyrra frumvarp ráðherra sem ætlað er að vera hluti af hinu síðara  og fela ákvæði þess í sér aukna skattheimtu á sjávarútveginn og fleiri íþyngjandi ákvæði. Álit og umsagnir hagsmunaaðila og sérfræðingahóps sjávarútvegsráðherra hafa verið mjög neikvæðar og þar er sterklega varað við þeim skaða sem boðaðar breytingar munu hafa á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og lífskjör þjóðarinnar."

Í ályktuninni segir ennfremur:

"Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að hefja nú þegar vinnu við að útfæra  tillögur sáttanefndar   um samningaleið en hún felur í sér að gerðir verði langtímasamningar við sjávarútvegsfyrirtæki um  nýtingu aflaheimilda og að áfram skuli byggt á aflamarki við stjórn fiskveiða. Umfram allt þarf að tryggja að áfram verði rekinn hagkvæmur sjávarútvegur á Íslandi, en slíkt er ein megin forsenda þess að hægt verði að halda uppi góðum lífskjörum hér á landi.

Það er afar mikilvægt að fulltrúar sjávarútvegsins komi að framhaldi málsins með beinum hætti, enda er um tilverugrunn fyrirtækjanna að tefla.   Það skiptir gríðarlegu máli fyrir sjávarútveginn að tryggja stöðugleika í lagaumhverfi atvinnugreinarinnar til langs tíma og um leið langtímahagsmuni í rekstri fyrirtækjanna.

Það á að vera kappsmál stjórnvalda að halda frið við atvinnugreinina í stað þess að gera og boða ráðstafanir sem gera nær ómögulegt fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að marka sér framtíðarsýn við ríkjandi aðstæður.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar mikilvægi þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Fundurinn skorar á Seðlabanka Íslands og stjórnvöld að gera afnám gjaldeyrishafta að forgangsmáli og þau verði að fullu afnumin fyrir árslok 2012.

Aðalfundurinn fagnar  íslensku upprunamerki fyrir sjávarafurðir og þeim áfanga sem náðst hefur með vottun ábyrgra veiða íslenska þorskstofnsins. Nú eru ýsa, ufsi og gullkarfi í vottunarferli hjá óháðum erlendum aðila. Vottun ábyrgra veiða mun  gefa seljendum íslenskra sjávarafurða aukin tækifæri til að mæta kröfum markaðarins með hagsmuni framtíðar að leiðarljósi.

Þá fagnar aðalfundurinn þeim merka áfanga  að  íslenskar fiskmjölsverksmiðjur hafa nú tekið upp alþjóðlegt vottunarkerfi um ábyrga hráefnisöflun, heilnæmi og öryggi framleiðsluvara verksmiðjanna. Alþjóðasamtök fiskmjölsframleiðenda ásamt kaupendum afurða verksmiðjanna  komu að gerð þeirra krafna sem vottunin byggir á, en úttekt og eftirlit er framkvæmt  af sömu erlendu vottunarstofunni  og  gerir úttekt varðandi ábyrgar fiskveiðar Íslendinga.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar andstöðu sína  við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fiskimiðin umhverfis Ísland eru ein mikilvægasta náttúruauðlind okkar og ein af grunnundirstöðum íslensks efnahags. Forræði  yfir fiskimiðunum og öðrum mikilvægum hagsmunum má ekki undir nokkrum kringumstæðum  afsala í aðildarviðræðum við Evrópusambandið."

Tengt efni:

Gögn frá aðalfundi SF má nálgast á vef SF

Samtök atvinnulífsins