Allir bera ábyrgð á stöðugleikanum

Á tæpu ári hefur verðbólgan hjaðnað hratt og er nú aðeins 1,8% á ársgrunni. Undanfarna átta mánuði hefur hún verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er lengsta samfellda tímabil verðstöðugleika frá árinu 2003. Þessi hraða hjöðnun verðbólgu ber árangri síðustu kjarasamninga glöggt vitni. Þar lögðu aðilar vinnumarkaðar upp með að hóflegar launahækkanir myndu stuðla að lægri verðbólgu og meiri kaupmáttaraukningu en ella. Minna gæti orðið meira.

Þetta hefur gengið eftir. Kaupmáttur launa í september er 4% hærri en fyrir ári. Á árinu má ætla að kaupmáttur launa vaxi um 3,5% sem er einsdæmi á síðustu fimmtán árum að undanskyldu ofþensluárinu 2007. Þessi aukning er langt umfram aukningu framleiðni í atvinnulífinu og því er varanleiki þessa árangurs í nokkurri óvissu. Svo hröð og mikil aukning kaupmáttar verður ekki varin nema vel sé haldið á spilum í efnahagsstjórn og við gerð kjarasamninga á komandi mánuðum.

Þrátt fyrir góðan árangur er staðan á vinnumarkaði tvísýn. Að óbreyttu gæti stefnt í víðtækari verkföll á almennum vinnumarkaði en um áratugaskeið. Ástæðurnar má rekja til kjarasamninga opinberra starfsmanna, samskiptaleysis stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar og ósamstöðu um áherslur í efnahagsmálum. Í hnotskurn er verkalýðshreyfingin á almennum vinnumarkaði að undirbúa harðar aðgerðir vegna trúnaðarbrests við ríkisstjórnina.

Samtök atvinnulífsins hafa tekið undir gagnrýni á ófullnægjandi samráð ríkisstjórnarinnar um mikilvæg mál sem að vinnumarkaðnum snúa. Að sama skapi er reiði innan verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði skiljanleg vegna mikilla launahækkana á opinberum vinnumarkaði. Ábyrgð á verðstöðugleika verður aldrei borin af almennum vinnumarkaði einum. Þar verða stéttarfélög opinberra starfsmanna einnig að axla ábyrgð. Forysta verkalýðshreyfingarinnar verður einnig að gæta þess að efna ekki til ófriðar á vinnumarkaði og kollvarpa þeim góða árangri sem þegar hefur náðst. Sagan kennir að það er mun auðveldara að kveikja verðbólgubálið en að ráða niðurlögum þess.

Raunvaxtastig orðið of hátt

Seðlabankinn hefur stuðlað að hækkandi raunvöxtum á liðnum misserum sem eru orðnir 3-4 % hærri en í viðskiptalöndunum. Samhliða góðum árangri í baráttu við verðbólguna hefur tónn Seðlabankans mildast. Full ástæða er til að lækka vexti þegar verðbólgan hefur hjaðnað svo mikið sem raun ber vitni. En Seðlabankinn hefur áhyggjur af vexti einkaneyslu og meðfylgjandi aukningu innflutnings og óttast spennu og óróa á vinnumarkaði á næstunni. Líkur á því að Seðlabankinn lækki stýrivexti hafa því minnkað og í dag, 1. október, gaf peningastefnunefnd bankans það til kynna að vaxtahækkanir gætu verið framundan.

Raunvaxtamunur gagnvart viðskiptalöndunum er allt of mikill og fær ekki staðist til lengri tíma. Munurinn grefur undan samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og heldur aftur af fjárfestingu atvinnuveganna. Lítill hagvöxtur á fyrri hluta ársins, sem fyrst og fremst má rekja til lítillar atvinnuvegafjárfestingar og stóraukins innflutnings samhliða aukinni einkaneyslu ber þessu glöggt vitni. Hátt raunvaxtastig sligar líka heimilin. Þrátt fyrir að kaupmáttur launa hafi aukist verulega á síðasta ári jókst vaxtakostnaður heimilanna enn meira og olli því að ráðstöfunartekjur drógust saman um 0,7% að raungildi. Verðbólga var liðlega 4% að jafnaði á síðasta ári og á drjúgan þátt í þungri vaxtabyrði heimilanna.

