Efnahagsmál - 

31. desember 2009

Áhrif fjármálakreppunnar á ríkisfjármál smámunir í samanburði við fjölgun aldraðra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áhrif fjármálakreppunnar á ríkisfjármál smámunir í samanburði við fjölgun aldraðra

Kostnaður vegna fjármálakreppunnar eru smámunir í samanburði við þann kostnað sem lendir á ríkissjóðum þróaðra ríkja vegna fjölgunar aldraðra á komandi áratugum. Þetta er niðurstaða skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birtist fyrr á þessu ári.

Kostnaður vegna fjármálakreppunnar eru smámunir í samanburði við þann kostnað sem lendir á ríkissjóðum þróaðra ríkja vegna fjölgunar aldraðra á komandi áratugum. Þetta er niðurstaða skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birtist fyrr á þessu ári.

Alþjóðlega fjármálakreppan hefur haft mikil áhrif á opinber fjármál í flestum ríkjum. Skatttekjur hafa dregist saman, gjöld aukist, fjármálafyrirtæki fengið mikinn fjárhagslegan stuðning og flest hafa þau gripið til sérstakra örvunaraðgerða fyrir efnahagslífið. Þessir atburðir og aðgerðir hafa valdið miklum hallarekstri hins opinbera og meiri skuldasöfnun en nokkru sinni eftir síðari heimsstyrjöld. Að auki á þessi þróun sér stað þegar framundan er alvarlegur þrýstingur á fjármál hins opinbera á komandi árum í flestum ríkjum vegna fjölgunar aldraðra og fækkunar fólks á vinnualdri.

Á næstu fjórum áratugum mun fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri í Evrópu tvöfaldast í hlutfalli við fólk á vinnualdri. Þessar breytingar á íbúasamsetningu munu auka útgjöld verulega til heilbrigðis- og lífeyrismála. Framkvæmdastjórn ESB hefur áætlað að kostnaðaraukinn muni að jafnaði nema 3,4% af landsframleiðslu árlega, þ.a. 2,3% vegna lífeyris og 1,1% vegna heilbrigðismála og umönnunar aldraðra. Í Bandaríkjunum hefur aukinn kostnaður vegna fjölgunar aldraðra verið áætlaður á bilinu 4,3% til 6,1% af landsframleiðslu árlega á næstu fjórum áratugum.

Kostnaður vegna kreppunnar er áætlaður nema 35% af eins árs landsframleiðslu að meðaltali í 20 stærstu iðnríkjunum samanborið við það að núvirtur kostnaður vegna breyttrar aldurssamsetningar er áætlaður 400% af landsframleiðslu að meðaltali. Áhrifin af breyttri íbúasamsetningu á opinber fjármál eru þannig áætluð hafa 11 sinnum meiri áhrif en skuldaaukning vegna yfirstandandi fjármálakreppu. Mestu áhrifin af breyttri aldursamsetningu á opinber fjármál eru talin verða í Kanada, Kóreu, Spáni og Bandaríkjunum, en þau nema 5-7 faldri landsframleiðslu í þessum ríkjum.

Smelltu til að stækka

Kostnaður vegna hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra miðað við fólk á vinnualdri í þeim ríkjum sem hér er fjallað um fer eftir fjölmörgum þáttum, s.s. hversu dýrt heilbrigðiskerfið er, opinberum lífeyrisréttindum og umfangi lífeyrissparnaðar, en mikilvægasti þátturinn er hversu langt ríkin eru komin á braut hækkandi meðalaldurs. Sambandið milli þess kostnaðar sem AGS áætlar vegna fjölgunar aldraðra í einstökum ríkjum í framtíðinni og hversu langt ríkin eru komin í þessari þróun kemur vel fram þegar upplýsingar í súluritinu hér að ofan eru bornar saman við meðfylgjandi töflu. Þar sést að meðal vestrænu ríkjanna eru það einmitt þau ríki þar sem mesta breytingin verður á aldurssamsetningunni sem AGS áætlar að standi frammi fyrir mestum kostnaði vegna hækkandi meðalaldurs á komandi áratugum.

