Efnahagsmál - 

09. maí 2006

Alþjóðleg samkeppni: Ísland í fyrsta sæti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Alþjóðleg samkeppni: Ísland í fyrsta sæti

Danski Industri, dönsku samtök iðnaðarins, hafa gefið út samanburðarskýrslu þar sem 29 aðildarlönd OECD eru borin saman (ásamt Kína, Indlandi og Rússlandi þar sem hægt er) út frá 88 mælikvörðum og spurt: hversu reiðubúin eru þessi lönd fyrir hnattvæðinguna, þ.e. vaxandi alþjóðlega samkeppni?

Danski Industri, dönsku samtök iðnaðarins, hafa gefið út samanburðarskýrslu þar sem 29 aðildarlönd OECD eru borin saman (ásamt Kína, Indlandi og Rússlandi þar sem hægt er) út frá 88 mælikvörðum og spurt: hversu reiðubúin eru þessi lönd fyrir hnattvæðinguna, þ.e. vaxandi alþjóðlega samkeppni?

Jákvætt viðhorf og sveigjanleiki

Heildarniðurstaða skýrslunnar er sú að Ísland er í fyrsta sæti og er landið 21 sinni meðal þeirra þriggja efstu. Næst á eftir koma Sviss, Finnland og Bandaríkin. Ísland er einkum að skora hátt á þeim mælikvörðum sem hafa að gera með frumkvöðlaeðli og jákvætt viðhorf til alþjóðlegrar samkeppni annars vegar, og með sveigjanleika viðskiptaumhverfisins hins vegar, svo sem sveigjanleika í rekstri fyrirtækja og sveigjanleika á vinnumarkaði.

Mismunun hvergi minni en hér

Meðal þeirra mælikvarða þar sem Ísland er í fyrsta sæti má nefna sveigjanleika fyrirtækja, jákvæða afstöðu til hnattvæðingar og alþjóðlegrar samkeppni, atvinnuþátttöku almennt, atvinnuþátttöku eldra fólks, fjölda netnotenda og litla mismunum, svo sem á grundvelli kyns, litarháttar eða aldurs.

Lágt hlutfall með framhaldsmenntun

Meðal þeirra mælikvarða þar sem Ísland er neðarlega í samanburðinum má nefna lágt hlutfall fólks með framhaldsskólamenntun, en þar er Ísland í 23. sæti þar sem aðeins um 65% fólks á aldrinum 25-34 ára lokið framhaldsnámi. Ef skoðuð er háskólamenntun fyrir sama aldurshóp er Ísland hins vegar í 17. sæti. Þá má nefna að frameiðni vinnuafls mælist í lægri kantinum hérlendis og lendir Ísland þar í 18. sæti.

Sjá skýrsluna á vef DI.

Samtök atvinnulífsins