Vinnumarkaður - 

04. Oktober 2018

Allt rangt hjá dósentinum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Allt rangt hjá dósentinum

Ósannindi um ójöfnuð á Íslandi eru ítrekað sett fram af lærðu fólki sem standast ekki skoðun á viðeigandi gögnum. Nýlega fór Guðmundur Ævar Oddsson, dósent í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, ófögrum orðum um ástand mála. Framlag hans kom fram á undirbúningsfundi Eflingar stéttarfélags fyrir komandi kjarasamninga og fékk gífurlega fjölmiðlaumfjöllun, einkum á RÚV. Allt reyndist rangt hjá dósentinum.

Ósannindi um ójöfnuð á Íslandi eru ítrekað sett fram af lærðu fólki sem standast ekki skoðun á viðeigandi gögnum. Nýlega fór Guðmundur Ævar Oddsson, dósent í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, ófögrum orðum um ástand mála. Framlag hans kom fram á undirbúningsfundi Eflingar stéttarfélags fyrir komandi kjarasamninga og fékk gífurlega fjölmiðlaumfjöllun, einkum á RÚV. Allt reyndist rangt hjá dósentinum.

Rangfærsla 1: Ójöfnuður tekna og eigna hefur aukist undanfarin ár

Guðmundur segir: „Það sem hefur gerst eftir hrun er að þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi jafnast þá er hún aftur farinn að aukast.“. „Í viðtölum hef ég lagt út frá niðurstöðum Stefáns og Arnaldar (2017) og staðhæft að ójöfnuður í eignaskiptingunni hérlendis sé meiri nú en fyrir hrun.“

Gini-stuðull er viðurkenndur mælikvarði á ójöfnuð tekna. Stuðullinn er á bilinu 0-100 og táknar hátt gildi mikinn ójöfnuð. Hagstofa Íslands birtir stuðulinn reglulega fyrir Ísland og önnur Evrópulönd og er hann byggður á tekjum samkvæmt skattframtölum.[1] Síðustu birtu tölur Hagstofunnar eru fyrir árið 2016 og var stuðullinn 24,1. Hann var lægri en árið 2015 og langt undir meðaltali síðustu 10 ára þar á undan. Sama gildir um svokallað lágtekjuhlutfall sem Hagstofan birtir jafnframt. Þegar litið er til meðaltekna efstu tekjutíundar í samanburði við alla landsmenn fæst sama niðurstaða, þ.e. að meðallaun efstu tekjutíundarinnar hafi hækkað minna undanfarin ár en allra hinna og því hefur jöfnuður aukist.

Þá sýnir alþjóðlegur samanburður Gini-stuðla á vef Hagstofunnar að tekjuójöfnuður var minnstur á Íslandi meðal Evrópuríkja árið 2016.

 

Heimild: Hagstofa Íslands

Rangfærsla 2. Ójöfnuður í eignaskiptingunni er meiri en fyrir hrun.

Guðmundur segir: „Í viðtölum hef ég lagt út frá niðurstöðum Stefáns og Arnaldar (2017) og staðhæft að ójöfnuður í eignaskiptingunni hérlendis sé meiri nú en fyrir hrun.“ „Eignaskiptingin er mun ójafnari heldur en hún var 1997 og hún er enn ójafnari en hún var 2007.“

Á meðfylgjandi línuriti sem byggist á birtum gögnum á vef Hagstofu Íslands ásamt svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi sést að eignaójöfnuður hefur farið minnkandi ár hvert frá árinu 2010, þegar hann náði hámarki á því tímabili sem birt er. Eignaójöfnuðurinn var minni árið 2016 en hann var árið 2007 og gildir þá einu hvort litið sé til hlutdeildar eignamestu 10%, 5%, 1% eða 0,1% einstaklinganna. Rétt er hins vegar að hlutdeild þeirra eignamestu var meiri árið 2016 en var á árunum 1997-2006 sem endurspeglar að miklu leyti þróun fasteignaverðs.

Heimildir: Hagstofa Íslands, Alþingi

Rangfærsla 3: Tekjuójöfnuður á Íslandi er mjög lágur ef fjármagnstekjur er teknar út fyrir sviga

Guðmundur segir: „Þannig að tekjuójöfnuður á Íslandi, ef við horfum bara á launatekjur og tökum fjármagnstekjur út fyrir sviga, er mjög lágur í alþjóðlegum samanburði.“

Í fullyrðingunni er gefið í skyn að tekjuójöfnuður á Íslandi sé lítill þegar eingöngu er litið til launatekna en annað gildi ef fjármagnstekjur eru teknar með. Gini-stuðull ráðstöfunartekna sem Hagstofan reiknar út og birtir telur fjármagnstekjur með, að söluhagnaði undanskyldum. Söluhagnaður er hverfandi hluti tekna fólks hér á landi og það gildir einnig fyrir þá sem eru í efstu tekjutíund. Söluhagnaður hefur þannig lítil áhrif á þá niðurstöðu að ójöfnuður ráðstöfunartekna, samtölu launa- og fjármagnstekna, er hvergi minni í Evrópu en á Íslandi.