Þörf á samstöðu um betri vinnubrögð

Mikilvægt er að ráðast í endurskoðun peningastefnunnar. Verðbólgumarkmið er hornsteinn peningastefnu Seðlabankans en bankinn hefur einnig undanfarið ár horft til stöðugs gengis krónunnar. Gengisstyrking undanfarinna 18 mánaða er án innistæðu, grefur undan afkomu útflutningsgreina og um leið forsendum fyrir afnámi fjármagnshafta. Traustur og stöðugur viðskiptaafgangur er mikilvægasta forsenda afnáms haftanna. Sá afgangur hverfur nú óðum samhliða styrkingu raungengis og meiri innflutningi. Þessi þróun er gamalkunn og hefur ávallt leitt til sömu niðurstöðu, þ.e. að vaxandi ójafnvægi í efnahagslífinu endar með gengislækkun og samsvarandi lífskjaraskerðingu. Því er afar mikilvægt að Seðlabankinn falli ekki í þá freistni að niðurgreiða verðbólgu til skamms tíma með of mikilli styrkingu gengis krónunnar.

Þó gagnrýna megi Seðlabankann fyrir of hátt raunvaxtastig er honum vorkunn. Enn er of mikil óvissa um verðbólgu á komandi misserum. Ný peningastefnu hefur ekki verið mótuð, líkt og stefnt var að. Launahækkanir á vinnumarkaði eru meiri en ráð var fyrir gert og samrýmast ekki verðstöðugleika til lengri tíma. Síðast en ekki síst er ekki samstaða milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda um efnahagsstefnuna.

Aðilar vinnumarkaðar hafa við gerð kjarasamninga viljað stuðla að hagstæðu og stöðugu raungengi og verja samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Fyrirmynd hefur verið sótt til Svía sem hafa lagt áherslu á þessa þætti undanfarna áratugi með góðum árangri.

Stjórnvöld hafa hins vegar lagt áherslu á víðtæka niðurgreiðslu skulda heimila og ráðstöfun séreignarsparnaðar til lækkunar húsnæðisskulda, sem eykur kaupmátt ráðstöfunartekna og veldur aukinni einkaneyslu. Aukin einkaneysla er ánægjuleg ef hún á sér efnahagslegar forsendur en vöxtur útflutningstekna er forsenda sjálfbærrar aukningar hennar. Stjórnvöld hafa ekki litið til þessa samhengis í aðgerðum sínum.

Betri lífskjör hér á landi verða að byggjast á sterkri stöðu útflutningsgreina. Ella leiða þau til vaxandi viðskiptahalla sem endar með gengisfalli, vaxandi verðbólgu og lífskjaraskerðingu í kjölfarið. Í þetta sinn kann þessi gamalkunnuga hringekja að reynast óvenju hröð vegna þess hversu lítið svigrúm þjóðarbúið hefur til að takast á við viðskiptahalla og aukna skuldsetningu. Vonir um áframhaldandi hagvaxtarskeið á komandi árum geta brostið á skömmum tíma, verði ekki gripið í taumana.

Forsenda þess að gerðir verði kjarasamningar á grundvelli verðstöðugleika er að traust ríki á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Það traust er ekki fyrir hendi og því stefnir í óefni á vinnumarkaði í vetur. Sameiginleg sýn á meginlínur efnahagsstefnunnar er nauðsynleg forsenda slíks trausts. Það verður að vera forgangsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar að stilla betur saman strengi. Við verðum að taka höndum saman og koma í veg fyrir hörð átök á vinnumarkaði.

Það verður að vera sameiginlegt markmið okkar allra að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur á undanförnum misserum. Áframhaldandi uppbygging kaupmáttar á grundvelli verðstöðugleika er besta leiðin til að bæta lífskjör hér á landi. Þar verða allir að axla ábyrgð.