Fréttir - 

26. mars 2018

Alvarlegar athugasemdir við persónuverndarfrumvarp

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Alvarlegar athugasemdir við persónuverndarfrumvarp

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka verslunar og þjónustu, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands eru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka verslunar og þjónustu, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands eru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.

Óskýr og hættuleg innleiðingaraðferð
Samtökin gagnrýna þá leið sem farin er við innleiðingu á reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd (GDPR). Lagt er til að reglugerðin verði lögfest, valdar greinar úr henni umritaðar og að hún eigi að ganga framar íslenskum lögum. Á sama tíma verði vikið frá ýmsum ákvæðum reglugerðarinnar með lögum.

Samtökin telja að þetta muni valda mikilli réttaróvissi og misskilningi í framkvæmd og efast um að þessi innleiðingaraðferð standist kröfur íslenskar stjórnskipunar og 7. gr. EES samningsins. Samtökin leggja til að farin verði sama leið og á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að reglugerðin verði innleidd með tilvísunaraðferð og lögfestar verði svo sérstaklega þær útfærslur, ívilnandi sérreglur og takmarkanir sem settar verða.

Mikilvægt að lögin verði tilbúin í tíma
Þá lýsa samtökin yfir áhyggjum sínum af því að frumvarpið verði ekki orðið að lögum þann 25. maí nk. líkt og hjá öðrum löndum EES-svæðisins. Ef sú verður raunin mun Ísland flokkast sem svokallað þriðja ríki. Það gæti haft í för með sér umtalsvert fjárhagslegt tjón fyrir hið opinbera, atvinnulífið og viðsemjendur þeirra ásamt því að veikja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi.

Meira íþyngjandi regluverk
Samtökin lýsa yfir andstöðu við að í frumvarpsdrögunum sé í mörgum tilvikum gengið lengra í innleiðingu en þörf er á með setningu íþyngjandi sérreglna. Í því sambandi gagnrýna samtökin meðal annars að lagt sé til að fyrirtæki þurfi, ólíkt samkeppnislöndum sínum, að standa undir kostnaði við eftirlit. Að sama skapi er lagt til að það svigrúm sem reglugerðin heimilar til setningar ívilnandi undanþáguheimilda fyrir atvinnulífið verði lítið sem ekkert nýtt.

Þannig er t.d. lagt til að vinnugögn og önnur undirbúningsgögn verði ekki undanþegin upplýsingaréttinum í tilviki fyrirtækja, ólíkt því sem er í núverandi lögum og á hinum Norðurlöndunum. Ef af verður er afleiðingin sú að íslensk fyrirtæki munu búa við meira íþyngjandi regluverk en samkeppnisaðilar þeirra í öðrum ríkjum. Í ljósi þess að það er ekki í anda stefnu núverandi ríkisstjórnar um að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins ættu athugasemdir samtakanna að fá góðan hljómgrunn.

Persónuvernd gæti hófsemdar
Að lokum benda samtökin á að í ljósi umfangs málsins og skamms tímafrests er afar brýnt að Persónuvernd setji fræðslu- og leiðbeiningarhlutverk sitt í forgrunn og sýni hófsemd í beitingu sekta á næstu misserum. Alltof stuttur tími er þar til regluverkið á að taka gildi.

Sjá nánar:

Umsögn samtakanna um ný persónuverndarlög (PDF)

Tengt efni á vef SA:

Aldarfjórðungs klaufagangur

Fræðsluefni um ný persónuverndarlög

Ný persónuverndarlöggjöf 2018

Samtök atvinnulífsins