Efnahagsmál - 

27. janúar 2006

Áhugaverðar og líflegar pallborðsumræður á Orkulindinni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áhugaverðar og líflegar pallborðsumræður á Orkulindinni

Landvernd hefur áhyggjur af miklum áformum um virkjana- og álversframkvæmdir, störf í áliðnaði eru góð störf, trygg og vel launuð, dæmi er um að íslensk orkufyrirtæki hafi haft umhverfisstefnu frá árinu 1920, álver eru hátæknifyrirtæki en pakka ekki niður og flytja úr landi, verðmæti Bláa lónsins er vart minna en ósnerts hrauns, vel launuð störf eru forsenda velferðarkerfis og það eru engin ófaglærð störf í álverum. Þetta er meðal þess sem fram kom í pallborðsumræðum á Orkulindinni Ísland, fjölsóttri ráðstefnu um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi. Þátttakendur í pallborðinu voru Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar; Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Umræðunum stýrði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Landvernd hefur áhyggjur af miklum áformum um virkjana- og álversframkvæmdir, störf í áliðnaði eru góð störf, trygg og vel launuð, dæmi er um að íslensk orkufyrirtæki hafi haft umhverfisstefnu frá árinu 1920, álver eru hátæknifyrirtæki en pakka ekki niður og flytja úr landi, verðmæti Bláa lónsins er vart minna en ósnerts hrauns, vel launuð störf eru forsenda velferðarkerfis og það eru engin ófaglærð störf í álverum. Þetta er meðal þess sem fram kom í pallborðsumræðum á Orkulindinni Ísland, fjölsóttri ráðstefnu um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi. Þátttakendur í pallborðinu voru Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar; Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Umræðunum stýrði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Lýsti áhyggjum af fyrirhuguðum framkvæmdum

Ari Edwald bað pallborðsþátttakendur hvort eitthvað sérstakt hefði vakið athygli þeirra í þeim fjölmörgu erindum sem flutt höfðu verið á ráðstefnunni. Björgólfur Thorsteinsson vildi taka fram í upphafi að hann hefði áhyggjur af miklum áformum hérlendis um uppbyggingu stóriðju. Hann sagðist ekki vera á móti stóriðju, né virkjunum né álverum en hann sagðist vera á móti eyðileggingu á náttúruverðmætum. Hann sagði Landvernd leggja áherslu á hugmyndafræði sjálbærrar þróunar en skv. henni ætti að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið. Björgólfur sagði meirihluta álframleiðslunnar í heiminum fara fram í krafti vatnsorku og því ekki sjálfgefið að álframleiðsla erlendis yrði knúin með kolum sem skila margföldum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Góð störf í áliðnaði

Friðrik Sophusson benti hins vegar á að flest nýjustu álverin í heiminum væru knúin orku frá kolum, ekki vatnsafli. Hann taldi þrennt mest athyglisvert af því sem fram hefði komið á ráðstefnunni: það mat Þórðar Friðjónssonar að það væri meiri áhætta að halda ekki áfram uppbyggingu virkjana og álvera; þær upplýsingar sem fram komu hjá Gylfa Arnbjörnssyni um að störf í álverum séu góð störf og að blákaldar staðreyndir lægju að baki því mati, ólíkt því sem oft mætti ætla af umræðunni; og loks sú jákvæða afstaða til virkjana, álvera og samspils þeirra við umhverfisvernd sem fram kom í könnun Gallup sem kynnt var á ráðstefnunni. Sagði hann þó ljóst af þeirri könnun að áliðnaðurinn ætti við ákveðinn vanda að etja, kvenmannsleysi, þar sem konur virtust mun neikvæðari en karlar til starfseminnar.

Umhverfisstefna frá 1920

Fulltrúar ál- og orkufyrirtækjanna lýstu allir ánægju með niðurstöðu Gallup-könnunarinnar og með erindi Gylfa um góð störf í áliðnaði. Guðmundur Þóroddsson fjallaði einnig sérstaklega um erindi Smára Geirssonar og Guðmundar Páls Jónssonar um staðbundin áhrif, bjartsýni, framkvæmdahug, afleidd störf o.s.frv. Einnig lýsti hann mikilli ánægju með þessar upplýsingar um mikilvægi orkuiðnaðarins fyrir lífskjör Íslendinga og minntist loks á niðurstöðu annarrar Gallup-könnunar sem unnin var á Austurlandi að beiðni Alcoa, en þar kom fram að 85% kvenna á Austurlandi gætu hugsað sér að vinna í álveri. Loks rifjaði Guðmundur upp að hans fyrirtæki hefði haft stefnu í umhverfismálum allar götur frá 1920 og sagði greinina hafa verið í fararbroddi á því sviði.

