Áhersla á mikilvægi aðhalds í ríkisfjármálum
Í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna fjallaði Kristján Ragnarsson, fráfarandi formaður samtakanna, m.a. um áhrif stóriðjuframkvæmda og mikilvægi aðhalds í ríkisfjármálum. "Gengi ræðst af framboði og eftirspurn á markaði. Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru í efnahaglífinu vegna mikilla framkvæmda við virkjanir og smíði væntanlegra álvera, verða stjórnvöld að bregðast við með viðeigandi hætti. Koma þarf í veg fyrir að innstreymi gjaldeyris valdi útflutningsatvinnuvegum erfiðleikum. Það verður best gert með aðhaldi í fjármálum ríkisins sem því miður birtist ekki með nægilega skýrum hætti í fjárlagafrumvarpi næsta árs."
Formaður í 33 ár
Í ræðu sinni fjallaði Kristján m.a. um breytt samkeppnisumhverfi
sjávarútvegs, umræður um stjórn fiskveiða, byggðatengingu
veiðiheimilda, línuívilnun, kjaramál sjómanna o.fl. Loks þakkaði
Kristján útvegsmönnum, núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum og
starfsfólki LÍÚ fyrir samstarfið, en Kristján gegndi formennsku í
LÍÚ í 33 ár, auk þess að hafa starfað fyrir þau frá árinu 1958.
Sjá ræðu Kristjáns á heimasíðu LÍÚ.