Efnahagsmál - 

10. Desember 2009

Alvarlegar athugasemdir atvinnulífsins við boðaðar skattabreytingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Alvarlegar athugasemdir atvinnulífsins við boðaðar skattabreytingar

Samtök atvinnulífsins ásamt Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, hafa sent Alþingi ítarlega umsögn um fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar þar sem gerðar eru fjölmargar alvarlegar athugasemdir og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru gagnrýnd harðlega. Hagsmunaaðilar fengu aðeins örfáa daga til að kynna sér efni frumvarpsins sem hefur að geyma mjög róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu.

Samtök atvinnulífsins ásamt Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, hafa sent Alþingi ítarlega umsögn um fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar þar sem gerðar eru fjölmargar alvarlegar athugasemdir og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru gagnrýnd harðlega. Hagsmunaaðilar fengu aðeins örfáa daga til að kynna sér efni frumvarpsins sem hefur að geyma mjög róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu.

Í umsögninni segir m.a.:

"Þær breytingar sem í frumvarpinu felast á skattamálum fyrirtækja fela í sér ýmislegt óhagræði og hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir fyrirtækin. Þá mun kostnaður skattyfirvalda aukast verulega vegna breytinga á tölvukerfum og eftirlits með flóknara skattkerfi, eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Þegar grundvallar breytingar á skattalegu umhverfi fyrirtækja eru fyrirhugaðar er óverjandi annað en að meta einnig kostnað fyrirtækja og áhrif á atvinnulífið. Þá ætti það að vera grundvallarforsenda að hafa náið samráð við sérfróða aðila þegar svo flóknar og umfangsmiklar breytingar eru gerðar á skattalegu umhverfi fyrirtækja og raun ber vitni."

Umsögn samtakanna má nálgast í heild hér að neðan en þau leggja á það mikla áherslu að eftirfarandi fimm atriðum verði breytt:

1. Skattlagning arðs sem launatekjur.
Ítarlegar athugasemdir eru gerðar við þetta atriði m.a. að þar er rætt um "skattalegt bókfært eigið fé" sem er óskýrt hugtak og hvergi skilgreint í lögum. Ákvæðið er óljóst og erfitt í framkvæmd auk þess sem það mun hafa verulega neikvæð áhrif. Hluthafar sem fá t.a.m. arð greiddan í einni hárri fjárhæð á margra ára fresti eiga að sæta harðari skattlagningu en þeir sem fá sömu upphæð greidda í sömu skömmtum á margra ára tímabili.

Í ákvæðinu felst jafnframt að lagðar verða þyngri skattbyrðar á hluthafa sem byggt hafa félög sín upp með eigin fé, heldur en hluthafa félaga sem byggð hafa verið upp með lánsfé. Í tillögunni er ekkert horft til þess hvað það er sem skapar hagnað til arðsúthlutunar. Tillögunni er þannig ekki einvörðungu ætlað að taka til þeirra tilvika að vinnuframlag hluthafa skapar hagnaðinn, heldur einnig til tilvika þar sem hagnaðinn má rekja til vörusölu, sölu rekstrarfjármuna, sölu vinnuframlags annarra starfsmanna, eða annarra atvika sem ekkert hafa með að gera verðmæti vinnuframlags hluthafanna. Í dæmaskyni má nefna hagnað félags af sölu atvinnurekstrarhúsnæðis. Sá hagnaður er ekki til kominn vegna vinnuframlags hluthafa og því óeðlilegt að skattleggja hann sem laun í þeirra hendi þegar honum er úthlutað sem arði af hlutareign.

Leiða má líkur að því að þessi regla muni draga úr vilja einstaklinga til að leggja atvinnurekstri til áhættufjármagn í formi eigin fjár og blasir raunar við að skynsamlegra verður að gera það með lánsfé ef menn yfir höfuð kæra sig um að koma að fjármögnun félaga sem þeir starfa hjá. Þetta þykir því skjóta nokkuð skökku við á tímum þar sem margir hafa talið að mikilvægt væri að auka tiltrú manna á þátttöku í atvinnurekstri með eiginfjárframlögum.

2. Framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda umfram 2 m.kr. á ári talið til tekna einstaklings.
Í 5. gr. er lagt til að framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda einstaklings umfram 2 m.kr. verði talið til tekna, þó ekki ef framlagið er samkvæmt kjarasamningi. Svo virðist sem verið sé að leita lausnar á mjög afmörkuðu vandamáli, væntanlega tengt stjórnendum, og leiðir þessi regla til þess að þeim er refsað sem hafa samið umfram skyldu við vinnuveitanda til að efla langtímasparnað sinn. Reglan felur í sér ójafnræði milli einstaklinga hvort þeir myndi réttindi samkvæmt kjarasamningi eða ekki. Framlag launagreiðenda er almennt 8% á almennum vinnumarkaði en 11,5% hjá hinu opinbera. Til viðbótar þessu er algengt að launagreiðendur greiði 2% mótframlag gegn séreignarsparnaði launamanna.

Á opinbera vinnumarkaðnum er algengast að form launagreiðslna taki mið af kjarasamningum meðan á almenna vinnumarkaðnum er algengt að byggt sé á ráðningarsamningum sem eiga sér grunn eða beinar tilvísanir í kjarasamninga. Þó má geta þess að launamyndun hjá ýmsum hærra launuðum hópum á almennum vinnumarkaði, s.s. sjómönnum, flugmönnum og flugumferðarstjórum byggir alfarið á kjarasamningum. Hæpið er að það fái staðist almennar jafnræðisreglur að skattaleg kjör geti verið mismunandi eftir því hvort laun ráðast alfarið af kjarasamningum eða einungis að hluta til. Þá vaknar spurning um stöðu þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum kjararáðs. Í lögum um lífeyrissjóði eru iðgjöld lögbundin að lágmarki 12% og það hlýtur að vera óeðlilegt að skylda tiltekna einstaklinga til þess að þola tvísköttun vegna aðildar að lífeyrissjóðum meðan hin almenna regla er að tekjur úr lífeyrissjóðum eru einungis skattlagðar við útgreiðslu.

3. 10% eignarhlutur skilyrði frádráttarbærni arðgreiðslna milli fyrirtækja og 10% eignarhlutur skilyrði frádráttarbærni vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa.

Tillaga um að 10% eignarhlutur skilyrði frádráttarbærni arðgreiðslna milli fyrirtækja er til þess fallin að draga úr dreifðri eignaraðild að félögum, enda leiðir hún til þess að skattalega óhagkvæmt verður fyrir félög að eiga minni hlut í öðru félagi en nemur 10%. Gengur það gegn þeim sjónarmiðum sem njóta hljómgrunns, að stuðla skuli að dreifðu eignarhaldi félaga.

Varðandi ákvæði um að 10% eignarhlutur skilyrði frádráttarbærni vegna hagnaðar af sölu hlutabréfa leiðir tillagan til þess að arður verður margskattaður í þeim tilvikum að hann gengur frá einu félagi til annars á leið sinni til þeirra sem endanlega njóta arðsins. Gengur það á svig við þá grunnforsendur frádráttarheimildarinnar að raunverulegur skattur skuli alltaf vera sá sami í hendi endanlegs arðsnjótanda óháð því hvernig félagasamstæður eru upp byggðar.

Þessar breytingar rjúfa algerlega samhengið í skattlagningu atvinnurekstrar og munu draga úr vilja til fjárfestinga í atvinnurekstri. Þetta mun hafa verulega þýðingu í framtíð og gera fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri miklum mun minna fýsilegan en verið hefur.

4. Vaxtagjöld af skuldum sem færast yfir við samruna verði ekki frádráttarbær
Tilgangur reglunnar er að koma í veg fyrir takmarkaða eiginfjármögnun við yfirtöku eignarhaldsfélaga á rekstrarfélögum. Leiðin að markmiðinu er hins vegar ekki skynsamleg. Mun hún hafa áhrif umfram það sem til er ætlast og mun gera endurskipulagningu fyrirtækja erfiða. Þessi regla þekkist ekki í öðrum löndum. Nær væri að líta til þeirra leiða sem aðrar þjóðir hafa farið og lúta að reglum um þunna eiginfjármögnun ("thin capitalization").

Verði tillagan að lögum mun hún sýnilega hafa þau áhrif ein að hindra samruna við tilteknar aðstæður og það rekstrarlega hagræði sem samruni felur í sér. Tillagan mun hins vegar ekki leiða til aukinna skatttekna ríkissjóðs.

