Efnahagsmál - 

25. ágúst 2011

Almenn viðhorfsbreyting nauðsynleg gegn svartri vinnu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Almenn viðhorfsbreyting nauðsynleg gegn svartri vinnu

Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri hófu þann 14. júní sl. sameiginlegt átak undir yfirskriftinni "Leggur þú þitt af mörkum?". Markmiðið er að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að skattskilum og samningum sín í milli. Athyglinni hefur einkum verið beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á sköttum og launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum séu skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.

Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri hófu  þann 14. júní sl. sameiginlegt átak undir yfirskriftinni "Leggur þú þitt af mörkum?". Markmiðið er  að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að skattskilum og samningum sín í milli.  Athyglinni hefur einkum verið beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á sköttum og launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum séu skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.

Leggur þú þitt af mörkum?Fulltrúar aðilanna þriggja hafa nú þegar heimsótt um 1.500 vinnustaði til að kanna aðstæður,  veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma ásamt því að hvetja atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Megináhersla átaksins felst í að vekja fólk til umhugsunar um neikvæðar afleiðingar hvers konar undanskota og svartrar atvinnustarfsemi fyrir þjóðfélagið í heild. Svört atvinnustarfsemi virðist vera að aukast og sterkasta vopnið til að vinna bug á henni er fræðsla og almenn viðhorfsbreyting. 

Fyrsta áfanga verkefnisins lýkur í lok ágúst og verða niðurstöður kynntar í lok september eftir að unnið hefur verið úr fyrirliggjandi gögnum. Að jafnaði hafa um 12-14 starfsmenn unnið við verkefnið og er reiknað með að fjöldi fyrirtækja sem hafa verið heimsótt verði orðin um 2.000 í lok mánaðarins. Þá hefur verið kannað starfssamband hátt í 5.000 einstaklinga hjá þessum rekstraraðilum og reiknað er með að sú tala verði komin vel á sjötta þúsundið í lok ágúst. Allir landshlutar hafa verið heimsóttir og er dreifing heimsókna í samræmi við dreifingu rekstraraðila á landsvísu.

Meðal þeirra atriða sem hafa verið skoðuð og ráðgjöf veitt um eru  tekjuskráning, virðisaukaskattsskil, skil staðgreiðslugjalda, svört vinna og réttindamál s.s. starfssamband rekstaraðila og starfsmanna.

Þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir í lok september munu ASÍ, SA og Ríkisskattstjóri draga lærdóm af verkefninu og meta framhaldið. Fram að því munu aðilar halda samstarfinu áfram með svipuðu sniði og áður.

Samtök atvinnulífsins