Efnahagsmál - 

30. Janúar 2011

Áhugaleysi ríkisstjórnar og ASÍ á atvinnuleysinu áhyggjuefni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áhugaleysi ríkisstjórnar og ASÍ á atvinnuleysinu áhyggjuefni

"Við teljum að það sé útlátalaust fyrir ríkisstjórnina að girða sig í brók og fara að klára einhver mál svo við getum farið að koma okkur upp úr þessari djúpu holu sem við erum í en ekki halda áfram að moka á botninum." Þetta segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í ítarlegu viðtali í helgarútgáfu Fréttablaðsins um atvinnumálin, yfirstandandi kjaraviðræður og stjórnmálin. Vilmundur segir að það hafi komið SA á óvart hvað ASÍ og ríkisstjórnin hafi litlar áhyggjur af atvinnuleysinu. "Það er eins og það sé bara sjálfsagt mál að það séu hér fjórtán þúsund manns atvinnulausir."

 "Við teljum að það sé útlátalaust fyrir ríkisstjórnina að girða sig í brók og fara að klára einhver mál svo við getum farið að koma okkur upp úr þessari djúpu holu sem við erum í en ekki halda áfram að moka á botninum." Þetta segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA, í ítarlegu viðtali í helgarútgáfu Fréttablaðsins um atvinnumálin, yfirstandandi kjaraviðræður og stjórnmálin. Vilmundur segir að það hafi komið SA á óvart hvað ASÍ og ríkisstjórnin hafi litlar áhyggjur af atvinnuleysinu. "Það er eins og það sé bara sjálfsagt mál að það séu hér fjórtán þúsund manns atvinnulausir."

Vilmundur segir í viðtalinu að ríkisstjórnin hafi mikla möguleika til að ná sátt um sjávarútvegsmálin sem mikið hefur verið deilt um.

"Sjávarútvegsmálin eru búin að þvælast fyrir ríkisstjórninni, hún er búin að halda þessu í gíslingu frá því hún komst til valda. Það er ekki eins og við séum stödd á byrjunarreit, við erum að mínu mati komin svo langt að það er aðeins handavinnan eftir.

Það var skipuð sáttanefnd undir forystu Guðbjarts Hannessonar sem komst að niðurstöðu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins í september síðastliðnum. Þar náðist sátt um svokallaða samningsleið, sem er í grundvallaratriðum sú sama og gildir fyrir aðrar auðlindir á Íslandi.

Við teljum það í raun kraftaverk að þessi hópur hafi náð svo langt að það sé sátt í sjávarútvegi í sjónmáli. Menn hafa flogist á um sjávarútveginn áratugum saman. Það hefur varla nokkurt mál verið jafn mikið í umræðunni og skipt þjóðinni jafn mikið í fylkingar og sjávarútvegurinn.

Nú eru komnir fjórir mánuðir frá því sátt náðist um samningaleiðina, en enn hefur ekkert komið frá ríkisstjórninni. Sjávarútvegurinn getur ekki staðið undir þessu. Þetta eru ekki starfsskilyrði sem hægt er að sætta sig við. Nú þegar við erum að reyna að komast upp úr kreppunni þurfum við virkilega á því að halda að sjávarútvegurinn, sem er okkar sterkasta atvinnugrein, geti farið að vinna af krafti og byrjað að fjárfesta.

Það er mikil óvissa í sjávarútveginum, það er verið að véla um framtíðina og það stendur öllu fyrir þrifum að því máli sé ekki lokið. Það er útilokað að fara út í fjárfestingar ef hættan er sú að komið verði í bakið á útgerðarfyrirtækjunum eftir einhvern tíma með breyttum forsendum. Við teljum að þetta geti ekki gengið svona, það er hagur alls atvinnulífs í landinu að þessi mál séu kláruð."

Vilmundur bætir við að fyrirtæki í öllum greinum séu háð sjávarútveginum að einhverju leyti. Það er gott fyrir ferðaþjónustuna, iðnaðinn, verslun og þjónustu að það gangi vel í sjávarútveginum.

Hörð viðbrögð ASÍ sem ákváðu að hætta kjaraviðræðum við SA vegna afstöðu SA til sjávarútvegsmála komu Vilmundi á óvart.

"Ég verð að viðurkenna að ég er hissa á því að ASÍ skuli í raun hverfa frá samningsborðinu vegna þessa máls. Ég hefði talið það hagsmunamál verkafólks á Íslandi að það náist sátt um sjávarútveginn og við förum að komast upp úr þessari kreppu. Ég hefði fyrirfram talið að ASÍ myndi taka þessu fagnandi og viljað fá þetta mál á hreint. Ég átti alls ekki von á að þeir myndu bregðast svona við.

Hjól atvinnulífsins verða að fara að komast af stað. Við erum búin að tala um þetta í tvö ár, en það er í raun ekkert fyrirsjáanlegt í dag sem bendir til þess að þetta sé að fara að lagast. Við erum enn með neikvæðan hagvöxt og horfurnar fyrir árið 2011 eru langt frá því að vera góðar."

Viðtalið í heild má lesa á vef Vísis - í rafrænni helgarútgáfu Fréttablaðsins

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Vilmund Jósefsson

Samtök atvinnulífsins