Það er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á því að í athugasemdum frumvarpsins er látið að því liggja að hér sé ekki um neina efnisbreytingu að ræða og að það hafi verið afstaða skattyfirvalda að regla þessi væri í reynd í lögum en rétt sé "að taka af öll tvímæli um að annars vegar sé hlutafélagi ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum kostnað við að kaupa félagið sjálft og hins vegar verður ekki dreginn frá skattskyldum tekjum kostnaður sem fellur til vegna ófrádráttarbærra greiðslna, eins og vaxtagjöld af lánum sem stofnað er til við úthlutun arðs." Það má út af fyrir sig vera að einhverjir starfsmenn ríkisskattstjóra séu þessar skoðunar, en það hafa engir dómar eða úrskurðir yfirskattanefndar fallið til að staðfesta þessi viðhorf. Kjarni málsins er sá að skattamálum skal skipað með lögum og engin regla af þessu tagi er í gildandi lögum. Að láta í veðri vaka að svo sé er í besta falli villandi ef ekki beinlínis rangt. Staðreyndin er sú að fjöldi fyrirtækja hefur undanfarin ár sameinast öðrum í kjölfar fyrirtækjakaupa og hefur fjármögnun oftar en ekki verið blanda af eiginfjármögnun og lánsfjármögnun. Það má segja að það geri ekkert nema að hamla gegn endurreisn íslensks atvinnulífs að setja reglur af þessu tagi og er það skoðun Samtaka atvinnulífsins að hér fari menn alranga leið að því markmiði að draga úr skuldsettum yfirtökum hér á landi.

5. Auðlegðarskattur

Í 25. gr. frumvarpsins er lögð til upptaka tímabundins skatts á eignir manna yfir ákveðnum mörkum ("auðlegðarskatt"). Lagt er til að við útreikning skattstofnsins verði vikið frá þeirri almennu reglu tekjuskattslaga að hlutabréf skuli talin fram á nafnverði. Lagt er til að raunvirði hlutabréfanna myndi skattstofn. Raunverðið skal vera markaðsvirði í þeim tilvikum að hlutabréfin eru skráð á markaði. Í öllum öðrum tilvikum, hvort heldur um stóran eða lítinn hlut er að ræða, skal raunvirði hluta í félagi nema hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins. Eigi félagið hluti í öðrum félögum þarf með sama hætti að reikna raunvirði þeirra eignarhluta, og þannig koll af kolli. Getur sú keðja orðið æði löng, t.d. getur maður átt hlut í skipafélagi, sem á hlut í flugfélagi, sem á hlut í fjárfestingarfélagi, sem á hlut í banka, sem á hlut í vátryggingafélag, o.s.frv.

Hugtakið "skattalegt bókfært eigið fé" er grundvallarhugtak í þeirri aðferðafræði sem lögð er til. Það hugtak er hins vegar fjarri því að vera skýrt enda hvergi skilgreint í lögum. Engar leiðbeiningar eru heldur að finna í frumvarpinu hvernig einstakir skattgreiðendur eigi að verða sér úti um þær upplýsingar sem þarf til að geta talið fram á þessum grundvelli.

Lögum samkvæmt skulu menn telja fram til skatts á fyrri hluta árs en félög á síðari hluta árs. Á þeim tíma þegar einstaklingar þurfa að leiða eignarskattstofn sinn fram með framangreindum hætti liggja því ekki fyrir forsendur til þess að reikna skattalegt bókfært eigið fé félaga. Þeim verður því alls ómögulegt að telja fram með þeim hætti sem lagður er til í ákvæðinu. Síðan er spurning hvernig ætlast er til að erlendar eignir séu metnar. Hvert verður skattalegt bókfært verðmæti í þeim tilfellum? Það styrkir ekki skattframkvæmd að leiða í lög ákvæði sem eru óframkvæmanleg og þar með í eðli sínu marklaus. Rétt er að vekja athygli á því að ákvæðin eiga að taka gildi nú um áramótin og leggjast á eignir í árslok 2009. Í þessu felst afturvirkni sem ástæða er til að mótmæla.

Hækkun skatta þvert á þróun á Norðurlöndum
Þá eru samtökin mótfallin upptöku þriggja þrepa tekjuskatts og segja það auka flækjustig skattkerfisins og auka hættu á svartri atvinnustarfsemi. Benda samtökin á að Danir hafi nýlega fækkað skattþrepum úr þremur í tvö þannig að þessi breyting sé þvert á þá þróun sem eigi sér stað á Norðurlöndum. Umræður eru einnig hafnar í Svíþjóð um lækkun hæstu skatthlutfalla.

Sjá nánar:

Umsögn SA, LÍÚ, SAF, SF, SART, SFF, SI um 256. mál: Frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins.

Samtök atvinnulífsins