Heimild: Eurostat.

Rangfærsla 4: Eignaskipting á Íslandi er mjög ójöfn í alþjóðlegum samanburði.

Guðmundur fullyrðir: „Það segir ekki alla söguna því eignaskipting á Íslandi er mjög ójöfn. Og mjög ójöfn í alþjóðlegum samanburði.“ „... þegar við horfum á hreina eign þá á ríkasta 10% á Íslandi um 70%..“ „Slíkar tölur setja okkur í flokk með löndum eins og Bandaríkjunum og Sviss þannig að Ísland er ekki jafnaðarsamfélag þegar kemur að eignaskiptingu.“

Engin þessara fullyrðinga stenst skoðun á fyrirliggjandi gögnum og staðreyndum. Inn í mælingu á eignajöfnuði heilla þjóða spila þættir eins og aldurssamsetning, menntunarstig og fleiri breytur. Ungar þjóðir með marga háskólanema geta til dæmis búið við mikinn eignaójöfnuð þótt framtíð þeirra sé bjartari en eldri þjóðar með lágt menntunarstig. Þess má svo einnig geta að gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð).

Annmarkar á mælikvörðum á eignadreifingu valda því að alþjóðlegar stofnanir á borð við OECD og AGS birta almennt ekki tölur um eignaójöfnuð. Það gera þó nokkrir einkaaðilar og er Credit Suisse bankinn þar fremstur í flokki. Bankinn gefur árlega út skýrsluna Global Wealth Databook og gildir sú nýjasta fyrir árið 2017. Gæði gagnanna sem þar birtast eru þó ekki eins og best væri á kosið.

Gögn um eignadreifingu geta almennt tekið miklum breytingum yfir tíma, jafnvel stutt tímabil. Þar skipta máli þættir eins og  staða efnahagslífsins í hagsveiflunni. Guðmundur vísar í gamla útgáfu af skýrslu Credit Suisse og notast við gögn fyrir árið 2013 fyrir Ísland. Á þeim tíma var eigið fé í húsnæði enn ekki búið að jafna sig eftir hrunið.

Í nýjustu tölum Credit Suisse um eignaójöfnuð þjóða, fyrir árið 2017, er hlutdeild efstu tíundar af hreinum heildareignum á Íslandi nálægt meðaltali þeirra landa sem eru í skýrslunni og sú lægsta á Norðurlöndunum. Í 32 löndum af 40 er hlutur þeirra 5% ríkustu af hreinum eignum hærri en hér á landi og í 37 löndum ef miðað er við hlut þeirra 1% ríkustu.

Heimildir: Credit Suisse, Hagstofa Íslands og Alþingi

Gini-stuðull eignadreifingar er annar mælikvarði á eignaójöfnuð sem birtur er í skýrslu Credit Suisse bankans fyrir 171 land. Samkvæmt henni eru 164 lönd með meiri eignaójöfnuð en Ísland og aðeins 7 með minni eignaójöfnuð. Eignaójöfnuður á Íslandi er sá þriðji minnsti meðal ríkja OECD samkvæmt skýrslunni. Öll Norðurlöndin eru með mun hærri Gini-stuðla en Ísland, þ.e. mun meiri eignaójöfnuð samkvæmt þessari skýrslu.

Heimild: Credit Suisse

Falsfréttir
Opinber gögn sýna að tekjuójöfnuður á Íslandi er minni en í öllum ríkjum OECD. Úr tekjuójöfnuði hefur dregið verulega á undanförnum áratug en hann hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Þá er eignaójöfnuður minnstur á Íslandi af öllum Norðurlöndum skv. skýrslu Credit Suisse og úr honum hefur dregið undanfarin ár. Það er ömurlegt að fræðimenn fari með staðlausa stafi eða álykti út frá gömlum og úreltum upplýsingum, s.s. finna má í bók Stefáns Ólafssonar, starfsmanns Eflingar. Það hvílir mikil ábyrgð á fræðasamfélaginu um að viðhafa vönduð vinnubrögð og sjá til þess að almenningur fái réttar upplýsingar. Undir þeirri ábyrgð rís ekki Guðmundur Ævar Oddson.

[1] https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/laun-og-tekjur/tekjur/

Samtök atvinnulífsins