Efnahagsmál - 

13. október 2009

Ákvörðun umhverfisráðherra verði afturkölluð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ákvörðun umhverfisráðherra verði afturkölluð

Hart hefur verið deilt á umhverfisráðherra fyrir ákvörðun um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur. Efast hefur verið um lögmæti og réttmæti ákvörðunar ráðherrans en á vef Samtaka iðnaðarins er fjallað um málið. Þar segir m.a. að svo miklir annmarkar séu á úrskurðinum að allar líkur bendi til þess að hann sé ólögmætur. "Það væri því rétt af ráðherra að afturkalla ákvörðun sína án frekari málalenginga," segir á vef SI.

Hart hefur verið deilt á umhverfisráðherra fyrir ákvörðun um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur. Efast hefur verið um lögmæti og réttmæti ákvörðunar ráðherrans en á vef Samtaka iðnaðarins er fjallað um málið. Þar segir m.a. að svo miklir annmarkar séu á úrskurðinum að allar líkur bendi til þess að hann sé ólögmætur. "Það væri því rétt af ráðherra að afturkalla ákvörðun sína án frekari málalenginga," segir á vef SI.

Fjallað er ítarlega um málið á vef samtakanna, feril þess, formsatriði, kærur og stjórnsýslu. Þar segir m.a. "Hér hefur verið bent á brot á lögum og afar vonda stjórnsýslu af hendi ráðherra sem að öðru jöfnu ætti að vera til fyrirmyndar í umgengni sinni um lög um umhverfismat. Auk þessa má benda á að úrskurðurinn er kveðinn upp án þess að öllum þeim sem málið varðar verulega og hefur íþyngjandi áhrif á, s.s. Norðurál, er ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna."

Þá segir í umfjöllun Samtaka iðnaðarins að alvarlegt sé að ekki virðist hægt að reikna með samfellu og staðfestu í orðum og athöfnum stjórnvalda, stofnana og ráðherra:

"Í þessu sambandi er rétt að benda á að þegar árið 2006 fjallaði Skipulagsstofnun ítarlega um sameiginlegt umhverfismat vegna framkvæmda í Helguvík. Niðurstaðan varð sú að nýta ekki heimild til sameiginlegs mats vegna álversins. Þegar mat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík lá fyrir árið 2007 var niðurstaðan kærð og sameiginlegs mats krafist. Niðurstaða þáverandi umhverfisráðherra varð sú í apríl 2008 að ekki væru forsendur til sameiginlegs mats. Nú bregður hins vegar svo við í tengslum við línulagnir að Helguvík að ráðherra leggur lykkju á leið sína til þess að láta enn einu sinni reyna á sameiginlegt umhverfismat.

Þetta getur ekki gengið svona. Atvinnulífið verður að geta treyst á þær stofnanir sem að lögum fara með tiltekin verkefni. Það verður sömuleiðis að vera hægt að treysta því að þeir ráðherrar sem fara með málefni þeirra og úrskurða jafnvel um ákvarðanir sem þær taka virði lög og reglur, gæti sanngirni og meðalhófs í ákvörðunum sínum og láti alls ekki pólitískar skoðanir og markmið sín glepja sér sýn við meðferð þess valds sem þeim er falið að lögum."

Sjá umfjöllunina í heild á vef SI

Samtök atvinnulífsins