Efnahagsmál - 

12. Ágúst 2003

Áhugi að vakna á endurskoðun samkeppnislaga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áhugi að vakna á endurskoðun samkeppnislaga

Í samtali við DV segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, það sérkennilegt að þurfa aftur og aftur að leiðrétta afflutning forstöðumanns Samkeppnisstofnunar á málflutningi og tillögugerð SA um breytingar á samkeppnislögunum. Ummæli Georgs Ólafssonar í DV á laugardag séu bara endurtekning á útúrsnúningum sem hafi verið leiðréttur áður.

Í samtali við DV segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, það sérkennilegt að þurfa aftur og aftur að leiðrétta afflutning forstöðumanns Samkeppnisstofnunar á málflutningi og tillögugerð SA um breytingar á samkeppnislögunum. Ummæli Georgs Ólafssonar í DV á laugardag séu bara endurtekning á útúrsnúningum sem hafi verið leiðréttur áður.

"Dylgjur forstjóra Samkeppnisstofnunar um að það hafi áhrif á málflutning samtakanna að hverjum rannsókn beinist eru ekki svara verðar. Það er alveg ljóst að SA hafa ekki aðra hagsmuni af þessum málum en að íslenskt atvinnulíf búi við heilbrigðar leikreglur og hægt sé að treysta málsmeðferð og niðurstöðum hins opinbera."

Vísar Ari til orða Georgs Ólafssonar í viðtali í síðasta Helgarblaði DV, þar sem Georg sagði m.a.: "Eftir að rannsókn okkar á olíufélögunum hófst gerðu sum hagsmunasamtök fyrirtækja harða hríð að okkur. Samtök atvinnulífsins settu fram tillögur til að veikja samkeppnislögin."

Ari segir í samtali við DV að stór hópur manna hafi lagt mikla vinnu í skýrslu SA þar sem eru í tíu liðum settar fram tillögur til breytinga á samkeppnislögunum. Þær tillögur hafi alls ekki verið hugsaðar til að veikja samkeppnislögin.

Ekki lesið skýrsluna
"Það er engu líkara en að Georg Ólafsson hafi ekki lesið skýrsluna. Það er alveg ljóst að í öllum umræðum um samkeppnismál hafa SA lagt áherslu á að virk samkeppni sé brýnt hagsmunamál fyrir atvinnulífið. Sjónarmið samtakanna hefur verið að hér eigi að gilda sambærileg samkeppnisskilyrði og leikreglur eins og annars staðar. Við höfum lagt á það höfuðáherslu að tilgangur samkeppniseftirlits sé að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu og sjá til þess að opinber afskipti trufli ekki samkeppnisstöðu. Það á ekki að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla gegn hagræðingu. Við teljum því miður vera dæmi um það að Samkeppnisstofnun hafi staði í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu á markaðnum og þannig valdið íslenskum neytendum miklu tjóni."

Einfaldara kerfi
Ari segir að í tillögum SA sé m.a. gert ráð fyrir að Samkeppnisstofnun taki við hlutverki Samkeppnisráðs. Þannig verði skipulag þessara mála einfaldað og tekin upp tvö stig eins og í dómskerfinu. Hann segir kerfið í dag of þunglamalegt og flókið og því þurfi að breyta. Þessum tillögum sé ætlað að auka réttaröryggi og efla traust atvinnulífsins og neytenda á þessu ferli sem Samkeppnisstofnun framkvæmir. Þá nefnir Ari einnig að í tillögum SA hafi verið ábending um að fara þyrfti yfir samspil refisheimilda og stjórnvaldssekta sem væri óljóst í núgildandi lögum.

"Mér finnst að þessum þætti mætti gefa meiri gaum og þar með samspili samkeppnisyfirvalda og almennra refsivörsluaðila í þjóðfélaginu. Í okkar tillögum er líka að finna fjölmörg atriði sem eru til þess fallin að auka skilvirkni og gefa Samkeppnisstofnun betra færi á að fást við þau mál sem mestu máli skipta. Það varðar m.a. ólöglegt samráð sem hefur verið yfirgnæfandi áherslupunktur í okkar málflutningi."

Í skötulíki
Ari segir að SA telji að sú endurskoðun sem fram fór síðast á samkeppnislögunum hafi verið í skötulíki og menn séu m.a. að súpa seyðið af því nú. Þá sé bagalegt hvað öllum ábendingum um úrbætur hefur verið illa tekið. "Sem betur fer virðist þó vera að vakna áhugi á endurskoðun laganna eins og Georg viðurkennir raunar sjálfur í viðtalinu - og það er fagnaðarefni."

Samtök atvinnulífsins