Áherslur SA vegna aðgerða ríkisstjórnar í þágu fyrirtækja

Í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu fyrirtækja sem nú er unnið að hafa Samtök atvinnulífsins tekið saman áhersluatriði um brýn úrlausnarefni. Þau má nálgast hér á vef SA en þau snúa m.a. að gjaldeyrisviðskiptum, samskiptum við erlenda lánadrottna, lækkun vaxta, uppstokkun atvinnulífsins, nýsköpun og skapandi hugsun, kjarasamningum og skilyrðum fyrir fjárfestingar. Einnig um ársreikninga í erlendri mynt, fjárfestingasjóði, fasteignagjöld, refsiákvæði, opinberar framkvæmdir og ráðdeild í ríkisrekstri.

Áhersluatriðin í heild má sjá hér að neðan:

Áhersluatriði Samtaka atvinnulífsins
vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í þágu fyrirtækja

- nóvember 2008

Gjaldeyrisviðskiptin

Koma IMF prógramminu í gang. Fá lánsfé frá sjóðnum og erlendum ríkjum/seðlabönkum til að koma hreyfingu á gjaldeyrisviðskiptin. Koma gjaldeyrisviðskiptum í bönkum í eðlilegt horf. Gera gjaldeyrisreikninga virka. Ná hagkvæmni í gjaldeyrisviðskiptin.

Eðlileg samskipti við erlenda lánadrottna - ríkið eigi ekki bankana

Erlendir lánadrottnar fái hlutabréf eða skuldabréf með breytirétti í hlutafé í nýju bönkunum gegn hluta af kröfum sínum til þess að stuðla að eðlilegum lánsviðskiptum innlendra aðila við erlenda banka. Styðja við hugsanleg kaup innlendra aðila á erlendum banka í því skyni að ná erlendu lánsfé til landsins.

Lækkun vaxta

Eðlilegir fjármagnsstraumar til og frá landinu eru frumskilyrði þess að gengi krónunnar geti hækkað og náð stöðugleika í ásættanlegu jafnvægi.

Hröð lækkun stýrivaxta er nauðsynleg samhliða hækkandi gengi.

Uppstokkun atvinnulífsins

Bankar þurfa að nálgast fyrirtæki í skuldavanda með það að markmiði  að fyrirtæki stöðvist ekki ef þau hafa lífvænlega framlegð og getu til að standa undir lánum og fjárfestingu. Þetta getur þýtt afskriftir af skuldum og/eða endurfjármögnun, m.a. með eiginfjárframlagi.

Almennt verður að miða við að núverandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja, þar sem hlutafé er afskrifað, geti starfrækt þau áfram og komið að þeim á ný sem eigendur eftir því sem við á enda réttlæti rekstrarleg frammistaða slíkt.

Opinn og sanngjarn ferill er nauðsynlegur þegar bankar eignast eignarhluti í fyrirtækjum. Eignarhaldið þarf að vera í sérstökum opnum eignarhaldsfélögum. Klár aðskilnaður verður að vera á milli eignarhalds í fyrirtækjum og hlutverki banka sem lánveitanda og veitanda fjármálaþjónustu. 

Samkeppnisyfirvöld þurfa að vinna hratt, faglega og markvisst vegna margvíslegra álitamála sem upp koma.

Nýsköpun og skapandi hugsun

Ríkisstjórnin þarf að tileinka árið 2009 nýsköpun og skapandi hugsun. Þetta snýst annars vegar um viðeigandi hvatningu og stemningu og hins vegar um að hlúa að menntun og að verja og styðja sprotastarfsemi í atvinnulífinu óháð aldri eða stærð viðkomandi fyrirtækja.

Kjarasamningar

Almenni vinnumarkaðurinn og opinberi vinnumarkaðurinn sameinist um launastefnu og ljúki samningum sem nái til nóvemberloka 2010. Markmiðið er að geta þá gert langtímasamninga til 4 - 5 ára með lágum prósentuhækkunum á grundvelli lágrar verðbólgu.

Skilyrði fyrir fjárfestingar

Misvísandi skilaboðum um virkjanir og orkunýtingu verður að linna. Stjórnsýsla á sviði umhverfismála og orkunýtingar verður að vera skilvirk og fagleg. Samkvæmni verður að vera í skilaboðum stjórnvalda og eftirlitsstofnana.

Ársreikningar í erlendri mynt

Veita verður fyrirtækjum (þ.m.t. bönkum) fullt svigrúm til skráningar ársreikninga í annarri mynt en íslenskum krónum og að heimilt verði  að skrá og versla með hlutabréf í sömu mynt.

Heimild til skráningar þarf að geta verið afturvirk m.v. áramótin 2007/2008.

Fjárfestingarsjóðir

Stofna ætti einn stóran fjárfestingarsjóð atvinnulífsins með lífeyrissjóðum og helst erlendum aðilum sem kaupir eignarhluti í fyrirtækjum. Bankarnir hafi eignarhaldsfélög á sínum vegum opin fyrir öðrum aðilum vegna þeirra eigna sem þeir taka yfir.

Fasteignagjöld

Sveigjanleiki verður að vera í álagningu fasteignagjalda af ónotuðu húsnæði. Í þeim tilvikum þarf að fella niður/gefa verulegan afslátt af gjöldum.

Sveigjanleiki sem verið hefur í innheimtu opinberra gjalda hjá atvinnulífinu verður að halda áfram.

Refsiákvæði

Fara þarf yfir refsiákvæði hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga í því skyni að afstýra því að stjórnendum sé refsað fyrir að gera (heiðarlega) tilraun til þess að komast í gegnum þá erfiðleika sem nú er glímt við.

Opinberar framkvæmdir

Halda þarf úti arðsömum og atvinnuskapandi framkvæmdum, varanlegum endurbótum og viðhaldsverkefnum sem frekast er kostur.

Ráðdeild í ríkisrekstri

Gæta verður aðhalds í rekstri hins opinbera og að lækkun útgjalda dreifist með eðlilegum hætti í verkefni innan og utan stofnana.