Áhyggjur af atvinnuhorfum

Alþýðusamband Íslands hefur birt skýrslu þar sem fram kemur að atvinnuleysi hefur aukist mikið á undanförnum mánuðum. Í skýrslunni eru sagðar sterkar vísbendingar um að atvinnuleysið muni halda áfram að aukast á næstu vikum og mánuðum. Alþýðusambandið fer fram á frekari vaxtalækkun og að stjórnvöld leggi hið fyrsta fram áætlun um aðgerðir sem þau hyggjast grípa til, til að örva hagkerfið.

Á enn eftir að draga úr umsvifum
Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins tekur Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, undir áhyggjur forseta Alþýðusambands Íslands af versnandi atvinnuhorfum. Hann minnir á að SA hafi allt þetta ár haldið því fram að samdráttur gæti orðið meiri en menn hafi viljað sjá. Áfram sé mikil pressa á fyrirtækjum að hagræða enda kostnaður mjög hár, m.a. launakostnaður. Ari segir efnahagslífið enn ekki búið að aðlaga sig að minni útgjöldum frá þeim tíma þegar viðskiptahallinn nam um 10%, enn eigi því eftir að draga úr umsvifum.


Almennar aðgerðir
Ari segist ekki átta sig á hvað Alþýðusambandsmenn eigi við þegar þeir tala um að stjórnvöld og sveitarfélög þurfi að leggja fram áætlun um aðgerðir til að örva hagkerfið og mæta þessu ástandi. SA aðhyllist fremur almennar aðgerðir, eins og vaxtalækkun og þær skattkerfis-breytingar sem farið hafi verið í. Þær séu jákvæðar fyrir efnahagslífið og muni ýta undir fjárfestingar og aukin umsvif. Loks segir Ari frekari vaxtalækkun vera íhugunarefni.