Efnahagsmál - 

30. september 2008

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva (1)

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva fór fram föstudaginn 26. september 2008. Í ályktun fundarins segir m.a. að áhrif 33% minnkunar á þorskveiðiheimildum hafi komið mjög illa við öll fyrirtæki í sjávarútvegi og minnkað til muna þá framlegð sem þurfi að vera eftir í fyrirtækjunum. Áhrif gengisbreytinga hafi aukið rekstrartekjur í sjávarútvegi en einnig hækkað erlendar skuldir og aðföng. Hagsmunir sjávarútvegsins felist ekki í miklu flökti á gengi íslensku krónunnar umfram aðra gjaldmiðla, heldur í stöðugra gengi hennar - þar sem horft verði til mikilvægis útflutnings- og samkeppnisgreina. Samtök fiskvinnslustöðva skora á Seðlabankann að lækka stýrivexti sem allra fyrst.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva fór fram föstudaginn 26. september 2008. Í ályktun fundarins segir m.a. að áhrif 33% minnkunar á þorskveiðiheimildum hafi komið mjög illa við öll fyrirtæki í sjávarútvegi og minnkað til muna þá framlegð sem þurfi að vera eftir í fyrirtækjunum. Áhrif gengisbreytinga hafi aukið rekstrartekjur í sjávarútvegi en einnig hækkað erlendar skuldir og aðföng. Hagsmunir sjávarútvegsins felist ekki í miklu flökti á gengi íslensku krónunnar umfram aðra gjaldmiðla, heldur í stöðugra gengi hennar - þar sem horft verði til mikilvægis útflutnings- og samkeppnisgreina. Samtök fiskvinnslustöðva skora á Seðlabankann að lækka stýrivexti sem allra fyrst.

Ályktun aðalfundar SF 2008 má lesa í heild hér að neðan:          

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva

26. september 2008

Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í dag voru lagðar fram upplýsingar um þróun heildarafla, hráefniskostnaðar,  afurðaverðs, gengis og annarra útgjaldaliða er ráða mestu um afkomuna.

Þessi  gögn staðfesta misjafna afkomu  vinnslugreina og sjávarútvegsins í heild. Verðlag á íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum hefur haldist hagstætt að undanskildum  afurðum rækjuvinnslunnar. Áhrif 33% minnkunar á þorskveiðiheimildum hefur komið mjög illa við öll fyrirtæki í sjávarútvegi og minnkað til muna þá framlegð sem þarf að vera eftir í fyrirtækjunum.

Gengi krónunnar hefur gefið mikið eftir frá því í mars á þessu ári og hefur það skilað sér í hærra skilaverði til útflutningsgreina. Á móti kemur að erlendar skuldir og ýmis aðföng til sjávarútvegs hafa hækkað að sama skapi. Þá hefur verðbólga innanlands farið vaxandi og sama gildir um  fjármagnskostnað fólks og fyrirtækja. Engu að síður hafa áhrif gengis-breytinganna verið jákvæð og aukið rekstrartekjur og  framlegð fyrirtækja í sjávarútvegi.  Hagsmunir sjávarútvegsins felast ekki í miklu flökti á gengi íslensku krónunnar umfram aðra gjaldmiðla, heldur í stöðugra gengi hennar -jafnvægisgengis- þar sem horft verði til mikilvægis útflutnings- og samkeppnisgreina.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar þá skoðun að Seðlabankinn lækki verulega stýrivexti sem allra fyrst, en barátta bankans við þensluna undanfarin ár með háum stýrivöxtum hefur litlu skilað, en bitnaði mjög illa  á útflutningsgreinum, þar sem þessir háu stýrivextir héldu uppi of  háu gengi krónunnar um langan tíma.

Aðalfundurinn  skorar á stjórnvöld að láta fara fram nú þegar endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands og þar verði  fleiri þættir en verðbólgumarkmið  látnir ráða við stjórn peningamála, svo sem jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Jafnframt hefjist sem fyrst boðuð úttekt stjórnvalda  á efnahags- og peningamálastjórnun í landinu.     

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva fagnar því að nú fer senn að sjá fyrir endann á undirbúningi verkefnis sem unnið hefur verið að í víðtæku samstarfi hagsmunaðila  um íslensk  "umhverfismerki"  fyrir sjávarafurðir og vottun ábyrgra fiskveiða á Íslandsmiðum. Hér er um mjög mikilvægt mál fyrir íslenskan sjávarútveg að ræða, þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á skipulögð og vönduð vinnubrögð við allan undirbúning verksins.  

Aðalfundurinn skorar á  Alþingi að ljúka umræðum og samþykkja frumvarp um nýja matvælalöggjöf, en frumvarpið er sniðið að matvæla-löggjöf ESB. Fundurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði að lögum nú í haust og jafnframt verði sú breyting gerð á frumvarpinu að fyrirtækjum verði áfram heimilt að semja við sjálfstæðar skoðunarstofur um framkvæmd skilgreinds eftirlits.    


Aðalfundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að endurmeta nú þegar úthlutun á þorski og síld á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samtök atvinnulífsins