Efnahagsmál - 

29. Desember 2010

Algjört úrslitaatriði að koma fjárfestingum í gang

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Algjört úrslitaatriði að koma fjárfestingum í gang

Mikilvægasta verkefnið um þessar mundir er að koma fjárfestingum í atvinnulífinu í gang - það er raunar algjört úrslitaatriði. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en rætt var við hann í morgunþætti Bylgjunnar um stöðuna í atvinnulífinu, takmarkaða bjartsýni stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins og hvort viðsnúningur í efnahagsmálunum sé á næsta leiti. Vilhjálmur segir fjárfestingarnar í raun svo litlar að mikil hætta sé á að þjóðin dragist verulega aftur úr í lífskjörum og samkeppnishæfni.

Mikilvægasta verkefnið um þessar mundir er að koma fjárfestingum í atvinnulífinu í gang - það er raunar algjört úrslitaatriði. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en rætt var við hann í morgunþætti Bylgjunnar um stöðuna í atvinnulífinu, takmarkaða bjartsýni stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins og hvort viðsnúningur í efnahagsmálunum sé á næsta leiti. Vilhjálmur segir fjárfestingarnar í raun svo litlar að mikil hætta sé á að þjóðin dragist verulega aftur úr í lífskjörum og samkeppnishæfni.

Leiðin út úr kreppunni
Að mati Samtaka atvinnulífsins felst leiðin út úr kreppunni í að fjárfesta í arðbærum atvinnugreinum og fyrirtækjum sem framleiða  verðmætar og eftirsóttar vörur á erlendum mörkuðum. Vilhjálmur segir að skapa þurfi störf til lengri tíma sem skili þjóðarbúinu raunverulegum verðmætum - ekki megi fara þá leið á ný að framkalla á Íslandi hagvöxt sem byggi eingöngu á neyslu. Skapa þurfi það umhverfi og ástand að stjórnendur og eigendur fyrirtækja í öllum atvinnugreinum öðlist trú á framtíðina og hefji fjárfestingar á ný.

Margt þarf að laga
En hvað þarf til að koma atvinnulífinu af stað? Vilhjálmur segir fjölmörg atriði koma í veg fyrir fjárfestingar í dag og þau verði að laga. Ástand á fjármagnsmörkuðum sé t.d. erfitt og fjármagnskostnaður hár, lítil eftirspurn sé eftir vörum og þjónustu, breytingar á skattkerfinu hafi verið skaðlegar og gjaldeyrishöftin séu til trafala. Samtök atvinnulífsins séu í raun með langan lista yfir þau verkefni sem þurfi að ráðast í til að koma fjárfestingunum af stað aftur.

Vilhjálmur nefnir sem dæmi að vegna þeirrar óvissu sem stjórnvöld hafi skapað um framtíðarrekstrarumhverfi sjávarútvegsins hafi fjárfestingar í greininni legið niðri síðustu tvö árin. Raunveruleg hætta sé á að flotinn verði ekki endurnýjaður með eðlilegum hætti ef ekki verður brugðist við og málin leyst í sátt við greinina. Þá þurfi að koma stóru fjárfestingunum í gang s.s. álveri í Helguvík og verkefnum sem því tengjast, endurskipuleggja fjármagnsmarkaðinn og lagfæra mistök sem hafi verið gerð í skattkerfinu ásamt því að afnema gjaldeyrishöftin.

Varðandi möguleg sóknarfæri framundan í atvinnulífinu nefnir Vilhjálmur að ráðast þurfi í átak til að fjölga ferðamönnum á Íslandi allt árið um kring og einnig þurfi að fjárfesta í menntun fólks svo það geti tekist á við fjölda framtíðarstarfa sem krefjast nýrrar þekkingar og hæfni.

Kjarasamningar til þriggja ára lykilatriði

Kjarasamningar eru lausir bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum og nú standa yfir viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja samninga. Vilhjálmur segir SA leggja áherslu á að samið verði til þriggja ára. Það skapi ákveðinn fyrirsjáanleika á vinnumarkaði  og vinnufrið og sé eitt af lykilatriðunum til þess að koma fjárfestingunum af stað. Stjórnvöld þurfi að koma að gerð kjarasamninganna en ef það takist að gera samninga til þriggja ára séu það skýr merki um að hér sé að komast á ákveðið stöðugleikatímabil.

Rætt var við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í Bítinu morgunþætti Bylgjunnar þriðjudaginn 28. desember 2010 og má hlusta á viðtalið við hann hér að neðan.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA

Tengt efni:

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Aðstæður enn slæmar

Samtök atvinnulífsins