Samkeppnishæfni - 

14. desember 2005

Áherslur Evrópusamtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Áherslur Evrópusamtaka atvinnulífsins

Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, sóttu á dögunum fund formanna aðildarsamtaka UNICE, Evrópusamtaka atvinnulífsins en samtökin eiga bæði aðild að UNICE. Á fundinum voru til umfjöllunar ýmis þau mál sem eru efst á baugi í atvinnulífinu í Evrópu, svo sem samkeppnishæfni, frelsi í þjónustuviðskiptum, ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO í Hong Kong og loftslagsmál, auk innri málefna ESB á borð við langtímafjárhagsramma sambandsins.

Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka iðnaðarins, sóttu á dögunum fund formanna aðildarsamtaka UNICE, Evrópusamtaka atvinnulífsins en samtökin eiga bæði aðild að UNICE. Á fundinum voru til umfjöllunar ýmis þau mál sem eru efst á baugi í atvinnulífinu í Evrópu, svo sem samkeppnishæfni, frelsi í þjónustuviðskiptum, ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO í Hong Kong og loftslagsmál, auk innri málefna ESB á borð við langtímafjárhagsramma sambandsins.

Samkeppnishæfni og frelsi í þjónustuviðskiptum

Í yfirlýsingu UNICE til ráðherraráðs ESB er mikil áhersla lögð á að evrópsk fyrirtæki séu samkeppnisfær á tímum vaxandi alþjóðlegrar samkeppni og að það umhverfi sem þau starfa í ýti undir samkeppnishæfni þeirra. Samþykkt þjónustutilskipunar ESB mun þar hafa mikið að segja en markmiðið með henni er gera að veruleika aukið frelsi í viðskiptum með þjónustu eins og að er stefnt með samningunum um ESB og EES. Kom fram ánægja með nýjustu tillögur sem fastanefnd Evrópuþingsins um innri markaðinn samþykkti nú fyrir stuttu. Leiðtogar ESB voru hvattir til að ná samkomulagi um langtímafjárhagsramma ESB og að hann endurspegli markmið Lissabon áætlunarinnar um aukna samkeppnishæfni. Kom fram gagnrýni á tillögur um svokallaðan Hnattvæðingarsjóð ESB (Globalisation Fund) og hann talinn óþarfur enda næg úrræði þegar til staðar af því tagi.

Einnig er áhersla lögð á mikilvægi þess að árangur náist á ráðherrafundi WTO sem nú stendur yfir í Hong Kong. Evrópskt atvinnulíf gerir kröfu um að fundurinn muni leggja sitt af mörkum til aukins viðskiptafrelsis og bættra reglna í milliríkjaviðskiptum. Afar mikilvægt er að tilætlaður árangur náist af yfirstandandi WTO samningalotu í átt að auknu frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu.

Gegn einhliða skuldbindingum í loftslagsmálum

Þá var m.a. fjallað um niðurstöður Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna sem er nýlokið í Montreal. Evrópusamtökin leggja áherslu á að raunverulegur alþjóðasamningur verði gerður með þátttöku sem flestra ríkja og að aukin áhersla verði lögð á að nýsköpun og tækniþekking verði nýtt til að auka líkurnar á að fleiri ríki, t.d. Bandaríkin, taki þátt í gerð slíks alþjóðasamnings. Er hvatt til þess að ESB hverfi frá einhliða skuldbindingum og breyti um aðferðarfræði til að liðka fyrir því að lausn finnist sem allir geti sætt sig við.

Sjá skilaboð UNICE til leiðtogafundar ESB.

Samtök atvinnulífsins