Ákvörðun um byggingu koltrefjaverksmiðju innan seilingar

Það skýrist snemma á næsta ári hvort ráðist verður í byggingu koltrefjaverksmiðju í Skagafirði en undirbúningsathugun vegna byggingu verksmiðjunnar lýkur á næstu mánuðum. Verði verkefnið að veruleika skilar það Skagfirðingum um 5 milljarða króna fjárfestingu og allt að 120 nýjum störfum. Ætlunin er að í verksmiðjunni verði framleiddur koltrefjaþráður sem nýtist til iðnframleiðslu en gríðarleg aukning er áætluð í notkun koltrefja á næstu árum eða um 15 - 20% á ári. Með notkun á koltrefjum í vöruframleiðslu sparast orka og vörurnar verða umhverfisvænni. Koltrefjar eru m.a. notaðar í felgur á bíla, í báta, skip og farþegaflugvélar.

Undirbúningur gengur vel

Í apríl síðastliðnum var stofnað undirbúningsfélag um byggingu verksmiðjunnar  en hluthafar í því eru KS, Gasfélagið og Sveitarfélagið Skagafjörður. Staða verkefnisins var kynnt á Hugmyndaþingi SA þann 5. september og kom þar fram að undirbúningur standi yfir vegna leyfisumsóknar og framundan séu fundir með markaðsaðilum og tækjaframleiðendum. Stefnt sé að ákvörðun um framhaldið snemma á árinu 2009 en áralangur undirbúningur liggur að baki verkefninu.

Mikilvæg stoð

Áætlanir gera ráð fyrir 1500 -1800 tonna verksmiðju sem nýti um 10 MW af raforku en ekki þarf að virkja sérstaklega til að sækja þá orku. Reiknað er að um 50 ný störf skapist við verksmiðjuna en með afleiddum störfum verði til allt að 120 ný störf sem jafngildir um 5% aukningu á vinnumarkaði svæðisins. Markmiðið með byggingu verksmiðjunnar er að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf á svæðinu og auka fjölbreytni nýtingar á orkuauðlindum landsins. Verk- og tækniþekking sem er til staðar í landinu nýtist vel í fyrirhugaðri verksmiðju.