Staða Íslands

AGS áætlaði ekki framtíðarkostnað Íslands vegna breyttrar aldurssamsetningar í þeirri grein sem hér hefur verið til umfjöllunar. En það má áætla hvar Ísland stendur í samanburði við umræddar þjóðir á grundvelli þess hversu miklum breytingum á aldurssamsetningunni er spáð á Íslandi. Í mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna er því spáð að árið 2050 verði 2,2 einstaklingar á vinnualdri á Íslandi í samanburði við hvern einstakling á lífeyrisaldri samanborið við 5,8 árið 2005. Breytingin nemur 3,6 einstaklingum sem er meira en í nokkru öðru vestrænu ríki. Á grundvelli þess mætti ætla að framtíðarkostnaðurinn verði meiri á Íslandi en í þeim löndum sem sýnd eru í súluritinu, þ.e. enn meiri en í Kanada, þar sem spáð er að breytingin verði frá 5,3 árið 2005 í 2,3 árið 2050, þ.e. um 3 einstaklinga. Á móti kemur að á Íslandi verður lífeyriskerfið, ef það fær að byggjast upp óáreitt, fullþroska og mun sjá lífeyrisþegum fyrir meginhluta þess lífeyris sem þeir fá og auk þess verður hann það mikill í hlutfalli við launatekjur að lífeyrisþegarnir verða flestir skattgreiðendur og standa þannig að hluta undir kostnaði við opinbera þjónustu við aldraða.

Áhrif fjármálakreppunnar hafa verið meiri á Íslandi en í flestum öðrum löndum vegna hruns fjármálakerfisins. Í skýrslu fjármálaráðherra um langtímaáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009-2013, frá því í júlí 2009, var áætlað að skuldir ríkissjóðs ykjust um 102% af landsframleiðslu milli áranna 2009 og 2011 sem er þrefalt hærra hlutfall en að meðaltali í 20 stærstu iðnríkjunum. Þetta hlutfall hefur þó heldur skánað síðan vegna minna framlags ríkisins til bankanna en áætlað var þá. Við þessar skuldir bætast síðan skuldbindingar vegna Icesave sem munu nema hundruðum milljarða til viðbótar. Þannig er vandi Íslands bæði meiri en annarra ríkja vegna fjármálakreppunnar og hugsanlega einnig vegna breyttrar aldurssamsetningar.

Þótt gert sé ráð fyrir að smám saman muni almennt draga úr hallarekstri hins opinbera í flestum ríkjum verða þau mun skuldsettari en fyrir kreppuna. Þannig áætlar AGS að hlutfall skulda hins opinbera af landsframleiðslu hjá 20 ríkustu þjóðum heims verði 36% hærra árið 2014 en það var árið 2007. Verði ekki gripið í taumana mun hlutfallið fara hækkandi eftir það af völdum breyttrar aldurssamsetningar þjóða.

Dökkar horfur í opinberum fjármálum flestra þjóða vekja upp spurningar um gjaldhæfi einstakra ríkja og neikvæð viðbrögð markaða. Koma verður í veg fyrir slík viðbrögð því að traust á að ríki standi í skilum með skuldbindingar sínar er grundvöllur stöðugleika og forsenda efnahagsframfara. AGS gefur því þau ráð að sérstakar örvunaraðgerðir verði smám saman látnar ganga til baka, að hallarekstri hins opinbera verði snúið við þegar hagvöxtur tekur við sér, að hagvöxtur verði örvaður með kerfisbreytingum og að breytingum á íbúasamsetningu verði mætt með breytingum á heilbrigðis- og lífeyriskerfi sem dragi úr kostnaði hins opinbera.

Sjá nánar í skýrslu AGS:

Fiscal Implications of the Global Economic and Financial Crisis (June 9, 2009)

Samtök atvinnulífsins