Verðmæti Bláa lónsins eða ósnerts hrauns?

Júlíus Jónsson lýsti ánægju með erindi Þórðar Friðjónssonar um efnahagslegt mikilvægi orku- og álframleiðslu í íslenska hagkerfinu, upplýsingar um afleidd störf o.s.frv. Hann sagði að Jarðboranir myndu t.d. ekki hafa mörg verkefni ef ekki væru virkjanaframkvæmdir. Hins vegar sagði hann togstreitu milli landshluta óæskilega en þó skiljanlega og lýsti áhuga á að pólitískum afskiptum af þessari þróun færi að linna. Þá benti hann á að erfitt væri að reikna fyrirfram út verðmæti umhverfis og benti m.a. á Bláa lónið sem hann sagði vinsælasta ferðamannastað landsins. Enginn hefði litið til hægri á leið til Grindavíkur, áður en lónið myndaðist.

Vel launuð störf, forsenda velferðarkerfis

Ragnar Guðmundsson fjallaði um könnun Gallup, erindi Gylfa um góð störf í álverum og erindi Smára og Guðmundar um staðbundin áhrif. Hann sagði fyrirtæki og vel launuð störf, sem skiluðu skatttekjum til íslenska ríkisins og íslenskra sveitarfélaga vera forsendu öflugs velferðar- og menntakerfis á Íslandi.

Trygg hátæknistörf

Rannveig lýsti ánægju með góða þátttöku og málefnalega umræðu á ráðstefnunni. Hún fjallaði um hátæknistörf í orku- og áliðnaði og vísaði til erindis Ágústs Valfells þar sem sýnd voru tengsl raforkuframleiðslu og menntunar á raunvísindasviði. Hún lagði áherslu á að í álverum væri um að ræða trygg störf, m.a. mikið af tryggum hátæknistörfum. Þessi fyrirtæki pakka ekki niður og flytja starfsemina úr landi svo glatt, sagði Rannveit. Þá sagði hún erfitt að fjölga konum í álverinu í Straumsvík, því eins og fram hafi komi á erindi Gylfa þá hættir enginn hjá því fyrirtæki! Stækkun gæfi vonandi tækifæri til fjölgunar kvenna.

Engin ófaglærð störf í álverum

Tómas Már fjallaði einnig um fyrrnefnda Gallup-könnun sem gerð var á Austurlandi og þau jákvæðu viðbrögð sem Alcoa finnur fyrir almennt. Þannig hafi um eitt þúsund umsóknir borist um u.þ.b. þrjátíu störf sem fyrirtækið hafi auglýst, sem í flestum tilfellum eru verkfræðistörf eða sambærileg. Tómas sagði ekki til nein ófaglærð störf í álverum, þar væri stöðug þjálfun og fræðsla til staðar.

Rannsóknir kostaðar af orkufyrirtækjum

Ari spurði Björgólf um losun gróðurhúsalofttegunda og hnattræn áhrif, hvort minnkun orkuframleiðslu hérlendis gæti ekki kallað beint á aukna losun vegna t.d. kolabrennslu erlendis. Björgólfur sagði Ísland ekki skipta miklu máli í hnattrænu samhengi, þótt allt skipti þar vissulega máli, en fjallaði um fleiri leiðir fyrir okkur til að leggja af mörkum, t.d. útflutning virkjanaþekkingar og auknar rannsóknir. Aðspurður sagði hann jákvæðar niðurstöður Gallup ekki hafa komið sér á óvart, a.m.k. ekki að fólk teldi hægt að sætta sjónarmið. Friðrik benti á að þær rannsóknir sem hér væru gerðar væru borgaðar af orkufyrirtækjunum, sbr. rammaáætlun um virkjanakosti, þannig að þetta væri allt í samhengi. Aðspurður um afhendingargetu á meiri orku lagði Friðrik m.a. áherslu á að ekki væri búið að semja um neitt í þeim efnum.

Samtök atvinnulífsins