Vinnumarkaður - 

30. Nóvember 2004

Allt að 1.800 ný atvinnuleyfi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Allt að 1.800 ný atvinnuleyfi

Á næstu þremur árum mun þurfa að gefa út á bilinu 1.300 til 1.800 atvinnuleyfi vegna fyrirhugaðra stóriðju- og virkjanaframkvæmda, að öllum líkindum frekar þó í hærri kantinum. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Vinnumála-stofnunar um mannaflaþörf við stóriðju- og virkjana-framkvæmdir á árunum 2005 til 2007.

Á næstu þremur árum mun þurfa að gefa út á bilinu 1.300 til 1.800 atvinnuleyfi vegna fyrirhugaðra stóriðju- og virkjanaframkvæmda, að öllum líkindum frekar þó í hærri kantinum. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Vinnumála-stofnunar um mannaflaþörf við stóriðju- og virkjana-framkvæmdir á árunum 2005 til 2007.

Erfitt að manna störfin innanlands

Fram kemur í skýrslunni að ljóst virðist að mjög erfiðlega mun ganga að manna laus störf meðal iðnaðarmanna næstu misserin, aðallega smiða og reyndra byggingaverkamanna. Í viðtölum við nokkra byggingarverktaka kemur í ljós að þeir munu leita út fyrir landssteinanna við ráðningar. Hörð samkeppni verður um þá iðnaðarmenn sem eru enn á lausu. Að mati Vinnumálastofnunar er þörf fyrir um 1100 manns til ársloka 2005 í byggingariðnaði við stóriðju- og virkjanaframkvæmdir og einhverri eftirspurn að auki við almennar byggingarframkvæmdir. Í rauninni má þó búast við mun fleiri ráðningum að mati stofnunarinnar, þar sem margir útlendingar sem nú starfa t.d. við Kárahnjúka fara varla nema í litlum mæli að vinna við önnur verkefni s.s. bygginu álvers Bechtel við Reyðarfjörð.

Í ljósi þess að verulegur skortur er á bílstjórum, vélamönnum og hvers kyns iðnaðarmönnum innanlands telur stofnunin ólíklegt annað en að stærstur hluti þeirra verði ráðinn erlendis frá. Hvað verkafólk varðar gerir stofnunin ráð fyrir að rúm 35% fáist innanlands af þeim ríflega 600 verkamönnum sem þörf verður fyrir að ráða næstu þrjú árin til þessara verkefna.

Aðra verkamenn, og flesta bílstjóra, vélamenn og iðnaðarmenn verður að sækja til útlanda og er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir allt að 1.800 manns á næstu þremur árum, að stærstum hluta á næsta ári. Ekki eru taldar líkur á að margir verðir ráðnir af Evrópska efnahags­svæðinu, en ef miðað er við 10% þýðir það um 180 störf alls, þar af um 130 á næsta ári. Fram kemur í skýrslunni að lögð verður áhersla á að hin nýju ríki Evrópusambandsins verði í forgangi þegar kemur að veitingu atvinnuleyfa vegna ráðningar vinnuafls utan hins gamla EES. 

1.300 til 1.800 ný atvinnuleyfi

Niðurstaða skýrslunnar er því sem fyrr segir sú að á næstu 3 árum þurfi að gefa út á bilinu 1.300 til 1.800 atvinnuleyfi vegna þeirra stóriðju- og virkjanaframkvæmda sem fjallað hefur verið um í þessari skýrslu, að öllum líkindum frekar þó í hærri kantinum.

Sjá skýrsluna á vef Vinnumálastofnunar.

Samtök atvinnulífsins