Áhersla á efnahagslega sjálfbæra þróun

UNICE, Evrópusamtök atvinnurekenda, hafa gert athugasemdir við umfjöllun framkvæmdastjórnar ESB um sjálfbæra þróun, sem er ofarlega á dagskrá leiðtogafundar sambandsins í Gautaborg 15. og 16. júní nk. Samtökin minna á að hugtakið sjálbær þróun vísar til vistfræðilegra, félagslegra og efnahagslegra þátta. Þau benda hins vegar á að í umfjöllun sinni um sjálfbæra þróun leggi framkvæmdastjórn ESB megin áherslu á fyrri tvo þættina, en vanræki efnahagslegu hliðina.

UNICE leggja áherslu á mikilvægi þess að hugað sé að þriðja þættinum, þ.e. efnahagslegri hlið sjálfbærrar þróunar. Háleitum markmiðum á sviði umhverfisverndar þurfi að fylgja umbætur á starfsumhverfi fyrirtækja og svigrúm til hagræðingar. Hins vegar fagna UNICE því að framkvæmdastjórn ESB fjalli um sjálfbæra þróun sem hnattrænt markmið og segja að umhverfisstefna verði því að tengjast alþjóðlegu samstarfi. Einhliða aðgerðir af hálfu ESB gætu einungis orðið til að draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja í sambandsríkjum og dregið úr getu þeirra til að leggja sitt af mörkum í þágu umhverfisverndar. Sjá nánar rafrænt fréttabréf UNICE.