„Allir þurfa að standa saman"

"Þetta er eitthvað sem við höfum ekki þurft að horfast í augu við," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um stöðu ríkisfjármála í samtali við mbl.is. Fulltrúar SA og ASÍ funduðu í gær um stöðu efnahagsmála í Karphúsinu og einnig var fundað í fjármálaráðuneytinu. "Til þess að ná þessu þá þurfa allir að standa saman. Allir sem hafa einhvern snefil af ábyrgð í samfélaginu," segir Vilhjálmur um áform stjórnvalda um 150 milljarða niðurskurð á næstu þremur árum.

Í frétt mbl.is sunnudaginn 7. júní segir ennfremur:

Aðspurður segir Vilhjálmur að menn séu að reyna sitt besta. "Menn eru að reyna að átta sig á því hvað þetta er mikið verkefni. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu frumkvæði og forystu í þessu öllu saman. Enda er það hún sem ber ábyrgðina."

Vilhjálmur segir að heildarmyndin sé smátt og smátt að skýrast. Hvað menn geti gert á þessu ári og þau næstu. Frekari fundarhöld eru fyrirhuguð á morgun. 

Hann segir viðræðurnar skiptast í tvennt, þ.e. umfjöllun um efnahags- og atvinnumálin annars vegar og ríkisfjármálin hins vegar. 

Stjórnvöld hyggjast greina frá því á þinginu á föstudag hvað eigi að gera á þessu ári. Svo hyggst ríkisstjórnin greina frá því 20. júní nk. hvernig staðan líti út fyrir næstu tvö ár á eftir. Þá muni liggja fyrir hvað skattar verði hækkaðir mikið og hvar verði skorið niður í ríkisútgjöldum. 

"Þetta eru svo svakalegar tölur að það er ekki hægt að gera það nema að það komi allsstaðar niður," segir Vilhjálmur og bætir við að myndin sé að skýrast dag frá degi.