Vinnumarkaður - 

08. nóvember 2018

Áhrif styttingar vinnuviku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áhrif styttingar vinnuviku

Stytting vinnutíma er mikið rædd þessa dagana og hefur ratað inn í kröfugerðir verkalýðsfélaga. Samtök atvinnulífins eru fylgjandi sveigjanlegri vinnutíma og styttingu þar sem því verður við komið með samkomulagi fyrirtækja og starfsmanna. Sameiginlegur ávinningur getur verið mikill og áhrifin jákvæð á launamun kynja og fjölskylduábyrgð en leið góðra áforma er þyrnum stráð og ýmsa pytti að varast sem hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin.

Stytting vinnutíma er mikið rædd þessa dagana og hefur ratað inn í kröfugerðir verkalýðsfélaga. Samtök atvinnulífins eru fylgjandi sveigjanlegri vinnutíma og styttingu þar sem því verður við komið  með samkomulagi fyrirtækja og starfsmanna. Sameiginlegur ávinningur getur verið mikill og áhrifin jákvæð á launamun kynja og fjölskylduábyrgð en leið góðra áforma er þyrnum stráð og ýmsa pytti að varast sem hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin og fyrirtækin.

Mikilvægt er að læra af sögunni og forðast að endurtaka mistök fortíðar. Í yfirgripsmikilli grein í Vísbendingu fjallar Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, um vinnutímastyttinguna árið 1972, aðgerð sem hrinti af stað óðaverðbólgu.

Vinnutímastyttingin 1972 – grein í Vísbendingu

Mörgum er samband launahækkana og verðbólgu hulið en í greininni er sýnt hvernig stjórnvaldsaðgerð hækkaði launakostnað fyrirtækja um allt að 15% eins og hendi væri veifað. Þar með kviknaði verðbólgubál sem leiddi til aðstæðna í efnahagslífinu sem áttu sér ekki nokkra hliðstæðu meðal vestrænna þjóða á áttunda áratugnum. Margir telja að íslensku óðaverðbólguna megi reka til efnahagsáfalla eins og hruns síldarstofnsins 1967-1968 eða olíukreppunnar 1973-1974 en staðreyndirnar tala öðru máli.

Árið 1971 ríkti stöðugleiki í efnahagslífinu og hagvöxtur var mikill. Gengi krónunnar var fast, launabreytingar hóflegar, alþjóðleg verðbólga var 5% og verðlag á Íslandi var aldrei þessu vant nokkuð stöðugt.

Á nýársdag 1972 tóku gildi lög um 40 stunda vinnuviku sem hækkaði allt tímakaup um 10% og launakostnað enn meira. Víxlverkun launahækkana og verðlags hófst og magnaðist með hverju árinu. Innan fárra ára virtist 50% verðbólga komin til að vera og þurfti að færa miklar fórnir á löngum tíma til að ná henni niður.

Stóri lærdómurinn fyrir þá sem vilja stytta vinnutíma nú með lagabreytingu á Alþingi ætti að vera sá að vinnutími – ef horft er til sögunnar – styttist lítið við það. Árið 1971 var t.d. algengt að unnið væri til hádegis á laugardögum í dagvinnu en árið 1972 var algengt að fólk ynni til hádegis á laugardögum í yfirvinnu. Afleiðingin var að launakostnaður fyrirtækja jókst og verðbólgan fór af stað með tilheyrandi eignabruna.

Í niðurlagi greinarinnar í Vísbendingu segir að breytingar á kjarasamningum verði að byggjast á efnhagslegu svigrúmi til kostnaðarbreytinga og með samingum aðila en ekki einhliða lagasetningu. Sagan geymi fjölmörg dæmi af velmeinandi stjórnmálamönnum sem hafi gripið inn í kjarasamninga með lagasetningu sem skiluðu litlum árangri fyrir launafólk en miklum skaða fyrir það og atvinnulífið. Þetta breyttist með Þjóðarsáttinni 1990.

„Reynsla síðustu aldar af pólitískri íhlutun í frjálsa kjarasamninga á vinnumarkaði var skelfileg fyrir íbúa landsins, launafólk og atvinnulíf, sem þurftu áratugum saman að búa við margfalt meiri verðbólgu og víðtækari höft en í öðrum vestrænum ríkjum,“ segir Hannes G. Sigurðsson.

Samtök atvinnulífsins